Viðbrögð vegna Covid19 fyrir fatlað fólk með notendastýrða persónulega aðstoð

Á síðustu vikum hafa sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði unnið að viðbragðsáætlunum vegna hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar, sem veldur Covid19 sjúkdómnum, hér á landi. Lýst hefur verið neyðarstigi almannavarna vegna útbreiðslu veirunnar og hafa aðgerðir undanfarinna vikna miðast að því að tryggja öryggi þeirra einstaklinga sem er í sérstökum áhættuhópi vegna veirunnar.

Einstaklingar með notendastýrða persónulega aðstoð eru margir hverjir í sérstaklega viðkvæmum hópi. Bæði eru margir þessara einstaklinga í áhættuhópi vegna fötlunar sinnar, þ.e. með undirliggjandi önundarfærasjúkdóma eða skerta lungnastarfsemi, en einnig vegna þess að þeir eru utan stofnanaþjónustu og því hafa almennar aðgerðir sveitarfélaga og viðbragðsáætlanir ekki tekið sérstaklega til NPA notenda.

Kórónuveiran í nærmyndÍ ljósi aðstæðna vill NPA miðstöðin vekja athygli á eftirfarandi:

Breyttar aðstæður

Í 6. gr. samstarfssamnings umsýsluaðila NPA samninga við sveitarfélög er að finna ákvæði um samstarf milli sveitarfélags, notenda og umsýsluaðila um að bregðast við breyttum aðstæðum hjá notanda með tilliti til þjónustuþarfar. Er þar sérstaklega tekið fram að umsýsluaðili ber ábyrgð vinnuveitanda og verður að uppfylla skyldur sínar samkvæmt gildandi lögum og kjarasamningum.

NPA notendur, sem og aðrir vinnuveitendur, eru að fást við afleiðingar Covid19 faraldursins. Sveitarfélög og ríkið hafa lagt sig fram um að tryggja störf og þjónustu framlínufólks í þjónustu við fatlað fólk á stofnunum en mikilvægt er að skýra stöðu fatlaðs fólks með NPA.

NPA samningar gera í dag aðeins ráð fyrir fastri mánaðarlegri greiðslu sem er grundvölluð á metinni þjónustuþörf. Hins vegar er viðbúið að tilteknir notendur þurfi meiri þjónustu vegna útbreiðslu veirunnar eða þurfi aukið framlag til að standa straum af fjarveru aðstoðarfólks eða til að fá fleira aðstoðarfólk til starfa. Með bréfi þessu vil NPA miðstöðin fullnægja skilyrði 6. gr. samstarfssamningsins og upplýsa sveitarfélög um þessar aðstæður.

Aðstoðarfólk í sóttkví

NPA miðstöðin mun leitast við að nýta sér ný lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga í sóttkví. Framkvæmdin mun verða með þeim hætti að hver NPA notandi skilar vinnuskýrslum síns aðstoðarfólks eins og venja er, en ef aðstoðarfólk er í sóttkví er það auðkennt sérstaklega á vinnuskýrslum. Vaktir eru þannig skipulagðar á aðstoðarfólk eins og venjulega þó það sé í sóttkví, líkt og gert er með veikindarétt. NPA miðstöðin tekur svo saman vinnutímabilið sem fellur undir sóttkví og óskar eftir greiðslum frá Vinnumálastofnun, sbr. 9. gr. laganna.

Hins vegar má búast við því að fjöldi aðstoðarfólks haldi sig heima finni það fyrir einkennum, þó það sé ekki veikt eða sent í sóttkví skv. beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Undir þessum kringumstæðum leikur vafi á rétti aðstoðarmanns til launagreiðslna. Mikill vilji er innan samfélagsins að verja sérstaklega viðkvæma einstaklinga og taka engar óþarfa áhættur með að senda hugsanlega smitberandi einstaklinga til vinnu til að aðstoða þá. Því þarf að liggja skýrt fyrir að sveitarfélög séu reiðubúin að greiða þann viðbótarkostnað sem gæti skapast vegna framgreindra aðstæðna, þ.e. þegar notandi getur ekki nýtt sér úrræði laganna til að sækja viðbótarlaunakostnað vegna þess að aðstoðarfólk heldur sig heima.

Aðgangur að bakvarðarsveit velferðarþjónustu sveitarfélagsins

Megináherslan í viðbragðsáætlun fyrir NPA notendur hlýtur þó á endanum að snúast um öryggi þeirra. Nú vinnur félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga að því að koma á fót bakvarðarsveit í velferðarþjónustu til að tryggja lögbundna þjónustu og aðstoð við viðkvæmustu hópana. NPA miðstöðin leggur áherslu á að NPA notendur geti haft aðgang að slíkri bakvarðarsveit í neyðartilvikum. Kynna þarf þennan möguleika fyrir NPA notendum og hvernig viðkomandi notandi ber sig að við að óska eftir starfsmanni af listanum. NPA miðstöðin leggur einnig áherslu á að sveitarfélagið annist launagreiðslur fyrir starfsmenn sem kallaðir eru út af bakvarðarsveit, enda má ætla að notandi sem kallar út starfsmann af bakvarðarsveit sé nú þegar að greiða launakostnað fyrir starfsmann sem er ýmist veikur, heima með barn vegna skólahlés eða í sóttkví.

NPA notandi í sóttkví/einangrun – réttindi og skyldur

Notendur sem sæta sóttkví eða einangrun vegna kórónaveirunnar þurfa að sjálfsögðu áfram aðstoð. Eins og staðan er núna eru einstaklingar sem sýkjast af veirunni eða grunur liggur um smit settir í sóttkví eða einangrun eftir atvikum. Það þýðir að þeir einstaklingar mega ekki vera í samneyti við annað fólk – hvorki heimilisfólk né aðra. Það er þó óhjákvæmilegt að ef setja á NPA notanda í sóttkví, verður að tryggja viðkomandi aðstoð við þær athafnir sem eru honum nauðsynlegar. Þess vegna er afar mikilvægt að fyrir liggi skýr rammi um það hvernig bregðast skuli við sóttkví eða einangrun NPA notenda. Hér þurfa að liggja fyrir svör við eftirfarandi álitaefnum:

  • Getur notandi í sóttkví eða einangrun ennþá nýtt sér NPA aðstoðarfólk?
  • Ef svo er, hvaða skilyrði þarf notandinn og eftir atvikum aðstoðarfólkið að uppfylla?
  • Hver er réttur NPA aðstoðarfólks að neita að mæta til vinnu hjá notanda sem er sýktur af kórónaveirunni eða á vinnustað þar sem einhver heimilismanna er sýktur af veirunni? Hér verður einnig að horfa til þess að þeir sem hafa verið í samneyti við sýkta eru alla jafna einnig settir í sóttkví.
  • Hvernig getur NPA notandi nálgast nauðsynlegan búnað til að tryggja öryggi aðstoðarfólks á meðan hann í er í einangrun, s.s. grímur, gleraugu, svuntur, skiptiaðstöðu o.fl.

Námskeið um NPA

Skipulögð hafa verið námskeið á vegum Velferðarráðuneytisins um NPA sem allir notendur, umsýsluaðilar og NPA aðstoðarfólk þarf að sækja. Líklegt er hins vegar að öllum slíkum námskeiðum verði slegið á frest um óákvæðinn tíma, í samræmi við áherslur yfirvalda vegna útbreiðslu veirunnar og takmörkun á mannamótum eða samkomum. Þá kann að vera nauðsynlegt að reyna að útfæra NPA námskeiðin með öðrum leiðum, til dæmis í fjarkennslu eða sem netnámskeið. Birta þarf tilkynningu um að námskeiðin verði felld niður eða að boðið verði uppá námskeiðin í fjarkennslu.

Samantekt

Með bréfi þessu upplýsir NPA miðstöðin sveitarfélög um að breyttar aðstæður sem kunna að koma upp hjá NPA notendum á næstu dögum og vikum vegna Covid19 sjúkdómsins með tilliti til þjónustuþarfar. Sveitarfélög þurfa að vera viðbúin að bregðast við breyttri þjónustuþörf.

NPA miðstöðin mun líkt og aðrir vinnuveitendur nýta sér úrræði í nýjum lögum um greiðslur til launafólks í sóttkví. Hins vegar óskar NPA miðstöðin eftir staðfestingu á því að sveitarfélög muni gera notendum kleift að halda aðstoðarfólki heima sem finnur fyrir einkennum, með auknu fjárframlagi, að því gefnu að nýju lögin fangi ekki þessar aðstæður einnig.

Tryggja þarf aðgang NPA notenda að bakvarðarsveit velferðarþjónustu sveitarfélaga. Tilkynna þarf notendum um þennan möguleika og hvernig ferlið er.

Skýra þarf réttindi og skyldur notenda í sóttkví/einangrun og hvort notendur geti ennþá nýtt sér NPA aðstoð við þessar aðstæður.

Tilkynna þarf um niðurfellingu NPA námskeiða eða bjóða uppá námskeiðin í fjarkennslu.

_________________________________________

Ofangreint bréf var sent til sveitarfélaga Íslands, föstudaginn 27. mars. Undir bréfið skrifuðu, fyrir hönd NPA miðstöðvarinnar, þeir Hjörtur Örn Eysteinsson framkvæmdastjóri og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður.