Nýverið féll dómur í héraðsdómi Reykjavíkur sem staðfestir að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) er lögbundinn réttur fatlaðs fólks og að það sé ólöglegt að setja kvóta á þau mannréttindi.

Hvaða þýðingu hefur þessi dómur fyrir fatlað fólk? 

Dómur héraðsdóms er afdráttarlaus og staðfestir að rétturinn til NPA er skýr og sveitarfélögum er óheimilt að tefja afgreiðslu umsókna um NPA, t.d. með vísan til þess að mótframlög berist ekki úr ríkissjóði eða með öðrum fyrirvörum.

Þessi dómur þýðir að allt fatlað fólk sem hefur sótt um NPA, og uppfyllir önnur skilyrði fyrir þjónustunni, á rétt á því að sveitarfélagið afgreiði umsókn þeirra skjótt og örugglega.

Dómurinn felur í sér að sveitarfélög skulu:

 1. Þegar í stað samþykkja umsóknir allra þeirra sem sótt hafa um NPA og uppfylla skilyrði laganna fyrir þjónustunni. 
  Dómurinn þýðir að allt fatlað fólk sem hefur sótt um NPA, og uppfyllir skilyrði fyrir þjónustunni, á rétt á því að sveitarfélagið afgreiði umsóknina skjótt og örugglega.
 2. Gera einstaklingum sem þegar hafa fengið samþykki fyrir NPA, kleift að hefja NPA án frekari tafa og án áskilnaðar um mótframlög úr ríkissjóði eða öðrum fyrirvörum. .
  Í dómnum kemur fram að þrátt fyrir að í lögunum sé að finna ákvæði um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi tiltekinn fjölda af samningum, þá er ekki að finna ákvæði eða heimildir í lögunum sem bindur rétt fatlaðs fólks til NPA því skilyrði að mótframlag berist frá ríkissjóði. Samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustunnar er einstaklingum sem nýta hana óviðkomandi og er sveitarfélögum óheimilt að setja slíka fyrirvara eða binda réttindi fólks með vísan til þess samstarfs.
 3. Tryggja að úrvinnsla NPA umsókna dragist ekki úr hófi fram og taki öllu jafna ekki lengri tíma en þrjá mánuði.
  Dómurinn rekur meðal annars hversu mikilvæg réttindi NPA eru fyrir fatlað fólk, bæði persónulega og fjárhagslega og að NPA séu réttindi sem löggjafinn hefur lögfest og skuldbundið sig til þess að veita samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ljósi þess hve NPA eru mikilvæg réttindi, hafi verið sérstök ástæða fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu umsóknarinnar og ekkert réttlæti þær tafir sem orðið hafi á virkjun þjónustunnar, enda hvíla ríkar skyldur á sveitarfélaginu um að gera strax viðeigandi ráðstafanir svo að fólk geti notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð samkvæmt lögum.

Jafnframt ber sveitarfélögum samkvæmt lögum að

 • Upplýsa einstaklinga í sveitarfélaginu um réttindi sín, með vísan til frumkvæðisskyldu og upplýsingaskyldu sem hvílir á sveitarfélögum.
 • Sjá til þess að ráðgjafar sveitarfélagsins búi yfir réttum upplýsingum um NPA og miðli þeim réttilega áfram.

Rétti tíminn til að sækja um NPA 

NPA miðstöðin hvetur fatlað fólk til að leita réttar síns. Nú er rétti tíminn til að sækja um NPA eða ýta á eftir umsókn sem liggur föst í kerfinu.

Hægt er að nýta niðurstöður dómsins til að styðja við sína umsókn, t.d. með því að vísa í dóminn: Dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, 24. mars 2021, mál nr. E-8237/2020.

 • Hafi umsókn þín legið óafgreidd hjá þínu sveitarfélagi um nokkurt skeið, getur þú krafist skjótrar afgreiðslu umsóknar og vísað í dóminn (t.d. efni í lið 1 og 3, hér fyrir ofan).
 • Sé einhverjum neitað um virkjun NPA samnings á þeim forsendum að mótframlag ríkisins vanti, má vísa í niðurstöðu dómsins (t.d. í lið 1 og 2).
 • Hafi ekki fengist svar að þremur mánuðum liðnum, er vert að senda ítrekun og vísa í niðurstöðu dómsins (t.d. í lið 3).
 • Letji ráðgjafar þig til að sækja um NPA, má benda á að sveitarfélög bera upplýsingaskyldu um þær þjónustuleiðir sem eru í boði, að þú átt rétt á því að sækja um það þjónustuform sem þú kýst, þar með talið NPA, og vísa jafnframt í efni dómsins (t.d. í lið 1 og 3).
 • Leggir þú inn umsókn um NPA, er hægt að ítreka mikilvægi NPA fyrir fatlað fólk, rétt þess til að sækja um það þjónustuform sem það kýs og að allt fatlað fólk sem uppfylli skilyrði fyrir þjónustunni eigi rétt á NPA og því að umsókn þess sé afgreitt hratt og örugglega – með vísan í nýfallinn dóm (liður 1).

Fyrir þá sem vilja grufla meira, þá er hér hlekkurinn í dómsmálið.

Þeir sem vilja aðstoð við umsóknarferli eða við að ýta á eftir umsókn sem liggur hjá sveitarfélagi geta leitað til NPA miðstöðvarinnar eftir aðstoð (This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.).

Þú átt rétt á því að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við aðra!