Nýárskveðja NPA miðstöðvarinnar

Á nýju ári er tilefni til að líta yfir farinn veg og jafnframt horfa til framtíðar og þeirra verkefna sem framundan eru.

Mannréttindabarátta
NPA miðstöðin hefur árið 2019, sem endra nær, staðið vaktina í pólitískri mannréttindabaráttu fyrir réttinum til sjálfstæðs lífs. NPA miðstöðin hefur veitt sveitarfélögum aðhald og beitt sér í ýmsum málum sem tengjast innleiðingu NPA eftir að NPA var lögfest árið 2018. NPA miðstöðin hefur t.d. þrýst á um fjölgun samninga og aðstoðað fólk við að fá fleiri NPA tíma, aðstoðað við kærumál og ýmis önnur úrlausnarefni sem upp hafa komið síðan NPA var lögfest.

Fræðsla og fundir
Á árinu 2019, hélt NPA miðstöðin uppteknum hætti og bauð upp á fræðslu fyrir aðstoðarfólk og eigendur NPA miðstöðvarinnar. Góð mæting var á námskeið fyrir aðstoðarfólk, í líkamsbeitingu annars vegar og í skyndihjálp hins vegar og jafnframt var boðið upp á jafningjafræðslufundi fyrir eigendur NPA miðstöðvarinnar. NPA miðstöðin stóð einnig fyrir opnum kynningarfundum fyrir almenning þar sem starfsemi NPA miðstöðvarinnar og hugmyndafræði NPA og sjálfstæðs lífs var kynnt.
Loks var haldinn félagsfundur í lok október. Á fundinum voru fyrirætlanir NPA miðstöðvarinnar um flutninga og mögulegt húsnæði borið undir fundinn og jafnframt var rætt um lógó og ímynd NPA miðstöðvarinnar.

Umsýsla
NPA miðstöðin sinnti að sjálfsögðu sínu umsýsluhlutverki á árinu 2019 en NPA miðstöðin sér um umsýslu NPA samninga sinna eigenda/félagsmanna. NPA miðstöðin ber meðal annars ábyrgð á launagreiðslum, tryggingum starfsfólks, gerð ráðningarsamninga, samskiptum við ríki og sveitarfélög o.fl.

Starfsfólk skrifstofu
Nýtt starfsfólk var ráðið til starfa á skrifstofu NPA miðstöðvarinnar á árinu. Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir hóf störf sem ráðgjafi/þroskaþjálfi hjá NPA miðstöðinni og Sigurdís Rós Jóhannsdóttir tók til starfa við launabókhald. Regína Þorvaldsdóttir hóf einnig nýlega störf og mun taka við starfi launafulltrúa á nýju ári, þegar Sigurdís lætur af störfum. Á skrifstofunni starfa einnig ráðgjafarnir Anna Guðrún Sigurðardóttir og Andri Valgeirsson, auk Hjartar Arnar Eysteinssonar framkvæmdastjóra og Silju Ástþórsdóttur verkefnastýru sem kom aftur til starfa eftir barneignafrí.

Aðalfundur og ný stjórn
Aðalfundur NPA miðstöðvarinnar var haldinn þann 1. júní 2019.

Stjórn NPA miðstöðvarinnar var kosin:
Formaður: Rúnar Björn Herrera Þorkelsson.
Gjaldkeri: Hallgrímur Eymundsson.
Ritari: Þorsteinn Sturla Gunnarsson.

Varamenn voru kosnir:
Fyrsti varamaður: Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir.
Annar varamaður: Halldóra Bjarnadóttir.
Þriðji varamður: Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.

Freedom Drive
Í september tóku fulltrúar NPA miðstöðvarinnar öðru sinni þátt í Freedom Drive í Brussel. Þær Ásthildur Guðmundsdóttir og Anna Sigríður Sigurðardóttir, tvær eigenda NPA miðstöðvarinnar, voru fulltrúar NPA miðstöðvarinnar ásamt Hirti Erni Eysteinssyni framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar. Viðburðurinn var haldinn á vegum ENIL og sameinaðist fjöldi fatlaðra einstaklinga og stuðningsmanna þeirra víðsvegar að úr Evrópu, héldu saman í kröfugöngu til Evrópuþingsins og sóttu fyrirlestra og pallborðsumræður um málaflokkinn.

Heimsókn til Norðurlandanna
Í nóvember fóru fulltrúar NPA miðstöðvarinnar í heimsókn til systurfélaga sinna á Norðurlöndunum. Voru NPA félögin, GIL, STIL og JAG í Svíþjóð og ULOBA í Noregi sótt heim. Ferðin var mjög ánægjuleg og fræðandi og fulltrúar NPA miðstöðvarinnar komu heim uppfullir af hugmyndum og innblástri, auk þess að hafa styrkt tengsl við frændur okkar á Norðurlöndunum.

Hafið samband
Við minnum á að ráðgjafar NPA miðstöðvarinnar eru hér til aðstoðar. Þeir veita ráð, fræðslu og aðstoð bæði til eigenda NPA miðstöðvarinnar og aðstoðarfólks þeirra og eru auk þess reiðubúnir að veita þeim ráðgjöf sem eru að hefja sína NPA vegferð og ætla að sækja um NPA samning.

Jafnframt er vert að minna á ýmsar upplýsingar sem finna má á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar, www.npa.is, sömuleiðis á „NPA miðstöðin“ á Facebook og @npamidstodin á Instagram (og fleiri samfélagsmiðlum). Loks rekur NPA miðstöðin spjall- og upplýsingahóp á Facebook sem er öllum opinn og ber yfirskriftina „Sjálfstætt líf og NPA á Íslandi“.

Verkefni nýs árs
Árið 2020 mun verða viðburðaríkt. NPA miðstöðin mun flytja í nýtt húsnæði á vormánuðum og fagna tíu ára afmæli þann 16. júní. Mörg og ólík verkefni eru í farvatninu, t.d. siðareglur NPA miðstöðvarinnar, undirbúningur þess að taka nýtt tímaskráningar- og vaktakerfi í notkun, uppbygging fræðsluáætlunar NPA miðstöðvarinnar og áfram mætti telja. Upplýst verður um þessi verkefni og fleiri eftir því sem þeim fram vindur á nýju ári. NPA miðstöðin mun síðan að sjálfsögðu halda áfram sinni grunnskyldu sem snýr að umsýslu NPA samninga, aðstoð við fatlað fólk vegna NPA samninga og baráttu fyrir réttri framkvæmd NPA samninga og réttinum til sjálfstæðs lífs.

Við hlökkum til að vinna að þessum mikilvægu verkefnum á nýju ári.

Gleðilegt nýtt ár!