Vinkona og samstarfskona jarðsungin í dag

Í dag minnumst við Önnu Guðrúnar Sigurðardóttur, vinkonu okkar og ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni. Anna Guðrún lést á krabbameinsdeild Landspítalans þann 16. febrúar síðastliðinn. Hún var jarðsungin frá Langholtskirkju í dag.
Anna Guðrún fæddist 18. september 1975, barn Sigríðar Önnu Sveinbjörnsdóttur sem lést í desember 2015 og Sigurðar Þorsteinssonar.
Anna Guðrún hóf störf sem ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni í nóvember 2018. Leiðir Önnu Guðrúnar og sumra okkar höfðu skarast löngu fyrir þann tíma og hún var ekki ný í NPA hópnum enda hafði hún áður unnið hjá Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar og skrifstofur beggja aðila voru í Sjálfsbjargarhúsinu. Við minnumst með þakklæti notalegra stunda og spjalls á milli vinnustunda, t.d. úti á svölunum í Sjálfsbjargarhúsinu í góðu veðri.