Aðstoðarfólk starfar eftir hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf (e. Independent living). Hugmyndafræðin snýst um að fatlað fólk hafi stjórn á eigin aðstoð, þ.e. hvaða verk eru unnin, hver vinni þau, hvar og hvenær. Þetta gefur fötluðu fólki kost á að vera í réttu hlutverki í fjölskyldu sinni, vinnu, skóla og samfélagi með öllum réttindum og skyldum sínum meðtöldum.

Hlutverk aðstoðarfólks er að aðstoða einstaklinginn við þær athafnir sem einstaklingurinn getur ekki framkvæmt án aðstoðar vegna fötlunar sinnar. Störf aðstoðarfólks geta þannig verði mjög fjölbreytt og fara eftir þörfum og lífsstíl þess einstaklings sem aðstoðarfólkið er ráðið í vinnu hjá.

Einstaklingar með NPA (sem kallaðir eru verkstjórnendur) sjá um að auglýsa, taka viðtöl við umsækjendur og ráða aðstoðarfólk sem það telur henta sínum lífsstíl. Næst tekur við þjálfun aðstoðarfólksins undir handleiðslu verkstjórnandans. Hlutverk aðstoðarfólks er því ekki að annast fatlað fólk eða stýra lífi þess, heldur stýrir verkstjórnandinn sínu lífi og annast sig sjálfur með aðstoð síns aðstoðarfólks.

Oftast er ætlast til þess að aðstoðarfólk sé frekar hlutlaust í starfi sínu og hafi sem minnst áhrif á ákvarðanatöku verkstjórnandans. Einnig getur verið mikilvægt fyrir aðstoðarfólk að láta lítið fyrir sér fara þegar það á við svo sem á fundum og í fjölskylduboðum. Mjög mikilvægt er fyrir aðstoðarfólk að átta sig á því að krafan um þagmælsku/trúnað er mjög sterk.

Dæmi um störf aðstoðarfólks geta verið til dæmis eitthvað af eftirtöldu:

 • Aðstoð við þátttöku í félagslífi, tómstundum og íþróttum
 • Aðstoð við þrif, viðhald og umhirðu (t.d. heimilis, bíls, hjálpartækja)
 • Aðstoð við að elda eða baka
 • Aðstoð við að borða, drekka, taka lyf
 • Aðstoð við nám og/eða vinnu
 • Aðstoð við kaup í matinn, föt, tæki og tól o.fl.
 • Aðstoð við athafnir daglegs lífs (t.d. klæða/hátta, salerni, bað/sturtu)
 • Aðstoð við persónulega umhirðu (bursta tennur/hár, snyrtingu og föðrun, o.fl.)
 • Aðstoð við hreyfingu og heislurækt
 • Aðstoð við undirbúning viðburða (t.d. hátíða, afmælis, tilfallandi teyta)
 • Aðstoð við umhirðu gæludýra
 • Aðstoð við foreldrahlutverkið, fjölskyldulífið
 • Aðstoð við styttri eða lengri ferðir/ferðalög
 • Aðstoð við að opna og lesa póst, dagblöð, bækur o.fl.
 • Aðstoð við akstur
 • Aðstoð við snjómokstur og umhirðu garðs (vökva blóm, klippa runna, slá gras og fleira)
Aðstoðarfólkið hefur það hlutverk að aðstoða mig við allar athafnir daglegs lífs sem ég myndi sjálfur framkvæma ef ekki væri fyrir líkamlega skerðingu mína. Hvort sem það er að tannbusta mig eða pússa felgur, rækta tómata, taka til, smíða, versla, mála og elda, svo fátt sé nefnt. Aðstoðarfólk mitt þarf að geta framkvæmt aðstoðina eftir leiðbeiningum frá mér. Mikilvægt er að aðstoðarfólkið læri að vera hlutlaust og að draga sig í hlé eftir þörfum til að gefa mér tækifæri á að vera „einn“ eða einn með einhverjum öðrum. Eitt af því sem mér finnst gaman að geta gert með NPA er að bjóða fólki í matarboð. Ég bíð spenntur eftir því að komast út á vinnumarkað eftir að ég lýk námi sem garðyrkjufræðingur sem hvorugt væri gerlegt án notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
Rúnar