Kröfubréf NPA miðstöðvarinnar til sveitarfélaga

NPA miðstöðin sendi nú fyrir skemmstu bréf til félagsmálastjóra hjá flestum sveitarfélögum landsins þar sem þess er krafist að sveitarfélög tileinki sér og aðlagi framkvæmd sína á NPA að ákvæðum laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og ákvæðum reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð. Með bréfinu fylgdi minnisblað NPA miðstöðvarinnar um útreikning NPA jafnaðarstundar út frá kjarasamningi NPA aðstoðarfólks.

Bréfið er einnig birt opinberlega og aðgengilegt hér.

Minnisblaðið má nálgast með því að smella hér.

Hér fyrir neðan má sjá kröfuliði NPA miðstöðvarinnar eins og þeir birtast í bréfinu.

 

Kröfuliður: Tilvísun:
Framlög til launakostnaðar í NPA verði reiknaður út frá þeim kjarasamningi sem NPA aðstoðarfólk þiggur laun, sbr. minnisblað NPA miðstöðvarinnar. Framlög til sólarhringssamninga með hvíldarvöktum verði að lágmarki að vera 4.151,63 kr. en að lágmarki 4.559,32 kr. á þeim samningum þar sem þörf er á vakandi næturvöktum. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018.
9. gr., d-liður 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 16. gr. reglugerðar nr. 1250/2018. 
Framlög til NPA samninga verði greidd fyrirfram í upphafi hvers mánaðar. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.
Metið verði vinnuframlag aðstoðarverkstjórnanda í öllum þeim samningum, sem við eiga. Vinnustundafjöldi aðstoðarverkstjórnenda bætist við samkomulag um vinnustundir. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018 og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.
Sveitarfélög leggi 1% ofan á hvern NPA samning sem leggst inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna langtímaveikinda. Sveitarfélög myndi sér verklag um hvernig farið skuli með önnur skammtímaveikindi. 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði.

Sveitarfélög bæti við viðbótarframlagi við NPA samninga vegna skyldunámskeiða aðstoðarfólks og aðstoðarverkstjórnenda.

2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.

 

Prenta | Netfang

NPA miðstöðin rekur á eftir sveitarfélögum að fara eftir reglugerð um NPA

 

Frá upphafi innleiðingar notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) hafa framlög sveitarfélaga til NPA samninga grundvallast á svonefndum jafnaðartaxta, sem hefur átt að endurspegla heildarkostnað við hverja klukkustund að meðaltali fyrir þjónustu samkvæmt NPA samningnum. Til að byrja með gaf verkefnisstjórn um NPA út þennan jafnaðartaxta, en undir lok árs 2015 tilkynnti verkefnisstjórnin að hún myndi hætta að gefa taxtann út og beindi þeim fyrirmælum til sveitarfélaga að miða greiðslur við ákvæði kjarasamninga.

Síðan verkefnisstjórnin hætti að gefa jafnaðartaxtann út hafa sveitarfélög reiknað út sína eigin taxta. Þróunin hefur svo orðið sú að um mitt síðasta ár var ekkert sveitarfélag á landinu, sem NPA miðstöðin hefur verið í samstarfi við, að notast við sama taxtann og í mörgum tilfellum hefur verið umtalsverður munur. Jafnaðartaxtar sveitarfélaga áttu það þó allir sameiginlegt að standa ekki undir kjarasamningsbundnum greiðslum til NPA aðstoðarfólks í blandaðri vaktavinnu.

NPA miðstöðin hefur lagt umtalsverða vinnu í að reikna út réttan jafnaðartaxta NPA samninga út frá kjarasamningi NPA aðstoðarfólks, þ.e. kjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu/SGS. Síðastliðið sumar og haust kynnti miðstöðin niðurstöður sínar fyrir sveitarfélögum með minnisblaði um útreikninga sína. Jafnframt skoraði miðstöðin á sveitarfélög að leggja fram eigin útreikninga og rökstuðning fyrir sínum jafnaðartöxtum, ellegar aðlaga sína taxta að útreikningum NPA miðstöðvarinnar. Nokkur sveitarfélög hafa í kjölfarið brugðist við minnisblaðinu og uppfært sína taxta til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar.

Með lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir var lögfestur réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), sbr. 11. gr. laganna. Samhliða gildistöku laganna birti Velferðarráðuneytið, nú Félagsmálaráðuneytið, reglugerð nr. 1250/2018 um NPA. Í lögunum og reglugerðinni er skýrt kveðið á um skyldu sveitarfélaga og notenda að virða kjarasamninga og að greiðslur til NPA skuli taka mið af kjarasamningum NPA aðstoðarfólks. Í því sambandi er einkum bent á 16. gr. reglugerðarinnar. Þrátt fyrir það hafa mörg sveitarfélög ekki enn brugðist við og uppfært sínar greiðslur.

Á næstu dögum mun NPA miðstöðin senda uppfært minnisblað til sveitarfélaga ásamt kröfubréfi um að þau aðlagi greiðslur sínar til samræmis við gildandi lög og reglugerð um NPA. Brýnt er að sveitarfélög bregðist strax við, enda eru greiðslur í dag í mörgum tilfellum ófullnægjandi og setja marga NPA notendur í erfiða stöðu. Samkvæmt minnisblaði NPA miðstöðvarinnar verður jafnaðartaxti sveitarfélaga að vera að lágmarki 4.151,63 kr. á sólarhringssamningum sem geta nýtt sér undanþáguákvæði í sérkjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu/SGS um hvíldarvaktir, en 4.559,32 kr. á samningum sem ekki geta nýtt sér hvíldarvaktafyrirkomulagið. Þá er einnig brýnt að sveitarfélög taki upp það verklag sem kveðið  er á um reglugerðinni, til dæmis að framlög séu greidd fyrirfram í upphafi hvers mánaðar og að tekið verði tillit til viðbótarálags vegna aðstoðarverkstjórnar svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að nálgast minnisblað NPA miðstöðvarinnar hér.

Prenta | Netfang

Erindi sent til þjónustumiðstöðva og fulltrúa sveitarfélaga vegna NPA samninga

NPA miðstöðin sendi í dag neðangreint erindi til þjónustumiðstöðva og fulltrúa sveitarfélaga vegna NPA samninga:

Þann 21. desember sl. undirritaði félags- og jafnréttismálaráðherra nýja reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Í reglugerðinni er að finna ýmis ákvæði er varða framkvæmd NPA sem skortur hefur verið á fram til þessa, til dæmis varðandi umsýslu, ferli umsókna, fræðslu, fjárhagslega framkvæmd o.fl. Að gefnu tilefni vill NPA miðstöðin taka fram að reglugerðin er komin til framkvæmda og því ber sveitarfélögum að aðlaga NPA þjónustu sína til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar nú þegar.

Í 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að launakostnaður í NPA skuli taka mið af kjörum aðstoðarfólks skv. gildandi kjarasamningum hverju sinni. Á því hefur verið verulegur skortur á innleiðingartímabili NPA að sveitarfélög miði greiðslur við ákvæði kjarasamninga og geri notendum kleift að greiða kjarasamningsbundin laun NPA aðstoðarfólks til samræmis við metna þjónustuþörf. Þá vekur NPA miðstöðin sérstaka athygli á ákvæði 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, en þar segir í 2. málsl. að framlag til NPA samninga skuli „greitt fyrirfram í upphafi hvers mánaðar“ en fram til þessa hafa mörg sveitarfélög greitt mun seinna í hverjum mánuði og jafnvel undir lok þess mánaðar sem greiðslan tekur til.

NPA miðstöðin vísar jafnframt til bráðabirgðaákvæðis reglugerðarinnar þar sem tekið er fram að sveitarfélög skuli, eigi síðar en mánuði frá gildistöku reglugerðarinnar, senda notendum og umsýsluaðilum tilkynningu um endurnýjun samninga vegna ársins 2019. Sé það mat samningsaðila að þjónustuþörf hafi ekki breyst frá síðustu samningsgerð skuli gerður nýr einstaklingssamningur um NPA óski notandi þess.

Nokkuð hefur borið á því að sveitarfélög beri fyrir sig skort á stöðluðum samningsformum eða eigin reglum til þess að geta afgreitt endurnýjun samninga vegna ársins 2019 eða nýjar umsóknir um NPA. NPA miðstöðin hafnar slíkum málflutningi. Skortur á eigin reglum eða stöðluðum samningsformum á ekki að koma í veg fyrir að sveitarfélög geti endurnýjað og gert nýja NPA samninga á grundvelli fyrirliggjandi eyðublaða og gagna auk þess sem skortur á eigin reglum eða stöðluðum samningsformum kemur ekki í veg fyrir að einstaklingur, sem á rétt á NPA skv. 11. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, fái ekki NPA.

NPA miðstöðin skorar því á sveitarfélög að grípa til eftirfarandi aðgerða nú þegar:
1. Endurnýja eldri samninga
2. Afgreiða nýjar og óafgreiddar umsóknir um NPA
3. Aðlaga greiðslur til NPA til samræmis við ákvæði kjarasamninga
4. Tryggja að greiðslur vegna NPA berist fyrirfram í upphafi hvers mánaðar.

Prenta | Netfang

Fleiri greinar...