IMG 1486NPA miðstöðin hefur ásamt Eflingu og Starfsgreinasambandinu undanfarin misseri unnið hörðum höndum að gerð nýs kjarasamnings fyrir NPA aðstoðarfólk. Þeirri vinnu lauk í dag, föstudaginn 10. júní 2016, með undirritun nýs kjarasamnings.

Kjarasamningurinn hafði áður verið kynntur á félagsfundi NPA miðstöðvarinnar þann 19. mars sl. og samþykktur þar af félagsmönnum. Gengið var svo endanlega frá kjarasamningnum eftir að hann hafði verið borinn undir Vinnueftirlitið og fengið jákvæða umsögn er sneri fyrst og fremst að hvíldarvöktum aðstoðarfólks (sofandi næturvaktir).

NPA miðstöðin fagnar þessum merka áfanga. Með kjarasamningnum eru treyst í sessi ákveðin viðmið og vinnufyrirkomulag fyrir NPA aðstoðarfólk sem að mati miðstöðvarinnar eru bæði til hagsbóta fyrir NPA notendur og aðstoðarfólk þeirra.

Hinn nýji samningur kemur strax til framkvæmda, en gildandi launatafla samkvæmt samningnum var þegar komin til framkvæmda við launagreiðslur til aðstoðstoðarfólks fyrir nokkru síðan. Næstu daga og vikur mun NPA miðstöðin kynna kjarasamninginn fyrir félagsmönnum sínum og NPA aðstoðarfólki þeirra.

(Á myndinni eru Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, stjórnarformaður NPA miðstöðvarinnar svf., og Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu.)

Kjarasamningur NPA miðstöðvarinnar við Eflingu

Kjarasamningur NPA miðstöðvarinnar við Starfsgreinasambandið