Viðmælandi þessarar viku er Jón Heiðar Jónsson 

1. Hver er þín reynsla af að lifa með skerðingu og lifa í fatlandi samfélagi?

Ég hef verið hreyfihamlaður frá fæðingu og hef upplifað ýmsar hindranir í gegnum tíðina. Þær hafa þó aðallega verið vegna skorts á aðgengi og hindrana í hinu efnislega umhverfi. Ég verð að segja að ég hef fundið fyrir töluverðum breytingum á samfélagi okkar til hins betra á undanförnum árum þó enn vanti mikið uppá að hlutirnir séu í lagi og mannréttindi séu virt að fullu. Eitt af því er að nú hef ég möguleika á að nýta mér NPA og get stjórnað þeirri aðstoð sem ég þarf við það sem ég kýs að gera.

2. Hvernig kynntist þú NPA miðstöðinni?

Ég hef verið stjórnarmaður í Sjálfbjörg lsf. undanfarin ár og var hugmyndafræðin um sjálfstætt líf og NPA eitt af stefnumálum Sjálfsbjargar fyrir nokkrum árum. Ragnar Gunnar Þórhallsson sem þá var formaður Sjálfsbjargar var ötull við að kynna okkur þessa hugmyndafræði og heillaðist ég strax af henni. Rætt var um að stofna samvinnufélag sem héldi utanum skipulag og umsýslu með eigendunum ásamt því að kynna hugmyndafræðina. Það varð svo að veruleika að stofnuð voru samtök um sjálfstætt líf og svo samvinnufélag í framhaldinu og er NPA miðstöðin afrakstur þess. Ég hef svo í framhaldinu kynnst nokkrum af þeim frábæru einstaklingum sem standa að miðstöðinni.

3. Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um NPA?

Ég heillaðist strax af hugmyndarfræðinni sem stendur að baki NPA og taldi það henta mínum lífsstíl afar vel!

4. Er einhver þáttur sem heillar þig sérstaklega varðandi hugmyndafræðina um Sjálfstætt líf og notendastýrða persónulega aðstoð?

Það sem heillar mig mest er að hafa þetta frjálsræði og geta t.d nýtt mér aðstoðina við svona “óhefðbundna” hluti eins og útivist, ferðalög og áhugamál. Það væri erfiðara og oft ómögulegt í hinu gamalgróna þjónustukerfi innan sveitarfélaganna.

5. Ef þú ert með NPA samning, hvernig hefur hann breytt lífi þínu?

Það er ekki spurning að það að ég er núna með NPA hefur breytt lífi mínu til hins betra. Ég hef meiri möguleika á að halda áfram að gera hluti sem ég vil á á mínum forsendum, hvort sem það er að sinna vinnu og heimilsstörfum, ferðast með fjölskyldunni eða stunda fjallamennsku og útivist.

6. Hvernig gekk að fá samþykktan NPA samning?

Það gekk í raun vel og hef ég átt góð samkipti við fjölskyldudeildina á Akureyri. Ég og fjölskyldan settum fram ákveðnar óskir og rökstuddum vel það sem við erum að gera og þörfina fyrir aðstoðinni. Það má segja að það hafi allt gengið eftir og við erum núna með samning sem ég tel að henti vel okkar þörfum.

7. Hvað var það í baráttunni fyrir NPA sem veitti þér mestan innblástur og kemur í veg fyrir að þú gefist upp?

Þessi staðreynd og trú á að með NPA hafi ég meira frelsi til athafna og fullt vald yfir lífi mínu í framtíðinni!

8. Af hverju ert þú mest stolt/ur í lífinu?

Ég er að sjálfsögðu stoltastur af dóttur minni og fjölskyldunni. Dóttir mín Bjarney Guðrún 12 ára er einnig hreyfihömluð en er mjög virk og gengur vel í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Það er ekki síst hennar vegna sem ég fagna því að NPA er nú orðið valkostur fyrir okkur. Ég sé fyrir mér að það muni breyta miklu fyrir hana í framtíðinni að hafa NPA sér til aðstoðar!

Jón Heiðar

9. Hvað gerir þú þegar þú ert ekki í vinnu eða skóla?

Bestu stundirnar eru í faðmi fjölskyldunnar. Ég líka mikill útivistar og tækjadellukall og fer ég mikið í fjallaferðir á fjórhjólinu mínu. Svo er ég alltaf með einhver skemmtileg verkefni í bílskúrnum.

10. Ef þú mættir bjóða hverjum sem er í matarboð, hverjum myndir þú bjóða?

Ég er nú ekki mikið fyrir að spóka mig með einhverjum frægum eða fyrirmennum. Ætli drauma matarboðið sé ekki bara með góðum vinum eða fjölskyldunni og er ég svo lánsamur að upplifa það reglulega.

11. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa foreldrum fatlaðra barna?

Ekki láta skerðingu eða fötlun barnsins stjórna lífi ykkar um of. Reynið að búa svo hnútana að barnið ykkar og fjölskyldan lifi sem “eðlilegustu” lífi. Kynnið ykkur endilega hugmyndafræðina um sjálfstætt líf og setjið ykkur í samband við NPA miðstöðina. Það er svo ykkar að meta hvort þetta sé aðstoðarform sem hentar ykkar aðstæðum.

12. Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa ungu fötluðu fólki?

Ekki láta fötlunina eða skerðinguna sem þið búið við hindra ykkur í að lifa innihaldsríku lífi. Lífið lífinu á ykkar forsendum og vinnið að því að koma ykkur upp aðstæðum sem gerir það mögulegt.