Margir NPA notendur fengið bólusetningu

Birt 8. febrúar 2021, kl. 11:25 og 10. febrúar kl. 13:20.

Staða bólusetninga á NPA notendum hefur breyst mikið á síðustu þremur vikum. Í dag sýnist okkur að meirihluti NPA notenda á landinu séu búnir að fá sína fyrri bólusetningu. NPA miðstöðin telur líklegt að allir NPA notendur og fólk með beingreiðslusamninga sem hefur sína umsýslu hjá NPA miðstöðinni séu búnir að fá boð í bólusetningu, fyrir utan einn aðila, en mál viðkomandi er komið í réttan farveg innan heilsugæslunnar.

NPA AÐSTOÐARFÓLK
Miðað við núverandi áætlanir er talið ólíklegt að aðstoðarfólk verði bólusett á næstunni og í millitíðinni geta orðið mannabreytingar og listar breyst. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun láta NPA miðstöðina vita þegar styttist í bólusetningu aðstoðarfólks og NPA miðstöðin mun þá senda alla lista yfir aðstoðarfólk sitt til viðeigandi heilsugæslna um allt land.

FATLAÐ FÓLK MEÐ ÖNNUR ÞJÓNUSTUFORM

  • Fáir einstaklingar með beingreiðslusamninga eða stoðþjónustu virðast hafa fengið boð í bólusetningu.
  • Þau sem hafa hlotið bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu virðast flest hafa talað sérstaklega við heilsugæsluna og/eða félagsþjónustu síns sveitarfélags til að minna á sig.
  • Heilsugæslan og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru að skoða stöðu þessara hópa og funduðu um málið í þar síðustu viku og munu aftur funda í þessari viku. Fari svo að þessi hópur fái ekki bólusetningu á næstunni, er vert að nefna, að þá hlýtur hann að falla í hóp fólks með undirliggjandi áhættuþætti sem er næsti forgangshópur á eftir öldruðum.
  • NPA miðstöðin mun reyna að vekja athygli á fólki með annað þjónustuform en NPA, í sínum samtölum, en hefur ekki sömu aðkomu að ferlinu eða rétt á upplýsingum eins og varðandi notendur NPA miðstöðvarinnar og aðstoðarfólk þess.

BÓLUSETNINGARÁÆTLANIR
Samkvæmt fréttum RÚV frá því núna um helgina, þann 6. febrúar síðastliðinn, stendur til að 74 þúsund skammtar af AztraZeneca (fyrir 37.000 manns) hafi borist hingað til lands fyrir lok mars. Það bætist við fyrri áætlanir um sendingar frá Moderna og Phizer. Bjartsýni ríkir um að bólusetning muni ganga hraðar fyrir sig á öðrum ársfjórðungi ársins en hingað til.

RANNSÓKN PFIZER Á ÍSLANDI?
Hávær orðrómur hefur verið á kreiki undanfarna daga um að samningur við Pfizer sé í höfn og að von sé á mörg hundruð þúsund skömmtum af bóluefninu til landsins svo hægt verði að framkvæma rannsóknina. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði hins vegar síðast í morgun að ekkert væri í hendi hvað það varðar. Tíminn einn leiðir það í ljós.

Edit: Eftir fund Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis og Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar við Phizer í gær, er orðið ljóst að ekkert verður úr samningi Íslands og Phizer um rannsókn og tilheyrandi bóluefni á Íslandi.

FYRIRVARI
Eins og áður eru upplýsingar NPA miðstöðvarinnar settar fram með fyrirvara enda óvissuþættir margir.

Image by Alexey Hulsov from Pixabay