Nýfallinn dómur er mikilvægur sigur í baráttu fatlaðs fólks fyrir sjálfstæðu lífi. Viðbrögð frá stjórnvöldum nauðsynleg þegar í stað.

Í síðustu viku féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli manns sem hafði fengið samþykkta umsókn um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) hjá sínu sveitarfélagi en verulegar tafir voru á því að þjónustan gæti hafist. Ástæðan fyrir töfunum var sú að sveitarfélagið setti þann fyrirvara um veitingu þjónustunnar, að mótframlag bærist frá ríkissjóði vegna hennar. Maðurinn hafði sótt um NPA í október 2018 en var ekki gert kleift að nýta þjónustuna fyrr en í janúar 2021.

Á meðan maðurinn beið eftir þjónustu var hann látinn dvelja á hjúkrunarheimili gegn vilja sínum. Maðurinn fór í mál við sveitarfélagið og krafðist viðurkenningar á rétti sínum til NPA, auk skaða- og miskabóta úr hendi sveitarfélagsins. Dómurinn hefur mikla þýðingu fyrir fatlað fólk enda fjölmargir í svipaðri stöðu og maðurinn sem um ræðir. Mjög mikilvægt er að stjórnvöld bregðist strax við.

Hvaða þýðingu hefur þessi dómur fyrir fatlað fólk?
Dómurinn staðfestir það sem flestir vissu. Rétturinn til NPA er skýr og sveitarfélög geta ekki réttlætt tafir á afgreiðslu umsókna um NPA með vísan til þess að um sé að ræða „nýja“ þjónustu, að reglur skorti um þjónustuna eða, eins og algengt er, að mótframlög berist ekki úr ríkissjóði fyrir þjónustunni.

Þessi dómur þýðir að allt fatlað fólk sem hefur sótt um NPA, og uppfyllir önnur skilyrði fyrir þjónustunni, á rétt á því að sveitarfélagið afgreiði umsókn þeirra skjótt og örugglega. Í dómi héraðsdóms í framangreindu máli segir að sveitarfélaginu hafi verið í lófa lagið að ljúka afgreiðslu umsóknarinnar innan þriggja mánaða frá því hún var móttekin. Samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustunnar er einstaklingum sem nýta hana óviðkomandi og er sveitarfélögum óheimilt að setja slíka fyrirvara eða binda réttindi fólks með vísan til þess samstarfs.

Dómurinn viðurkennir jafnframt rétt fatlaðs fólks til miska- og skaðabóta úr hendi sveitarfélaga ef ólögmætar tafir verða á afgreiðslu umsókna um NPA.

Dómurinn
Dómur héraðsdóms er afdráttarlaus og skýr. Hér eru mikilvægustu punktar úr dómnum:

 • Dómurinn rekur meðal annars hversu mikilvæg réttindi NPA eru fyrir fatlað fólk og að NPA séu réttindi sem löggjafinn hefur lögfest og skuldbundið sig til þess að veita samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 • Í ljósi þess hve NPA eru mikilvæg réttindi, bæði persónulega og fjárhagslega, hafi verið sérstök ástæða fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu umsóknarinnar.
 • Ekkert réttlæti þær tafir sem orðið hafi á því að þjónustan gæti hafist, enda hvíla ríkar skyldur á sveitarfélaginu um að gera strax viðeigandi ráðstafanir svo að fólk geti notið þeirra réttinda sem þeim eru tryggð samkvæmt lögum.
 • Í sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga felst að þau hafa svigrúm til að ákveða forgangsröðun lögbundinna verkefna, svo framarlega að ekki sé um að ræða skýlausan rétt fatlaðs fólks til aðstoðar.
 • Þrátt fyrir að í lögunum sé að finna bráðabirgðarákvæði um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi tiltekinn fjölda NPA samninga, þá er ekki að finna ákvæði eða heimildir í lögunum sem bindur rétt fatlaðs fólks til NPA því skilyrði að mótframlag berist frá ríkissjóði.
 • Þvert á móti er rétturinn til NPA mjög skýr í lögunum og ef binda á stjórnvaldsákvörðun slíkum skilyrðum þurfa skilyrðin að styðjast við skýra og ótvíræða lagaheimild. Sú lagaheimild er ekki til staðar í lögunum.
 • Sá óhæfilegi dráttur sem varð á afgreiðslu málsins var dæmdur saknæmur og var sveitarfélagið með framferði sínu talið hafa valdið manninum þjáningu og tjóni.
 • Hin ólögmæta málsmeðferð sveitarfélagsins fól í sér meingerð gegn réttindum mannsins til fjölskyldu- og einkalífs og því var sveitarfélagið dæmt til að greiða manninum miska- og þjáningarbætur.
 • Þá staðfestir dómurinn rétt mannsins til skaðabóta vegna þess beina fjártjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sveitarfélagsins. Tjón mannsins mátti meðal annars rekja til langvarandi og kostnaðarsamrar dvalar á hjúkrunarheimili gegn vilja mannsins.

Ólíðandi staða
Mál mannsins hér að ofan er ekkert einsdæmi. Margt fatlað fólk býr við óviðunandi aðstæður og skert mannréttindi. Sumt þeirra hefur beðið árum saman eftir NPA, þrátt fyrir að réttur þess til þjónustunnar hafi fyrir löngu verið lögfestur. Þá eru fjölmörg dæmi um að þjónustuþörf fatlaðs fólks í NPA sé vanmetin eða að því sé ekki gefinn kostur á að nýta alla þætti þjónustunnar.

Staðan er alvarleg. Mikill fjöldi mála velkist um innan stjórnsýslunnar þar sem fatlað fólk reynir að sækja þau réttindi sem þeim hafa verið tryggð með lögum. Fjöldi mála hafa til að mynda verið rekin fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála gagnvart sveitarfélögum á liðnum árum þar sem nefndin hefur gert verulegar athugasemdir við starfshætti og málsmeðferð sveitarfélaga í þessum málaflokki. Hins vegar virðast úrskurðir úrskurðarnefndarinnar litla þýðingu hafa fyrir sveitarfélög. Nú er svo komið að réttindagæslumaður fatlaðs fólks ræður vart lengur við málafjöldann hjá sér og nær ekki að sinna erindum vegna of mikils álags á embættið. Þá ráða hagsmunafélög fatlaðs fólks heldur ekki við þann fjölda mála sem á borð þeirra berast.

Nú hefur einn einstaklingur rekið kostnaðarsamt og erfitt dómsmál til að fá réttindi sín viðurkennd og vonandi mun niðurstaðan í því máli leiða til jákvæðra breytinga. En er þetta virkilega það sem til þarf? Þarf fatlað fólk að verða fyrir stórfelldu miska- og fjártjóni svo árum skiptir og leita alla leið til dómstóla til að fá skýr réttindi sín viðurkennd? Er virkilega eðlilegt að stjórnvald skapi sér skaða- og miskabótaskyldu með þessum hætti gagnvart einum viðkvæmasta hópi samfélagsins?

Við verðum að snúa þessu við.

Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við?
Gríðarlega mikilvægt er að stjórnvöld grípi strax til aðgerða. Nú um áramótin skipaði ráðherra sérstakan starfshóp til að endurskoða lögin sem meðal annars fjalla um NPA. Lögin eru hins vegar ekki vandamálið. Framkvæmd laganna er vandamálið. Sveitarfélög og jafnvel ríkið sjálft fer ekki eftir þeim lögum sem löggjafinn hefur samþykkt. Þá er ekki þörf á endurskoðun – þá er þörf á eftirliti og aðhaldi með þeim sem ætlað er að framfylgja lögunum.

Jafnframt er rétt að benda á að þrátt fyrir að samstarf ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun NPA samninga sé notendum þjónustunnar óviðkomandi þá er ljóst að ríkið hefur alls ekki staðið við sinn hluta í þessu samkomulagi. Þannig hefur ríkissjóður ekki tryggt mótframlög inn í þann fjölda samninga sem ákvæði laganna kveður á um.

FrettatilkNPAmidst fjolgunsamninga mars2021

Þegar fjölgun samninga er skoðuð frá árinu 2018, þegar NPA var lögfest, eru tölurnar sláandi. Ríkið hefur til að mynda skuldbundið sig til að greiða mótframlög til 150 samninga á árinu 2021, sem er fjölgun uppá 70 samninga frá árinu 2018. Hins vegar eru samningarnir í dag aðeins um 93 talsins. Ástæðan fyrir því er einkum sú að sveitarfélög hafa sett ólögmætan fyrirvara um samþykkt NPA samninga, háð því að mótframlög berist frá ríkissjóði og ríkissjóður hefur eingöngu lagt fram fjármagn inn í þennan fjölda NPA samninga, þrátt fyrir ákvæði laganna.

Löngu er orðið tímabært að ríkissjóður og sveitarfélög höggvi á þennan hnút. Um er að ræða gríðarlega mikilvæg réttindi fyrir lítinn hóp af fólki. Þessi hópur á ekki að þurfa að verða fyrir miska- og fjártjóni og neyðast til þess að höfða kostnaðarsamt og tímafrekt dómsmál til viðurkenningar á sínum réttindum.

Við krefjumst þess að sveitarfélög stígi nauðsynleg skref til þess að úrvinnsla umsókna um NPA verði meðhöndluð í samræmi við lög og nýfallinn dóm án tafar. Í því felst meðal annars að:

 • Samþykkja þegar í stað umsóknir allra þeirra sem sótt hafa um NPA og uppfylla skilyrði laganna fyrir þjónustunni.
 • Gera einstaklingum, sem þegar hafa fengið samþykki fyrir NPA, kleift að hefja NPA án frekari tafa og án áskilnaðar um mótframlög úr ríkissjóði eða öðrum fyrirvörum.
 • Upplýsa einstaklinga í sveitarfélaginu um réttindi sín, með vísan til frumkvæðisskyldu og upplýsingaskyldu sem hvílir á sveitarfélögum.
 • Sjá til þess að ráðgjafar sveitarfélagsins búi yfir réttum upplýsingum um NPA og miðli þeim réttilega áfram.

Sömuleiðis krefjumst við þess að ríkissjóður standi við skuldbindingar sínar, þegar í stað, gagnvart sveitarfélögum og tryggi mótframlög inn í þann fjölda samninga sem ákvæði laganna kveður á um.