Leiðbeiningar vegna Covid19 fyrir NPA notendur

NPA miðstöðin hefur útbúið almennar leiðbeiningar fyrir NPA notendur til að bregðast við útbreiðslu Covid19. Leiðbeiningarnar taka mið af útgefnu efni frá sóttvarnarlækni og almannavörnum ásamt þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá sveitarfélögum. NPA miðstöðin mun uppfæra leiðbeiningarnar sínar eftir því sem frekari upplýsingar berast og ástæða þykir til.

Síðast uppfært: 12. maí 2020, kl. 09:59.


Prentvæna útgáfu er að finna hér.

Sóttkví

NPA notandi í sóttkví

Flestir notendur eru í sjálfskipaðri sóttkví en á einnig við um þá einstaklinga sem eru í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.

Einangrun

NPA notandi í einangrun

Þetta á við um notendur sem eru með staðfest smit af Covid19 veirunni.

Sóttkví

Almennt

Ávallt skal gæta fyllsta hreinlætis. Þvoið hendur með sápu og sprittið, sjá leiðbeiningar.

Notendur eiga ekki að taka á móti gestum í sóttkví. Gætið að því að hafa minnst tveggja metra fjarlægð við aðra. Þó þú sért ekki í sóttkví skaltu forðast fjölmenna staði og almenningssamgöngur.

Ef þú finnur fyrir einkennum veirunnar skaltu hringja í 1700 til að fá upplýsingar og mögulega tíma í sýnatöku. Einnig skaltu láta aðstoðarfólkið þitt vita.

Búðu til plan um hvernig þú bregst við ef þú sýkist af veirunni. Vertu viðbúin/n öllu.

Einangrun

Almennt

Áfram skal gæta fyllsta hreinlætis. Þvoið hendur með sápu og spritti og þvoið vel snertifleti ykkar.

Haldið ykkur alfarið heima, ekki taka á móti gestum. Fylgið leiðbeiningum sem koma frá Almannavörnum og sóttvarnarlækni.

Fáið mat og aðrar nauðsynjar heimsendar.

Hringið í 1700 til að fá upplýsingar og leiðbeiningar um framhaldið.

Látið NPA miðstöðina og aðstoðarfólkið ykkar vita um stöðuna.

Sóttkví

Aðstoðarfólkið þitt

Segðu aðstoðarfólkinu þínu að koma í hreinum fötum í vinnuna á hverja vakt. Það á að fara í sturtu áður en það mætir til vinnu.

Við komu í vinnu skal aðstoðarfólk þvo sér vel um hendur og spritta.

Gætið vel að öllu hreinlæti. Aðstoðarfólk þvær sér á meðan það er í vinnunni, fyrir og eftir salernisferðir og fyrir og eftir matartíma.

Reynið að forðast óþarfa snertingu eða samneyti við aðstoðarfólk. Þegar hægt er, hafið viðeigandi fjarlægð á milli ykkar og aðstoðarfólks.

Brýndu fyrir aðstoðarfólki að það vinnur fyrir einstakling í skilgreindum áhættuhópi. Það þýðir að það verður að gæta sín einstaklega vel á að smitast ekki og smita ekki aðra.

Farðu yfir fræðsluefni frá Landlækni og NPA miðstöðinni með aðstoðarfólki þínu.

Aðstoðarfólk skal forðast snertingu við líkamsvessa (slím úr öndunarvegi, uppköst, hægðir).

Einangrun

Aðstoðarfólkið þitt

Aðstoðarfólk sem er ekki með einkenni veirunnar getur og á að vinna. Aðstoðarfólk er meðal framlínufólks í samfélaginu og ber samfélagslega ábyrgð í sínum störfum. Aðstoðarfólk nýtur forgangs í ýmsa þjónustu, s.s. leikskóla og heilbrigðisþjónustu, og verður á meðal þeirra sem fyrst fá lyf/bóluefni þegar þau berast.

Aðstoðarfólk verður að nota hlífðarbúnað.

Þú verður að geta tryggt aðstoðarfólki aðstöðu sem er ekki í hættu að sýkjast, t.d. sér herbergi sem er ekki notað af þér eða öðru heimilisfólki.

Aðstoðarfólk skal ekki að nota sama eldhús og þú eða salerni, nema það sé sótthreinsað hátt og lágt fyrir og eftir þína notkun. Þetta kann þó að vera óraunhæft og nauðsynlegt er að fá opinberar leiðbeiningar varðandi þetta.

Aðstoðarfólk á að vera sem minnst í návígi við þig ef þú ert í einangrun. Upplýstu aðstoðarmanninn um hvernig skuli bregðast við ef þér versnar.

Ef aðstoðarfólk sýnir einkenni, tilkynntu það til NPA miðstöðvarinnar og hringdu í 1700.

Sóttkví

Búnaður

Aðstoðarfólk sem aðstoðar notanda í sóttkví þarf að gæta vel að hreinlæti, þar á meðal skal það mæta í hreinum fötum í vinnuna. Góð regla er einnig að þrífa reglulega íbúðina og allt umhverfi með vatni og sápu og strjúka yfir snertifleti með sótthreinsandi lausn.

Ekki er þörf á notkun hlífðarbúnaðar hjá aðstoðarfólki á meðan þú ert í sóttkví, en þó er gott að notast við einnota hanska og plastsvuntu við alla nána snertingu.

Ef þú þarft aðstoð við salernisferðir er einnig æskilegt að aðstoðarfólk sé með hlífðarhanska og slopp eða svuntu með ermum.

Þú getur nýtt framlag til starfsmannakostnaðar til að greiða fyrir hlífðarfatnað auk þess sem þú getur valið að kaupa fatnað fyrir aðstoðarfólk til að nota í vinnunni, t.d. joggingfatnað sem aðstoðarfólk klæðir sig í þegar það mætir til vinnu og setur í þvottavél hjá þér eftir vakt.

Einangrun

Búnaður

Aðstoðarfólk verður að klæðast hlífðarbúnaði í vinnunni.

Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um hvernig farið er í búnaðinn og hvernig farið er úr honum. Leiðbeiningar og upplýsingar eru aðgengilegar inni á heimasíðu NPA miðstöðvarinnar.

Aðstoðarfólk skal þannig:

 1. Spritta hendur
 2. Klæðast hlífðarbúningi
 3. Fínagnagrímu (FFP2)
 4. Hlífðargleraugum
 5. Sloppi
 6. Hönskum.

Hlífðarbúnað má nálgast hjá NPA miðstöðinni. Hlífðarbúnaðurinn er einnota, öllum búnaði er hent eftir notkun.

Reglulega skal þrífa vel með vatni og sápu allt umhverfi í íbúðinni. Að þrifum loknum skal strjúka yfir alla snertifleti með klúti vættum sótthreinsandi lausn (umhverfisspritti, klórböndu (t.d. blanda Bleikiklór 5% (fæst í almennum verslunum) 10 ml í 2,5 l vatns – má nota sama dag og blandað er), Virkon 1% eða oxivir). Nota skal hanska við verkið.

Sóttkví

Vaktir

Lengri vaktir hjá aðstoðarfólki kunna að vera æskilegri þegar þú ert í sóttkví. Með því takmarkar þú aðkomu annarra að hugsanlegu smiti og verð einnig sjálfa/n þig.

Einnig er gott að skipuleggja vaktir þannig að langur tími líði á milli vakta. Til dæmis að einn til tveir starfsmenn vinni eina viku og aðrir starfsmenn hina vikuna. Einnig gætir þú skipulagt samliggjandi sólarhringsvaktir, ef þú átt kost á því.

Fækkun aðstoðarfólks er einnig möguleiki og til álita kemur að nýta opinber úrræði um minnkað starfshlutfall hjá aðstoðarfólki, en þá greiðir hið opinbera launaskerðingu aðstoðarfólksins í minnkuðu starfshlutfalli.

Hafðu samband við ráðgjafa hjá NPA miðstöðinni til að fá aðstoð við að útfæra vaktir og úrræði vegna aðstoðarfólks í sóttkví.

Einangrun

Vaktir

Þegar þú ert í einangrun verður aðstoðarfólk að klæðast fullum hlífðarbúnaði í vinnunni. Það kallar á breytingar og aðlögun á vöktum, enda er afar erfitt fyrir aðstoðarfólk að vinna lengi í hlífðarbúnaði svo tryggja megi öryggi þess.

Aðstoðarfólk má að hámarki vinna 4 klst. samfellt í hlífðarbúnaði. Þá þarf það að fá tíma til þess að fara úr sóttmenguðu umhverfi, fara úr hlífðarfatnaði, matast, fara á salerni og eftir atvikum fara svo aftur í hlífðarfatnað og halda áfram með vaktina. Fylgið leiðbeiningum varðandi að fara í og úr hlífðarfatnaði.

Hafðu viðveru aðstoðarfólks á vöktum eins stutta og þú getur, amk. þannig að þú þurfir að vera í sem minnsta návígi við aðstoðarfólk.

Ráðgjafar NPA miðstöðvarinnar aðstoða þig við að skipuleggja vaktir hjá aðstoðarfólki á meðan þú ert í einangrun.

Sóttkví

Aðstoðarfólk í sóttkví

Aðstoðarfólk ber að mæta til vinnu þó svo að þú sért í sóttkví.

Ef hins vegar grunur leikur á því að aðstoðarfólk sé með veiruna er æskilegast að aðstoðarfólk fari í sóttkví, fyrst um sinn í 48 klst. og síðan lengur ef það sýnir áfram einkenni.

Aðstoðarfólk sem sýnir einkenni veirunnar skal hringja í 1700 og tilkynna sig í sóttkví á heilsuvera.is. Jafnframt á það að láta þig vita.

Aðstoðarfólk á alltaf rétt á launum fyrir þá vakt sem það er skráð á. Ef aðstoðarfólk kveðst vera tilbúið að vinna en þú vilt senda það í „sóttkví“ verður þú að bera launakostnað aðstoðarmannsins fyrir alla vaktina. Þetta á við um tilfelli þegar aðstoðarmanneskja kvartar yfir tilteknum einkennum en treystir sér fyllilega til að vinna en þú vilt ekki taka áhættuna á því.

Ef aðstoðarfólk er sent í sóttkví skv. fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda – þ.e. fær staðfestingu um að það eigi að bíða af sér tiltekin einkenni eða sæta sóttkví í 14 daga vegna návígis við smitaða einstaklinga, átt þú rétt á því að nýta þér opinber úrræði um að launakostnaður aðstoðarfólks í sóttkví sé greiddur af ríkinu.

Ef aðstoðarmaður er í sóttkví þarftu að:

 1. Skipuleggja á hann vaktir eins og hann myndi annars mæta til vinnu (eins og með veikindarétt)
 2. Auðkenna þær vaktir á vinnuskýrslum starfsmannsins þannig að það sé skýrt að þetta séu vaktir sem eru unnar í sóttkví. Þú getur merkt þær „Sóttkví“ eða skilað inn sérstakri vinnuskýrslu fyrir vaktir sem eru í sóttkví.
 3. NPA miðstöðin greiðir launakostnaðinn fyrir aðstoðarfólk í sóttkví.
 4. Þú og aðstoðarmaður sækið staðfestingu um að viðkomandi hafi verið í sóttkví (tölvupóstur frá heilsugæslu, skjáskot frá heilsuveru, útprentun á SMS-i eða eitthvað slíkt).
 5. NPA miðstöðin sækir um greiðslu frá Vinnumálastofnun vegna sóttkvínnar. Þú verður látin vita þegar niðurstaða/greiðsla berst vegna þess kostnaðar.

Ef þú sendir aðstoðarmanneskju heim án þess að það sé í sóttkví eða veikt þá berð þú ábyrgð á því að greiða launakostnað þess. Gættu að því hvaða áhrif það hefur að senda starfsfólk heim með tilliti til kostnaðar í þínu NPA.

Einangrun

Aðstoðarfólk í sóttkví

Aðstoðarfólk sem sætir einangrun getur ekki komið til vinnu.

Á meðan aðstoðarfólk er í einangrun notar það veikindaréttinn sinn, þ.e. það er veikt á meðan það sætir einangrun vegna Covid19.

Þú skipuleggur vaktir á aðstoðarmanninn líkt og hann væri í vinnu, þó hann sé í einangrun vegna Covid19. Þær vaktir auðkennir þú sem veikindi á vinnuskýrslu starfsmannsins.

Starfsmaðurinn á rétt á greiðslum í veikindarétti í samræmi við ákvæði kjarasamnings.

Neyðartilvik

Það er mikilvægt að þú gerir áætlun, reynir að sjá fyrir þér ólíkar sviðsmyndir og hvernig þú getur brugðist við ólíkum aðstæðum og neyðartilvikum.

Með neyðartilvikum er til dæmis átt við þegar þú missir stóran hluta aðstoðarfólks í sóttkví eða einangrun og situr uppi án þess að vera með aðstoð.

Gott er að setja saman lista yfir fólk sem hefur unnið hjá þér áður, hafa samband við það og athuga hvort það geti mögulega stokkið til í neyð.

Einnig ef þú átt fjölskyldumeðlimi eða vini, að ræða við þau um hvort þau gætu komið inn til aðstoðar þegar allt annað þrýtur.

Þá er gott að fá fjölskyldumeðlimi, vini eða aðra til þess að hafa reglulega samband við þig eða þú samband við það til að ganga úr skugga um allt sé í lagi.

Þú ert við stjórnvölinn og því er mikilvægast að treysta sem mest á sjálfan sig þegar kemur að því að skipuleggja viðbrögð við neyðartilvikum. Hins vegar eru í boði opinber úrræði sem þú getur nýtt þér.

Sveitarfélög og ríkið hafa sett á laggirnar bakvarðarsveit velferðarþjónustu sem samanstendur af fólki sem er tilbúið að stökkva inn í störf í velferðarþjónustu gerist þörf á því. NPA miðstöðin hefur gengið úr skugga um að NPA notendur geti fengið aðgang að starfsfólki bakvarðarsveitar. Hver NPA notandi skal hafa samband við umsýsluaðila sé notandinn ekki sjálfur umsýsluaðili. NPA notandi hjá NPA miðstöðinni setur sig þar af leiðandi í samband við NPA miðstöðina sem svo hefur samband við tengilið viðkomandi sveitarfélags sem fær nöfn af bakvarðalistanum frá Sambandinu. Sé notandinn umsýsluaðili hefur hann samband við tengilið hjá viðkomandi sveitarfélagi.

NPA miðstöðin