Þann 17. september 2012 var undirritaður kjarasamningur milli NPA miðstöðvarinnar og Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis um störf aðstoðarfólks fyrir fatlað fólk. Um er að ræða sérstakan kjarasamning sem hefur verið sniðinn að notendastýrðri persónulegri aðstoð og er hann því fyrsti opinberi kjarasamningurinn sinnar tegundar hérlendis.

Mynd NPA_Floi_undirskrift samnings_sept2012m

Við hjá NPA miðstöðinni höfum átt afar ánægjulegt samstarf við Eflingu og er undirritun þessa samnings stórt skref í átt að innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar á Ísland.Samningur þessi er gerður með tilraunaverkefnið um NPA í huga og mun því vera í stöðugri þróun eftir því sem reynslan verður meiri. Hann er unninn með samskonar kjarasamninga á Norðurlöndunum að fyrirmynd. Við gerð kjarasamningsins var gert ráð fyrir ólíkum útfærslum á aðstoðinni og því er til dæmis möguleiki á ólíkum vöktum svo sem bakvöktum og sofandi næturvöktum.

Á myndinni eru, frá vinstri: Kolbeinn Gunnarsson, Embla Ágústsdóttir, Sigurðar Bessason, Harpa Ólafsdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir og Freyja Haraldsdóttir