Rúnar Björn 080582 4209 IMG 9388Nýverið gaf verkefnastjórn velferðarráðuneytisins um NPA út tilmæli til sveitarfélaga um að fylgja ætti kjarasamningum við gerð NPA samninga og að hætt yrði að gefa út viðmið vegna kostnaðar á hverja tímaeiningu.

„Verkefnisstjórn um NPA samþykkir að hætta að birta viðmið vegna kostnaðar við hverja tímaeiningu við notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Jafnframt vill verkefnisstjórn NPA árétta mikilvægi þess að í samningsgerð við umsýsluaðila og/eða notendur NPA sé ávallt fylgt ákvæðum þeirra kjarasamninga sem í gildi eru á hverjum tíma.“

„Jafnaðarstundin“ barn síns tíma

Viðmið vegna kostnaðar á hverja tímaeiningu eða „Jafnaðarstundin“ var í upphafi ætluð sem eitthvað einfalt viðmið svo hægt væri að áætla hvað hver NPA vinnustund gæti husanlega kostað. Útreikningar á baki hennar voru frekar einfaldir og óraunhæfir, enda bara viðmið, svona til að byrja einhversstaðar. Engir kjarasamningar voru til sem pössuðu nægjanlega vel og ekki mikil reynsla heldur.

Í dag búum við hinsvegar við þann raunveruleika að til er NPA sérkjarasamningur og á hann er komin talsverð reynsla (yfir þrú ár). Í dag er enginn vafi á því hvað NPA kostar.

Það er því furðulegt að sveitarfélögin hafi í meira og meira mæli tekið viðmiðið sem eitthvað algert hámark. Sum sveitarfélög halda sig jafnvel enn við upprunalegu upphæðina sem er orðin margra ára gamalt viðmið.

Sveitarfélög úthluta í dag notendum vissan fjölda klukkustunda sem þau hafa metið sem þjónustuþörf en greiða svo upphæð sem stenst engan vegin raunveruleikann. Í flestum ef ekki öllum NPA samningum er svo notendum gert skýrt grein fyrir því að þeir verði að greiða aðstoðarfólki samkvæmt kjarasamningum.

Staðan í dag er sú að notendur geta einungis fengið hluta af þeirri aðstoð sem þeir þurfa. Dæmi eru um að fólk sem þarf mjög mikla aðstoð, þurfi að skera niður um 1-2 af hverjum 7 úthlutuðum tímum. Það þýðir að fólk er að skera niður 1-2 daga af hverri 7 daga viku. Fatlað fólk með mikla þjónustuþörf getur þetta ekki lengi áður en eitthvað alvarlegt kemur upp á og hefur sjálfsagt gerst nú þegar.

Nú er komið að endurnýjun flestra ef ekki allra NPA samninga og í nýjum samningum verður að hafa kjarasamninga aðstoðarfólks í huga við mat á upphæðum.

Rúnar Björn Herrera
Formaður NPA miðstöðvarinnar