NPA miðstöðin skilaði inn umsögn sinni um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024, þann 6. október síðastliðinn. Í umsögninni leggur NPA miðstöðin áherslu á tvo þætti:

  • Að almenn aðhaldskrafa eigi ekki við um málaflokk fatlaðs fólks og að afnema skuli aðhaldskröfu á málaflokk fatlaðs fólks og NPA, sem fram kemur í fjárlögunum.
  • Að fjárframlög ríkisins til fjármögunar NPA samninga fyrir árið 2024 verði aukin til að tryggja fjármagn fyrir þeim fjölda NPA samninga sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði laga nr. 38/2018.  

 Aðhaldskrafa á ekki við um málaflokk fatlaðs fólks
Í greinargerð NPA miðstöðvarinnar kemur fram að í fjárlagafrumvarpinu sé að finna almenna aðhaldskröfu upp á 2% og 1% viðbótarkröfu á hvert ráðuneyti. Ýmsar stofnanir fá hins vegar undanþágu frá aðhaldskröfunni, eins og almanna- og sjúkratryggingar, heilbrigðis- og öldrunarstofnanir, lögregluembætti, fangelsi og dómstólar. Þá er gerð lægri aðhaldskrafa á skóla.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að aðhaldskrafan á málaflokk fatlaðs fólks nemi tæpum 40 milljónum króna. NPA miðstöðin telur að sú krafa eigi ekki við, meðal annars með vísun í þá hópa og málaflokka þar sem ekki er gerð aðhaldskrafa.

Eins sé rangt að beita aðhaldskröfu á fjárframlög til NPA, enda er í lögum nr. 38/2018,beinlínis gert ráð fyrir því að fjárframlög til málaflokksins verði aukin, svo hægt sé að fjölga NPA samningum fram til ársloka 2024.  

Framlag dugar fyrir 117 NPA samningum en ekki 172
Í umsögninni kemur fram upphæð sem lögð er fram til NPA samninga í fjárlagafrumvarpinu, dugi eingöngu fyrir 117 NPA samningum en ekki 172 NPA samningum, sem er sá fjöldi samninga sem ná skal árið 2024, samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Til að það markmið náist vantar fjármuni fyrir 55 NPA samningum í viðbót.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að framlag vegna NPA samninga verði 1.258 milljónir vegna alls 172 samninga. NPA miðstöðin bendir á að þessi fjárhæð sé vanáætluð enda hafa forsendur á bak við útreikninga ríkisins á kostnaði NPA samninga verið rangar frá 2018. Auk þess námu kjarahækkanir hjá NPA aðstoðarfólki um 13,5% á árinu 2023 og búast má við einhverri hækkun með nýjum kjarasamningum vorið 2024 og er ekki gert ráð fyrir þeim hækkunum í fjárlögum. 

NPA miðstöðin setur fram þá kröfu að framlag til NPA verði 1.853 milljónir króna fyrir árið 2024, í stað þeirra 1.258 milljóna sem lagt er til í frumvarpinu, svo hægt sé að ná markmiðum um 172 samninga árið 2024.

NPA mikilvæg réttarbót fyrir fatlað fólk
Þá segir einnig í umsögn NPA miðstöðvarinnar að ávinningurinn af NPA sé mikill fyrir samfélagið, enda sé um að ræða eina mikilvægustu réttarbót fyrir fatlað fólk sem hefur verið lögfest hér á landi. Með NPA fær fatlað fólk verkfæri til að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum og kost á að lifa sjálfstæðu lífi til jafns við annað fólk.

Í rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði árið 2016, kom fram að fatlað fólk með NPA var líklegra til að stunda vinnu og nám,  búa í húsnæði á eigin vegum og var ólíklegra til að nýta sér ýmis konar félagslega þjónustu, heldur en fatlað fólk sem ekki var með NPA. Í sömu rannsókn kom einnig fram að NPA notendur urðu sjaldnar fyrir ofbeldi og voru sjaldnar leiðir en fatlað fólk sem var ekki með NPA. 

Nánar var fjallað um rannsóknina í greininni Lífi fatlaðs fólks slegið á frest, eftir Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formann NPA miðstöðvarinnar og Silju Steinunnardóttur samskiptastýru. 

 

2023 1004 grafik ahrifNPA