Framkvæmdastjóri ráðinn til NPA miðstöðvarinnar

Stjórn NPA miðstöðvarinnar svf ákvað  á fundi þann 18. nóvember sl., að ráða Freyju Haraldsdóttur sem framkvæmdastjóra NPA miðstöðvarinnar. Freyja hóf störf þann 1. desember sl. og mun starfa í 100% starfshlutfalli.

Verksvið hennar verður víðtækt – hún mun sjá um daglegan rekstur miðstöðvarinnar auk þess sem henni er falið að koma starfsemi hennar á gott skrið hvað varðar þjónustu við félagsmenn skv. samþykktum miðstöðvarinnar.

Freyja mun sjálf auglýsa viðtals- og símatíma þar sem félagsmönnum gefst kostur á að hafa samband við hana, leita aðstoðar eða koma hugmyndum á framfæri.

Samfara  ráðningu Freyju sagði hún af sér sem varaformaður í NPA miðstöðinni og hefur varamaður tekið sæti hennar í stjórn.

 

Freyja Haraldsdóttir hefur notað beingreiðslur frá árinu 2007 og er því sú manneskja hér á landi sem hvað mesta og lengsta reynslu hefur af því fyrirkomulagi. Freyja hefur sótt námskeið og fræðslu um NPA erlendis, setið ráðstefnur og er í góðu persónulegu sambandi við fólk sem hefur langa reynslu af NPA og baráttunni fyrir sjálfstæðu lífi í sínu heimalandi. Freyja hefur, um árabil, miðlað af reynslu sinni sem fötluð kona – kona sem hefur þurft að búa við alvarleg mannréttindabrot, en reis upp og krafðist uppskurðar á kerfinu.

Stjórn NPA miðstöðvarinnar er afar ánægð með að eiga þess kost að njóta starfskrafta Freyju og er þess fullviss að barátta hennar fyrir NPA og hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf á eftir að skila fötluðu fólki á Íslandi mikilli réttarbót.

Breytingar á stjórn NPA miðstöðvarinnar svf

Þann 1. desember sl. hóf Freyja Haraldsdóttir störf sem framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar svf. Samkvæmt lögum um samvinnufélög geta framkvæmdastjórar þeirra ekki jafnframt átt sæti í stjórn sama félags.

Á stjórnarfundi NPA miðstöðvarinnar svf, þann 29. nóvember sl., sagði Freyja sig úr stjórn miðstöðvarinnar og þar með af sér sem varaformaður. Í framhaldi af því tók Rúnar Björn Þorkelsson varamaður sæti í aðalstjórn.

Á sama stjórnarfundi, þann 29. nóvember, skipti stjórn með sér verkum á ný í ljósi nýrra aðstæðna og var það gert með eftirfarandi hætti:

  1. •Hallgrímur Eymundsson formaður (sérstaklega kjörinn á stofnfundi)

  2. •Embla Ágústsdóttir varaformaður (var áður meðstjórnandi)

  3. •Aldís Sigurðardóttir ritari (óbreytt)

  4. •Ágústa Gunnarsdóttir gjaldkeri (óbreytt)

  5. •Rúnar Björn Þorkelsson meðstjórnandi (nýr inn)

Við þökkum Freyju fyrir störf hennar sem varaformaður NPA miðstöðvarinnar og bjóðum hana velkomna til starfa sem framkvæmdastjóri.

Stjórn NPA miðstöðvarinnar.

Kröfuyfirlýsing frá NPA miðstöðinni

Í tilefni af alþjóðlegum degi fatlaðs fólks, þann 3. desember sl., lögðu nokkrir félagsmenn NPA miðstöðvarinnar, ásamt stuðningsmönnum, leið sína í Alþingishúsið þar sem þeir afhentu alþingismönnum kröfuyfirlýsingu í 10 liðum.

Yfirlýsinguna má lesa hér.

Helgi Hjörvar alþingismaður tók við yfirlýsingunni fyrir hönd þingmanna.

Við þetta tækifæri sagði Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar, nokkur orð og las yfirlýsinguna fyrir viðstadda.

Helgi Hjörvar tók síðan við yfirlýsingunni í 63 eintökum sem hvert um sig var merkt alþingismanni. Hann kvaðst myndu koma skilaboðunum áleiðis og sagðist ætla að vinna að málefnum fatlaðs fólks innan Alþingis eins og hann frekast gæti.

Nokkrir fjölmiðlar voru á staðnum, m.a. fulltrúar Fréttablaðsins, Ríkissjónvarpsins og tímarits Öryrkjabandalags Íslands auk þess sem ljósmyndari NPA miðstöðvarinnar var viðstaddur.

Meðfylgjandi mynd tók Hallgrímur Guðmundsson ljósmyndari NPA miðstöðvarinnar.

Fleiri greinar...