Myndlýsing: Fannar Freyr er í hjólastól og heldur á syni sínum. Fannar er dökkhærður með gleraugu og er klæddur  í dökk bláanog brúnan stuttermabol og dökk bláar  gallabuxum. Sonur hans er í bleikum buxum, í blárri flíspeysu og með bláa húfu með myndum á og bláa hettu á höfðinu. Einnig er á myndinni hellulögð stétt og sést í grænt gras fyrir aftan þá.

Fannar Freyr Þorbergsson segir að það hafi fyrst og fremst verið léttir að fá úthlutaðan NPA samning eftir meira en árs bið. Helstu væntingar hans til NPA voru að hann gæti annast son sinn betur og átt fleiri gæðastundir með honum. Hingað til hefur NPA farið umfram þær væntingar sem Fannar hafði.

Fannar Freyr Þorbergsson er 35 ára borinn og barnfæddur Ísfirðingur, búsettur í Reykjavík. Fannar er hamingjusamlega giftur Kristjönu Kristjánsdóttur en saman eiga þau hjónin tæplega tveggja ára gamlan son. Nýverið var Fannari úthlutaður NPA samningur sem tók gildi í lok árs 2023 eftir meira en árs bið. Segja má að tímasetningin hafi verið mjög heppileg þar sem flutningar stóðu fyrir dyrum hjá fjölskyldunni.

Lítil manneskja sem treystir á þig í einu og öllu
Fannar útskrifaðist sem vélfræðingur frá Véltækniskóla Íslands árið 2017. „Ég hef verið að læra tölvunarfræði í HR ásamt því að sinna föðurhlutverkinu, sem hefur gengið mis vel,“ segir Fannar og bætir við að föðurhlutverkið hafi gjörbreytt öllu. „Það er eitthvað sem maður getur ekki búið sig undir held ég, sama hvað maður reynir. Það er magnað að vera allt í einu kominn með litla manneskju sem að treystir á þig í einu og öllu og að fá svo að fylgjast með henni læra að fóta sig í lífinu, ganga í gegnum allar þessar upplifanir í fyrstu skiptin og fá að sjá lífið dálítið með hennar augum.“

Léttir og gleði að fá fréttirnar um NPA
Fannar sótti um NPA í ágúst 2022 og tók samningurinn gildi 1. desember 2023 þannig að hann beið í meira en ár eftir NPA samningi. 
Hvernig var að fá þær fréttir að þú værir kominn með NPA samning? „Það var fyrst og fremst léttir, sem og gleði auðvitað.“ Helstu áhugamál Fannars snúa að hreyfingu, líkamsrækt og útvist og vonaðist hann til að geta nýtt aðstoðarfólkið sitt til að sinna þeim áhugamálum.

Trúir að NPA eigi eftir að auka lífsgæði sonar síns
Þegar rætt var við Fannar stuttu áður en hann fékk NPA sagðist hann vona að NPA myndi hafa töluvert miklar breytingar í för með sér fyrir hann. „Mínar ástæður fyrir því að sækja um NPA voru fyrst og fremst þær að ég trúi því að það eigi eftir að auka lífsgæði sonar míns töluvert þar sem ég verð fær um að gera fleiri hluti með honum og umannast hann betur“.
Hverjar eru helstu áskoranirnar sem fylgja gildistöku NPA samningsins? „Það eru alltaf áskoranir í því að hafa mannaforráð, mannleg samskipti geta verið flókin, sérstaklega þegar fólk vinnur svona náið saman.“

Lífið hefur einfaldast
Nokkrum vikum eftir að NPA samningur Fannars tók gildi, tók blaðakona NPA Fréttabréfsins aftur hús á honum til að forvitnast um hvernig fyrstu vikurnar hefðu gengið. Fannar var að vonum kampakátur. „Fyrsti mánuðurinn eftir að hafa fengið NPA hefur gengið mjög vel og ég er mjög heppinn með starfsfólk. Samskiptin hafa gengið mjög vel og þetta hefur auðveldað og einfaldað líf mitt töluvert.“

Getur hugsað um son sinn að öllu leyti
Fannar segir að stærsta breytingin sé sú að nú getur hann hugsað um son sinn að öllu leyti. „Ég get farið með hann í leikskóla, skipt um bleyju á honum og leikið við hann án þess að upp komi aðstæður sem ég ræð ekki við.“ Þá segir Fannar að hann hafi verið töluvert duglegri við að sinna heimilisverkum og öðrum erindum. „Fyrsti mánuðurinn er búinn að fara í að koma okkur fyrir í nýju húsnæði og það að hafa aðstoðarfólk hefur verið ómetanlegt í því ferli. Frelsið sem NPA hefur fært mér er gífurlegt og það bætir andlega líðan að vera fær um að sinna heimilisstörfum og viðhaldi heimilis.“

Ekki hika við að sækja um NPA
Hefur Fannar einhver ráð fyrir þau sem eru að velta fyrir sér að sækja um NPA? „Ef þú telur þetta geta aukið lífsgæðin hjá þér, ekki hika við það. Því fyrr því betra því biðtíminn getur verið langur. Bara að sækja um, í versta falli hentar þetta fólki ekki, í besta falli geta þau lifað lífinu með auknu frelsi.“ segir Fannar Freyr að lokum.