Félagsmálaráðuneytið opnaði nýlega fyrir skráningar á námskeið sem ráðuneytið skipuleggur fyrir NPA verkstjórnendur, aðstoðarfólk og umsýsluaðila. Í bréfi sem ráðuneytið sendi til sveitarfélaga í byrjun nóvember kemur fram að forsenda fyrir endurnýjun NPA samninga sé að NPA notendur og aðstoðarfólk þeirra hafi skráð sig og lokið við námskeiðið fyrir 20. desember nk. Í framhaldinu hafa mörg sveitarfélög sett sig í samband við notendur með NPA samninga og óskað eftir staðfestingu um að þeir og aðstoðarfólk þeirra hafi lokið námskeiðunum og í einhverjum tilvikum að slík staðfesting sé forsenda þess að NPA samningur verði endurnýjaður fyrir næsta ár.

NPA miðstöðin gerir alvarlegar athugasemdir við þessa framkvæmd og hefur beint erindi til ráðuneytisins vegna þessa. Í bréfinu er á það bent engin lagaheimild er fyrir því skilyrði sem ráðuneytið setur auk þess sem afar óeðlilegt sé að Félagsmálaráðuneytið setji slík skilyrði fram, enda tekur ráðuneytið ekki ákvarðanir um réttindi einstaklinga um félagsþjónustu og ætti ekki að hlutast til um slíkar ákvarðanir.

Bréfið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

 

Kópavogur, 29. nóvember 2021

Efni: Námskeið Félagsmálaráðuneytisins um notendastýrða persónulega aðstoð

NPA miðstöðin vísar til námskeiða sem Félagsmálaráðuneytið skipuleggur um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 um NPA. Jafnframt er vísað til bréfs Félagsmálaráðuneytisins til sveitarfélaga dags. 3. nóvember sl. um endurnýjun umsókna vegna NPA samninga á árinu 2021. Með bréfi þessu vill NPA miðstöðin koma á framfæri athugasemdum vegna námskeiðanna auk þess að óska eftir skýringum og leiðbeiningum frá ráðuneytinu vegna þeirra.

NPA miðstöðin er samvinnufélag fatlaðs fólks sem er með NPA samninga og tekur að sér umsýslu með NPA samningum þeirra. Nokkrir félagsmenn miðstöðvarinnar hafa leitað til hennar á síðustu dögum vegna námskeiða sem ráðuneytið skipuleggur, en sumir NPA notendur hafa fengið erindi frá sínum lögheimilissveitarfélögum um að þeim, og aðstoðarfólki þeirra, sé ætlað að sækja og ljúka við námskeið ráðuneytisins fyrir 20. desember nk. Jafnframt kemur fram í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaga að staðfesting á þátttöku á námskeiði sé forenda þess að hægt sé að afgreiða NPA samninga vegna ársins 2021. NPA miðstöðin bendir á að engin lagaheimild er fyrir slíku skilyrði. Í reglugerð um NPA er þvert á móti tekið fram að NPA samningur skuli endurnýjaður nema aðstæður hjá notanda breytist á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar. Jafnframt er einungis gert ráð fyrir að notendur og aðstoðarfólk sæki námskeið ráðuneytisins um leið og kostur er, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar. Túlka verður ákvæðið á þann veg að námskeiðin verði bæði að vera til staðar og aðgengileg notendum og aðstoðarfólki og að notendum og aðstoðarfólki gefist tími og ráðrúm til að sækja námskeiðin.

Það skilyrði sem ráðuneytið setur NPA notendum um að þeim beri að sitja námskeiðin fyrir 20. desember virðist síst til þess fallið að efla þá sem verkstjórnendur, en tilgangur námskeiðanna á einmitt að vera sá að efla notendur í því hlutverki, sbr. 11. gr. reglugerðar um NPA. Ekki verður séð að námskeiðin nái markmiði sínu með því að láta verkstjórnendur og aðstoðarfólk sitja námskeiðin á ógnarhraða á síðasta mánuði ársins, eða að það stuðli að bættari gæðum í framkvæmd þjónustunnar.

Fram til þessa hafa umsýsluaðilar ekki fengið kynningu á framkvæmd og skipulagi námskeiðanna. Umsýsluaðilum virðist þó ætlað það hlutverk að staðfesta þátttöku eða skráningu notenda og aðstoðarfólks á námskeiðunum á eyðublaði sem skal fyllt út og sent með umsókn um þátttöku á námskeiði. Á það skal bent að eyðublaðið, titlað „Staðfesting“, virðist ekki gera ráð fyrir undirritun umsýsluaðila. Í það minnsta er erfitt að skilja hvað umsýsluaðila er ætlað að staðfesta. Þá verður ekki séð með hvaða móti umsýsluaðilar geti staðfest skráningu á námskeiðið sjálft eða að einstakir notendur eða aðstoðarfólk hafi sótt og lokið námskeiðinu. Hér skortir leiðbeiningar um innihald námskeiðanna og framkvæmd þeirra.

Á það skal jafnframt bent að mörg sveitarfélög veita ekki framlög inn í NPA samninga vegna námskeiðanna fyrir NPA aðstoðarfólk, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 1250/2018. Vart er unnt að ætlast til þess að þeir notendur sendi sitt aðstoðarfólk á námskeiðin. Þá er gert ráð fyrir því í 1. mgr. sömu greinar að ráðuneytið greiði helming kostnaðar vegna námskeiðanna fram til ársins 2022. NPA miðstöðin hefur ekki fengið upplýsingar um það frá ráðuneytinu eða sveitarfélögum um hvað námskeiðin kosta með eða án mótframlags ráðuneytisins, né hvernig innheimtu námskeiðsgjalds verður háttað.

NPA miðstöðin telur að síðustu rétt að vekja athygli á því enn á ný að hvergi á Norðurlöndunum tíðkast þessi framkvæmd að ráðuneyti eða sveitarfélög standi fyrir skyldufræðslu um NPA, heldur er fræðslan á höndum umsýsluaðila. Rétt væri að ráðuneytið myndi stefna í þá átt á næstu misserum, enda stendur NPA miðstöðin nú þegar fyrir fræðslu fyrir sitt félagsfólk og aðstoðarfólk þess.

NPA miðstöðin skorar á Félagsmálaráðuneytið að opna námskeiðin á þann veg að hver sem er geti skráð sig á námskeiðin og sótt þau án endurgjalds. Það myndi einfalda ferlið til muna. Þau sem ljúka námskeiðunum geta fengið rafræna staðfestingu þess efnis og skilað til umsýsluaðila eða sveitarfélags. Verði það ekki gert óskar NPA miðstöðin eftir svörum frá Félagsmálaráðuneytinu varðandi eftirfarandi atriði:

  1. Er það krafa af hálfu Félagsmálaráðuneytisins að allir NPA notendur og aðstoðarfólk þess hafi lokið námskeiðunum fyrir 20. desember nk.?
  2. Má búast við því að ráðuneytið veiti ekki mótframlög vegna NPA samninga þar sem notandi og/eða einhverjir úr aðstoðarmannahópi hafi ekki sótt námskeiðið?
  3. Getur NPA miðstöðin útbúið sína eigin staðfestingu á því að notandi sé með umsýsluna hjá miðstöðinni eða að viðkomandi aðstoðarmaður sé starfsmaður hennar? Ef ekki þarf ráðuneytið að uppfæra eyðublöðin.
  4. Er NPA miðstöðinni ætlað að staðfesta að NPA notandi og aðstoðarfólk hafi lokið námskeiði ráðuneytisins? Ef svo er er óskað eftir skýringum frá ráðuneytinu um hvernig miðstöðin getur aflað slíkrar staðfestingar.
  5. Hvernig er greiðslu vegna námskeiðanna háttað? Greiðir hver þátttakandi við skráningu eða er sendur reikningur? Hvernig er greiðslu ráðuneytisins fyrir helmingi kostnaðar háttað?

Óskað er eftir að svör berist frá ráðuneytinu sem allra fyrst.