Í dag minnumst við Önnu Guðrúnar Sigurðardóttur, vinkonu okkar og ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni. Anna Guðrún lést á krabbameinsdeild Landspítalans þann 16. febrúar síðastliðinn. Hún var jarðsungin frá Langholtskirkju í dag.

Anna Guðrún fæddist 18. september 1975, barn Sigríðar Önnu Sveinbjörnsdóttur sem lést í desember 2015 og Sigurðar Þorsteinssonar.

Anna Guðrún hóf störf sem ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni í nóvember 2018. Leiðir Önnu Guðrúnar og sumra okkar höfðu skarast löngu fyrir þann tíma og hún var ekki ný í NPA hópnum enda hafði hún áður unnið hjá Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar og skrifstofur beggja aðila voru í Sjálfsbjargarhúsinu. Við minnumst með þakklæti notalegra stunda og spjalls á milli vinnustunda, t.d. úti á svölunum í Sjálfsbjargarhúsinu í góðu veðri.

 

Anna Guðrún hafði gaman af því að ferðast um landið og gerði það m.a. á stórum bíl í hennar eigu sem bar nafnið „Fatlafólið“ en þannig var bíllinn merktur að utanverðu. Hún naut einnig samveru við fjölskylduna og heyrðum við iðulega af ferðum til Grindavíkur þar sem hún heimsótti bróður sinn, Guðjón. Hún naut samveru við fjölskylduna og var mikil barnagæla enda hafði hún mikla ánægju af samverustundum með Guðjóni bróður sínum og börnum hans og barnabörnum. Ekki má svo gleyma kisunum sem henni þótti svo vænt um og veittu henni ljúfan félagsskap.

Um mitt ár 2019 fór Anna Guðrún að finna fyrir erfiðum einkennum sem ekki fannst strax skýring á en kom síðar í ljós að mátti rekja til ólæknandi krabbameins. Anna Guðrún tók leyfi frá störfum frá NPA miðstöðinni í upphafi ársins 2020 til að einbeita sér að baráttunni við meinið.

Anna Guðrún var hæglát, ljúf og gegnumgóð en undir hæglátu yfirborði leyndist mikil þrautseigja, jákvæðni og glettni sem fleytti henni langt í baráttu fyrir sínum réttindum sem fötluð manneskja og loks í baráttunni við krabbameinið.

NPA miðstöðin vill nota tækifærið og þakka Maríu Friðgerði Bjarnadóttur aðstoðarkonu Önnu Guðrúnar fyrir að sinna starfi sínu af alúð og ósérhlífni í veikindum Önnu Guðrúnar þar til yfir lauk.

Fyrst og síðast þakkar NPA miðstöðin Önnu Guðrúnu hjartanlega fyrir samfylgdina og sendir Sigurði föður hennar, Guðjóni bróður hennar og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.