Aðstoðarmaður í smitgát, hvað geri ég nú?

Sú staða getur komið upp að aðstoðarfólk þurfi að fara í smitgát. Undir venjulegum kringumstæðum ætti fólk í smitgát að geta sinnt vinnu en fara samt sérstaklega varlega og m.a. ekki umgangast fólk í áhættuhópi. Þegar NPA aðstoðarfólk fer í smitgát, sem margt hvert starfar hjá fólki í áhættuhóp, horfir málið öðruvísi við.
Þegar kemur upp sú staða að NPA aðstoðarfólk sem starfar hjá einstaklingi í áhættuhópi, lendir í smitgát og getur ekki sinnt vöktum á meðan á því stendur, þá getur viðkomandi aðastoðarmanneskja valið að láta skrá sig frekar í sóttkví til þess að geta fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun fyrir þær vaktir sem hann/hún/hán mun missa af. Hinir möguleikarnir í þessum aðstæðum væru að nota hlífðarbúnað eða hugsanlega að skipta á vöktum við annað aðstoðarfólk sem tæki þá vaktir á meðan að viðkomandi er í smitgát.
Við skráningu í sóttkví þarf viðkomandi að haga sér samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á sóttkví með öllu sem því fylgir, sjá leiðbeiningar hér.
Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar getur haft samband við okkur hjá NPA miðstöðinni til þess að láta vita af aðstoðarmanni sem hefur lent í smitgát. Við þurfum upplýsingar um nafn og kennitölu starfsmanns og útskýringar á aðstæðum sem valda því að óskað er eftir að starfsmaður sé frekar skráður í sóttkví en smitgát. Við komum því svo til skila til Embættis landlæknis sem aftur kemur þessu í ferli hjá rakningateyminu.
Ofangreind fyrirmæli fengust frá Embætti landlæknis.
Image by cromaconceptovisual from Pixabay