NPA miðstöðin fullgildur meðlimur í ENIL, Evrópusamtökum um sjálfstætt líf

Stjórn Evrópusamtaka um sjálfstætt líf (European Network on Independent Living - ENIL) hefur afgreitt umsókn NPA miðstöðvarinnar um inngöngu í Evrópusamtökin og veitti NPA miðstöðinni fulla aðild að samtökunum.

Þetta eru ánægjufréttir fyrir NPA miðstöðina enda er sjálfstætt líf fatlaðs fólks, sem borgara er njóta skulu mannréttinda og borgaralegra réttinda til jafns við aðra, grundvöllurinn að starfsemi miðstöðvarinnar. Aðild að ENIL og það samstarf við aðrar Evrópuþjóðir, sem hún mun leiða af sér, mun veita NPA miðstöðinni aukinn styrk í baráttunni fyrir réttinum til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) á Íslandi. Ennfremur mun aðild að samtökunum styðja við frekari þróun og uppbyggingu starfs NPA miðstöðvarinnar.

ENIL eru mannréttindasamtök fatlaðs fólks um sjálfstætt líf, er starfa í öllum löndum Evrópusambandsins, en skrifstofur ENIL eru í Brussel. Systurmiðstöðvar NPA miðstöðvarinnar í Noregi og Svíþjóð taka ríkan þátt í starfi ENIL, sem er í fararbroddi í baráttu fatlaðs fólks fyrir mannréttindum og borgaralegum réttindum. Hugmyndafræði ENIL byggir á því að fatlað fólk sé eðlilegur hluti af samfélaginu, byggir á mætti samvinnu og samstöðu, jafningjastuðningi, jafningjafræðslu, afstofnanavæðingu, lýðræði og fleiru. ENIL eru samtök þar sem fatlað fólk er sjálft við stjórnvölinn og kemur fram sem málsvari hagsmuna fatlaðs fólks.

Heimasíða ENIL: enil.eu

 

 

e-max.it: your social media marketing partner

Prenta | Netfang