Þrír ráðgjafar frá NPA miðstöðinni fóru í tveggja daga vinnuferð til Akureyrar dagana 24.-25. ágúst síðastliðinn. Tilgangur ferðarinnar var að styrkja tengslin við félagsfólk á landsbyggðinni og færa þjónustu NPA miðstöðvarinnar nær þeim.

Ráðgjafarnir, þær Elísabet Jenný Hjálmarsdóttir, Katrín Einarsdóttir og Sigríður Ása Alfonsdóttir, lögðu af stað til Akureyrar fimmtudagsmorguninn 24. ágúst en þriggja klukkustunda seinkun var á fluginu vegna þoku á Akureyri. Þegar þær voru komnar norður, lá leið þeirra til Dalvíkur þar sem ráðgjafarnir áttu fundi með tveimur verkstjórnendum. Frá Dalvík lá leiðin aftur til Akureyrar þar sem þær áttu tvo fundi á fimmtudeginum og einn á föstudeginum.

Aðrar áskoranir á landsbyggðinni
Auk þess að styrkja tengslin við félagsfólk, var tilgangur ferðarinnar að gera áhættumat á heimilum til að meta vinnuaðstæður aðstoðarfólks og þar með minnka líkur á slysum, að sögn Elísabetar, Katrínar og Sigríðar. Ráðgjafarnir voru sammála um að öllum aðilum hafi fundist gott að sjá andlitin á bak við tölvuskjáina sem þau höfðu verið í samskiptum við fram að því. Fram kom að félagsfólk á landsbyggðinni glímir að einhverju leyti við aðrar áskoranir en félagsfólk á höfuðborðarsvæðinu. Til dæmis er erfiðara að fá aðstoðarfólk til starfa á landsbyggðinni.

Til stendur að ráðgjafar heimsæki einnig félagsfólk á landsbyggðinni utan Norðurlands en ekki liggur fyrir á þessu stigi hvenær af því verður. Jafnframt er stefnt að því að ráðgjafar fari reglulega í heimsóknir til félagsfólks á landsbyggðinni, í framtíðinni.

Öllu félagsfólki NPA miðstöðvarinnar stendur til boða að fá heimsókn frá ráðgjafa NPA miðstöðvarinnar. Félagsfólk getur haft samband við sinn NPA ráðgjafa til að óska eftir heimsókn.

 

Myndatexti og myndlýsing: Á myndinni má sjá þær Katrínu Einarsdóttur og Sigríði Ásu Alfonsdóttur, ráðgjafa NPA miðtöðvarinnar, í flugvél á leið til Akureyrar. Katrín er dökkhærð, í hvítri peysu og í svörtum bol og Sigríður Ása brúnhærð, í svörtum bol og í grárri peysu. Báðar eru þær brosandi. 

 

Ágústa Arna skrifar