Viltu bætt aðgengi í hverfinu þínu?

Hverfið mitt er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem hugmyndum íbúa hverfa borgarinnar er safnað saman á samráðsvef og í framhaldinu fer fram kosning um hvaða verkefni borgin skuli framkvæma.

Verkefnið er góð leið fyrir íbúa borgarinnar til að hafa áhrif á sín hverfi. Jafnframt er það tilvalinn vettvangur fyrir fatlað fólk til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri opinberlega og hafa áhrif á sitt hverfi t.d. er varðar aðgengismál.

Hugmyndasöfnunin fór í gang þann 27. febrúar og stendur til 20. mars.

Hér má sjá helstu upplýsingar um verkefnið Hverfið mitt þar sem hægt er að senda inn hugmyndir, deila hugmyndum, líka við og kjósa um hugmyndir og rökræða þær.

Í tilkynningu um verkefnið sagði að þetta árið verði lögð áhersla á aukið samráð við hugmyndahöfunda í verkefninu á meðan hugmyndasöfnun og hugmyndamat í verkefninu stendur yfir. Haft verði samráð við ýmsa hópa og samtök í borginni um innsendingu hugmynda og hvatt til samstarfs um vinnslu hugmynda. Markmið þess er að skila vel útfærðum hugmyndum inn í hugmyndasöfnunina í sátt við hugmyndahöfunda.

Þetta er í sjöunda sinn sem Reykjavíkurborg efnir til hugmyndasöfnunar af þessu tagi og er framkvæmdafé 450 milljónir króna, sem er sama upphæð og var í fyrra. Verkefnið felur í sér árlegar bindandi kosningar um nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni borgarinnar. Hugmyndir sem settar eru inn núna og hljóta kosningu koma til framkvæmda á næsta ári. Verkefnum sem komast til framkvæmdar er m.a. ætlað að bæta hverfið á einhvern hátt og færa hverfið nær framtíðarsýn íbúana, t.d. með snjöllum, heilsueflandi og barn- og aldursvænum lausnum.

e-max.it: your social media marketing partner

Prenta | Netfang