Baráttufélagi jarðsunginn í dag

Í dag minnumst við baráttufélaga og vinar. Blær Ástríkur Stefán Ástuson Ástráðsson táknmálsfræðingur og lögfræðinemi verður borinn til grafar í dag, föstudaginn 29. janúar. Blær (sem áður hét Ásdís Jenna Ástráðsdóttir) varð bráðkvaddur á heimili sínu laugardaginn 16. janúar síðastliðinn.

Blær fæddist 10. janúar 1970, barn hjónanna Ástráðs B. Hreiðarssonar læknis (f. 1942) og Ástu B. Þorsteinsdóttur hjúkrunarfræðings (1945-1998). Blær lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1992 og var eftir það í um eitt ár við nám í lýðháskóla í Danmörku. Blær lauk síðar BA-námi í táknmálsfræði við Háskóla Íslands og las einnig fötlunarfræði við HÍ. Síðustu ár var Blær í námi við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Blær var þjóðinni kunnur fyrir baráttu sína fyrir réttindum fatlaðs fólks. Hann barðist meðal annars fyrir því að fá NPA og að búa á eigin heimili, fyrir aðgengi að háskólanámi og fyrir rétti til táknmálsþjónustu en Blær stefndi íslenska ríkinu og Háskóla Reykjavíkur fyrir að neita honum um túlkaþjónustu við nám.

Blær kom að stofnun NPA miðstöðvarinnar og var frá byrjun virkur í starfi og stjórn miðstöðvarinnar. Hann sinnti m.a. formennsku tímabundið á vormánuðum árið 2014.

Blær skrifaði greinar í blöð og tímarit auk þess sem hann sinnti kveðskap og sendi meðal annars frá sér ljóðabókina „Ég hugsa eins og þið“ árið 1990.

Eftirlifandi eiginmaður Blæs er Kevin Kristófer Oliversson. Sonur þeirra er Adam Ástráður sem er níu ára gamall.

Þrautseigja Blæs og baráttuandi mun veita okkur innblástur um ókomna framtíð. NPA miðstöðin þakkar Blæ hjartanlega fyrir samfylgdina og sendir aðstandendum hans samúðarkveðjur.