Hér verður stiklað á stóru í starfi NPA miðstöðvarinnar á seinni hluta ársins 2023.

Umsögn NPA miðstöðvarinnar um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2024
NPA miðstöðin skilaði inn umsögn sinni um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024, þann 6. október síðastliðinn. Í umsögninni lagði NPA miðstöðin áherslu á tvo þætti:

  • Að almenn aðhaldskrafa eigi ekki við um málaflokk fatlaðs fólks og að afnema eigi aðhaldskröfu á málaflokk fatlaðst fólks og NPA.
  • Að fjárframlög ríkisins til fjármögnunar NPA samninga fyrir árið 2024 verði aukin til að tryggja fjármagn fyrir þeim fjölda NPA samninga sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði laga 28/2018.

Umsögn NPA miðstöðvarinnar um fjárlagafrumvarpið má lesa hér.

NPA miðstöðin fékk boð á fund fjárlaganefndar
Mánudaginn 23. október 2023 fóru fulltrúar NPA miðstöðvarinnar á fund fjárlaganefndar ásamt fulltrúum frá Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtökum. Fulltrúar NPA miðstöðvarinnar voru Hjörtur Örn Eysteinsson, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður NPA miðstöðvarinnar.

Þeir Hjörtur og Rúnar voru sammála um að fundurinn hafi gengið vel en stór hluti hans fór í að ræða málefni tengd NPA.

Fræðsluviðburðir sem haldnir voru á haustönn 2023
Þriðjudaginn 26. september:
NPA námskeið 6: Skyndihjálparnámskeið. Leiðbeinandi: Ólafur Ingi Grettisson, slökkviliðs- og sjúkraflutningsmaður (I-EMT), varðstjóri hjá Slökkviliði höfuð­borgarsvæðisins.
Fimmtudaginn 12. október: NPA námskeið 1: Hugmyndafræðin um sjálfstætt líf. Leiðbeinendur: Erna Eiríksdóttir, fræðslustýra NPA miðstöðvarinnar og Þorbera Fjölnisdóttir, NPA verkstjórnandi.
Fimmtudaginn 9. nóvember: NPA námskeið 2: Hlutverk, ábyrgð og samskipti. Leiðbeinendur: María Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi og sáttamiðlari á Sáttamiðstöðinni, Hallgrímur Eymundsson, NPA verkstjórnandi, Sigurður Egill Ólafsson, NPA aðstoðarmaður og Erna Eiríksdóttir, fræðslustýra NPA miðstöðvarinnar.
Monday 31. October: NPA Course 6: First aid class. Instructor: Sigurjón Ólafsson, firefighter and EMT in SHS (the capital area fire rescue services).

Fimm ár frá lögfestingu NPA á Íslandi
Sunnudaginn 1. október 2023 voru fimm ár frá því að lög um NPA tóku gildi. Af því tilefni fjallaði Kastljós á RÚV um NPA. Rætt var við Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formann NPA miðstöðvarinnar og Fannar Frey Þorbergsson en hann hafði þá beðið eftir því að fá NPA samning í meira en ár. Þá var einnig rætt við þau Heiðu Hilmisdóttir, formann Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra.

Hér má sjá umfjöllun Kastljóss.

Staða NPA notenda í íslensku samfélagi
Í Kastljósi voru kynntar niðurstöður rannsóknar sem gerð var af Félagsvísindasviði Háskóla Íslands árið 2016 um stöðu NPA notenda í íslensku samfélagi.

Helstu niðurstöður voru meðal annars þær að:

  • NPA notendur voru margfalt líklegri til að stunda vinnu heldur en fatlað fólk í samanburðarhópi.
  • NPA notendur voru ríflega tvisvar sinnum líklegri til að stunda nám en fatlað fólk í samanburðarhópi.
  • NPA notendur voru tæplega þrisvar sinnum líklegri til að búa í húsnæði á eigin vegum og einungis 9% NPA notenda bjuggu í félagslegu húsnæði á móti 44% fatlaðs fólks í samanburðarhópnum.

Þá eru ekki talin áhrif NPA á líðan og lífsfyllingu fatlaðs fólks:

  • NPA notendur lögðust mun sjaldnar inn á spítala eða leituðu til bráðamóttökunnar en fatlað fólk í samanburðarhópnum.
  • NPA notendur sögðust mun sjaldnar vera leiðir en fatlað fólk í samanburðarhópi og engir þeirra sögðust alltaf vera leiðir.
  • NPA notendur urðu sjaldnar fyrir ofbeldi og var t.d. sjaldnar öskrað á þá en fatlað fólk í samanburðarhópnum.
  • NPA notendur voru miklu líklegri til að telja sig hafa stjórn á eigin lífi og því hvað þau gera og hvenær, en fatlað fólk í samanburðarhópnum.

Þá kom einnig fram að NPA hafði einnig jákvæð áhrif á aðstandendur fatlaðs fólks. Almennt voru aðstandendur fatlaðs fólks með NPA, líklegri en aðstandendur í samanburðarhópi, til að telja að NPA styddi við fjölskyldulíf, að NPA auðveldaði notandanum að lifa sjálfstæðu lífi, að ólíklegra væri að þeir hefðu áhyggjur af þjónustu við NPA notandann og áfram mætti telja.

Lífi fatlaðs fólks slegið á frest
Fimmtudaginn 5. október birtist grein á Vísi eftir þau Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formann NPA miðstöðvarinnar og Silju Steinunnardóttur, samskiptastýru miðstöðvarinnar og bar greinin yfirskriftina Lífi fatlaðs fólks slegið á frest.

Í grein sinni gagnrýndu þau að NPA samningum hafi ekki fjölgað eins og ráðgert var þegar lögin um NPA tóku gildi árið 2018 en í lok árs 2022 voru NPA samningar eingöngu 89 en ekki 172 eins og kveðið var á um í lögum. Auk þess hafði í desember 2022 verið lofað um 50 nýjum NPA samningum árið 2023 en á þeim tíma sem greinin var skrifuð, í október 2023, höfðu eingöngu borist óstaðfestar fréttir af 20 nýjum NPA samningum en ekki 50 eins og lofað hafði verið.

Þá kom einnig fram að á meðan að NPA samningum fjölgar nánast ekkert bíður fatlað fólk þess að fá NPA og þarf á meðan að slá mörgu í sínu lífi á frest. Margt fatlað fólk upplifir sig nánast í stofufangelsi á meðan þau bíða eftir NPA samningi.

Hér má lesa greinina.

Myndlýsing: Á myndinni má sjá Rúnar Björn fyrir framan nefndarsvið Alþingis. Rúnar er í hjólastól og er klæddur í bláa úlpu, svartar buxur og er með svarta húfu sem er fóðruð að framan. Fyrir aftan Rúnar er stór steinn en á honum stendur 2000.