Nýárskveðja - stutt yfirlit yfir árið 2017

Á árinu 2017 hefur NPA miðstöðin sem endra nær séð um umsýslu NPA samninga félagsmanna sem jafnframt eru eigendur NPA miðstöðvarinnar. NPA miðstöðin ber meðal annars ábyrgð á launagreiðslum, tryggingum starfsfólks, gerð ráðningarsamninga og samskiptum við ríki og sveitarfélög.

NPA miðstöðin hefur haldið áfram að byggja upp fræðslustarfið sem miðstöðin býður upp á. Miðstöðin hefur staðið fyrir fjölda jafningjafræðslufunda á árinu þar sem félagsfólki miðstöðvarinnar hefur gefist kostur á að spjalla og ráðfæra sig við hvert annað. Á jafningjafræðslufundum hefur einnig verið boðið upp á fyrirlestra, t.d. um hugmyndafræðina um sjálfstætt líf, skipulag og utanumhald NPA samninga, ferðalög og NPA og fleira. Miðstöðin hefur jafnframt haldið námskeið fyrir aðstoðarfólk, annars vegar í skyndihjálp þar sem fatlaður einstaklingur er sá sem veita þyrfti skyndihjálp og einnig námskeið í hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf.

 

NPA miðstöðin hefur orðið sýnilegri á hinum ýmsu samfélagsmiðlum á þessu ári. Til dæmis hafa NPA notendur stundum skipst á því að sjá um Snapchat reikning miðstöðvarinnar til að veita innsýn í NPA og sjálfstætt líf. Jafnframt hafa sumir þeirra haft umsjón með Snapchat reikningi NPA miðstöðvarinnar á ferðalögum sínum erlendis og hefur það gefið skemmtilega innsýn í ferðalög NPA notenda um Ítalíu, Perú og Tæland svo dæmi séu tekin. NPA miðstöðin er á Facebook, Instagram, Twitter, Pinterest og Snapchat, misvirk þó eftir miðlum.

 

Í mars framleiddi NPA miðstöðin myndbönd til að vekja athygli á góðu aðgengi á tilteknum stöðum. Myndböndin voru birt á samfélagsmiðlum, í tilefni af Degi aðgengis fyrir alla þann 11. mars 2017 og fengu þó nokkuð áhorf. Í byrjun maí tók NPA miðstöðin þátt í Hjálpartækjasýningunni sem haldin var í Laugardalshöllinni. Var gaman að fá tækifæri til að spjalla við alla þá sem heimsóttu bás NPA miðstöðvarinnar í Höllinni þessa daga.

Í haust varð NPA miðstöðin formlegur aðili að Evrópusamtökum um sjálfstætt líf (European Network of Independent Living, ENIL). Dagana 24.-28. september tóku fulltrúar NPA miðstöðvarinnar þátt í Freedom Drive í Brussel. Viðburðurinn var haldinn á vegum ENIL og sameinaðist fjöldi fatlaðra einstaklinga og stuðningsmanna þeirra víðsvegar að úr Evrópu til þess að vekja athygli á réttindum fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs ásamt því að mæta á fyrirlestra og pallborðsumræður um málaflokkinn.

Í nóvember lauk NPA miðstöðin yfirfærslu á launabókhaldi yfir til miðstöðvarinnar. Framvegis mun launabókhaldi verða sinnt á skrifstofu miðstöðvarinnar.

Í nóvember var jafnframt myndaður samráðshópur með fulltrúum NPA miðstöðvarinnar, ÖBÍ, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Tabú og fulltrúa úr fötlunarfræðinni í Háskóla Íslands vegna lagafrumvarpa sem tengjast NPA, vinnu við reglugerð um NPA og handbók um NPA o.fl., en þetta samráð hefur þegar reynst vel og verður áfram í gangi á nýju ári. Bráðabirgðaákvæði varðandi NPA í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks var framlengt á Alþingi þann 28. desember síðastliðinn. Átti bráðabirgðaákvæðið að renna út 31. desember 2017, en var framlengt til ársloka 2018 eða þar til ný lög um réttinn til NPA taka gildi.

Í desember hélt NPA miðstöðin áfram vinnu vegna samráðsverkefnis um NPA ásamt því að undirbúa starfið sem fram undan er á nýju ári.

Árið 2018 mun NPA miðstöðin halda áfram sínu starfi við umsýslu NPA samninga og bjóða upp á aðstoð og námskeið í ýmsu því sem tengist NPA og mun að sjálfsögðu halda áfram að berjast fyrir lögfestingu NPA og fjölgun NPA samninga.

Við hlökkum til að vinna að þessum mikilvægu verkefnum með ykkur.

Gleðilegt nýtt ár!

e-max.it: your social media marketing partner

Prenta | Netfang