Spurningar og svör frá upplýsingafundi NPA miðstöðvarinnar vegna COVID-19
Sóttvarnarráðstafanir fyrir fatlað fólk með NPA, beingreiðslusamninga og aðstoðarfólk þeirra vegna COVID-19
Spurningar og svör á fundi, þriðjudaginn 27.10.2020 | Q & A in English below
Eftirfarandi eru spurningar frá notendum og aðstoðarfólki sem sendar voru inn fyrir fund NPA miðstöðvarinnar með fulltrúum frá Samhæfingarmiðstöð almannavarna og Embætti landlæknis. Svörin við spurningunum eru unnin útfrá svörum þessara fulltrúa.
SVARENDUR VORU:
Fyrir hönd NPA miðstöðvarinnar: Rúnar Björn Herrera Þorkelsson formaður NPA miðstöðvarinnar og Vigdís Thorarensen, fræðslustýra NPA miðstöðvarinnar og fundarstjóri fundarins.
Á fundinum voru eftirfarandi fulltrúar sem hafa komið að ritun leiðbeininga til fatlaðs fólks vegna COVID-19:
Fyrir hönd Almannavarna: María Rúnarsdóttir, fulltrúi velferðarmála í samhæfingarstöð almannavarna, hélt erindi.
Fyrir hönd Embættis landlæknis: Íris Marelsdóttir, sóttvarnarsviði.
Fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga: María I. Kristjánsdóttir.
Guðrún Lísbet Níelsdóttir frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sat einnig fundinn.
SP: Spurning | SV: Svar | ÁB: Ábending | Q: Questions | A: Answers
SPURNINGAR FRÁ NOTENDUM:
SP: Ef ég lendi í sóttkví eða einangrun, á ég rétt á að boða aðstoðarfólkið mitt áfram á vaktir?
SV: Já. Aðstoðarfólk hefur ekki heimild til þess að neita því að mæta á vaktir, nema sérstök málefnaleg rök séu fyrir því. Aðstoðarfólk þarf þó að geta klæðst viðeigandi hlífðarbúnaði á meðan það er í vinnunni.
SP: Hvernig tryggi ég öryggi aðstoðarfólks míns ef ég smitast af COVID-19?
SV: Mikilvægt er að eiga samtal við aðstoðarfólkið þitt áður en þessar aðstæður koma upp. Fyrsta spurningin er: Ertu tilbúin/n að aðstoða mig ef ég er í sóttkví? Önnur spurningin er: Ertu tilbúin/n að aðstoða mig ef ég er í einangrun? Þriðja spurningin er: Ertu tilbúin/n að aðstoða mig ef ég verð alvarleika veik/veikur? Mikilvægt er að þú verðir þér úti um hlífðarbúnað eða tryggir að þú hafir aðgang að hlífðarbúnaði ef þessar aðstæður koma upp. NPA miðstöðin er með hlífðarbúnað sem miðstöðin sendir til síns félagsfólks eftir þörfum. Svo er gott að æfa sig í að nota hlífðarbúnaðinn með aðstoðarfólki sem allra fyrst. Þetta róar alla.
SP: Hvar mælið þið með að aðstoðarfólk klæðist hlífðarbúnaði ef það þarf að vinna í sóttmenguðu umhverfi?
SP: Hvar á aðstoðarfólk að afklæðast hlífðarbúnaði ef það er að vinna í sóttmenguðu umhverfi?
SV: Forstofan á heimilinu er yfirleitt sá staður sem fólk klæðir sig í. Gott er að vera með myndir á veggjunum í forstofunni sem sýnir hvernig maður klæðir sig í og úr búnaðinum. Svo þarftu að vera með stóra ruslatunnu þar sem hægt er að setja svo búnaðinn í að lokinni notkun. Vertu líka með spritt, bæði fyrir utan og innan hurðina. Aðstoðarfólk þarf að vera duglegt að spritta hendurnar sínar vel bæði fyrir og eftir vinnu.
SP: Þarf ég að skipta örar um fólk, þ.e. hafa vaktirnar styttri ef aðstoðarfólk þarf að vinna í hlífðarbúnaði? Hver er hámarkstími í slíkum fatnaði?
SV: Það er ekki skilgreint. Einhver hjúkrunarheimili hafa skilgreint sirka fjóra tíma að hámarki. Þú þarft að lengja þann tíma sem aðstoðarfólkið fær að fara í pásu, þú getur til dæmis valið að setja hámarkslengd vakta á 4-6 tíma, en þú verður að taka samtalið um þetta við þitt aðstoðarfólk núna, áður en að þessu kemur. Sveitarfélög hafa miðað við að vaktir séu ekki lengri en fjórir tímar.
SP: Hvað á ég að gera ef ég fæ covid og get ekki verið heima? Má aðstoðarfólkið mitt t.d. fylgja mér í sóttvarnarhús ef sú staða kæmi upp?
SV: Ef þú ert veik eða veikur og getur ekki verið heima þá tekur Covid göngudeild Landspítalans við þér. Ef þú verður mikið veik eða veikur þá eru miklar líkur á að þú verður lögð/lagður inn á sjúkrahús. Það er allt gert til þess að fólk geti verið heima, en ef veikindin eru mikil þá gæti verið nauðsynlegt að vera á spítala.
Í sumum tilvikum getur fólk stundum verið heima, farið á sjúkrahús með sjúkrabíl, fengið vökva í æð og viðeigandi læknisþjónustu en farið svo aftur heim að lokinni þessari meðferð.
SP: Þarf aðstoðarfólk að gera einhverjar aðrar ráðstafanir varðandi fatnað sinn og sjálft sig áður en það fer inn á eigið heimili úr sóttmenguðu umhverfi?
SV: Mikilvægast af öllu er að sinna persónulegum sóttvörnum. Ef farið er að öllu réttu varðandi hlífðarbúnað ætti ekki að þurfa að frekari ráðstafanir, en gott er alltaf að fara í sturtu bæði fyrir og eftir vinnu á meðan þessar aðstæður vara og góð regla er að skipta einnig um föt.
SP: Hvernig set ég saman viðbragðsáætlun með tilliti til þess að geta áfram haft NPA ef ég veikist eða lendi í sóttkví?
SV: Það er til gátlisti um „órofinn rekstur“ sem hægt er að fara eftir. Mælt er með því að fara yfir NPA leiðbeiningarnar og útbúa áætlun. Fyrsti dagurinn er yfirleitt erfiðastur, en svo kemst þetta í rútínu. Aðalatriðið er að ræða við aðstoðarfólk og heimilisfólk. Það er grundvallaratriði í svona viðbragðsáætlun. Hvernig ætla ég að gera hlutina? Svara hvernig ég ætla að ná í mat og lyf, hvar á ruslatunnan að vera í forstofunni, hvar á plaggatið að vera o.s.frv.
VIÐBÓT FRÁ NPA MIÐSTÖÐINNI:
Hér eru nokkrir punktar til að koma sér af stað við gerð viðbragðsáætlunar.
Hér er listi yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga sé viðkomandi í sóttkví eða einangrun.
Hér er gátlisti um órofinn rekstur.
SP: Er ætlast til þess að notendur hafi til umráða á heimili sínu hlífðarbúnað fyrir aðstoðarfólk, eða á bara að sækjast eftir því þegar/ef þörf er á? Á það sama við um notendur úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu?
SP: Hvað þarf ég að eiga mikið af hverju þegar kemur að hlífðarbúnaði?
SP: Hvaða hlífðarbúnaður þarf að vera til staðar fyrir aðstoðarfólk til að gæta fyllsta öryggis ef ég smitast?
SV: Búnaðurinn er einkum handspritt, bréfþurrkur, einnota hanskar, hlífðargrímur, plastpokar, hreinsibúnaður og einnota svuntur.
Góð reikniformúla er að miða við að hvert sett af búnaði endist aðeins í fjóra tíma. Einstaklingur sem þarf aðstoð 16 tíma á dag myndi því þurfa að eiga fjögur sett af hlífðarbúnaði fyrir hvern dag.
Fólk úti á landi ætti ekki að þurfa meira magn af hlífðarbúnaði, en allir ættu að eiga svona start pakka á sínu heimili.
Hægt er að panta búnað hjá ýmsum aðilum, til dæmis Lyfju og Rekstrarvörum, en einnig með því að senda tölvupóst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. NPA miðstöðin er með hlífðarbúnað fyrir sitt félagsfólk og getur sent búnaðinn eftir þörfum til viðkomandi.
SP: Hvað á ég að gera og við hvern á ég að tala ef allt aðstoðarfólkið mitt eða stór hluti þess lendir í sóttkví/einangrun? Hvaðan fæ ég þá þjónustu í staðinn? Er tryggt að ég verði ekki í þeim sporum að vera án aðstoðar?
SV: Ef þú lendir í þessum aðstæðum getur þú haft samband við þína þjónustumiðstöð. Í leiðbeiningunum er listi yfir alla tengiliði um allt land vegna NPA. Þessir tengiliðir sjá um að útvega fólk í afleysingar af svokallaðri „bakvarðarsveit“ ef hún er til staðar. Mikilvægt er þó að koma sér upp sinni eigin „bakvarðarsveit“, þ.e. að vera tilbúin/n með lista yfir fólk sem þú getur haft samband við í neyðartilvikum.
SV: Mikilvægt líka að nefna að aðstoðarfólk sem þarf að fara í sóttkví getur fengið leyfi til þess að vinna, þ.e. getur fengið undanþágu fyrir því að mæta til vinnu þó viðkomandi sé í sóttkví.
SP: Hvernig nálgast notandi með starfsleyfi þennan startpakka?
SP: Hvar er hægt að kaupa sloppana?
SP: Hvar er nálgast maður hlífðarklæðnað?
SV: Notendur sem eru hjá NPA miðstöðinni geta fengið Covid startpakkann senda heim til sín. Aðrir geta leitað til þeirra verslana sem eru að selja slíkan búnað, t.d. Rekstarvörur og Lyfja. Benda má á að notendur geta nýtt 5% framlagið fyrir starfsmannakostnaði til að leggja út fyrir þessum kostnaði.
ÁB: Þeir Reykvíkingar sem ekki eru í NPA miðstöðinni geta haft samband við tengilið Reykjavíkur, Arne Friðrik Karlsson, varðandi bakvarðarasveit og fengið búnað með skömmum fyrirvara ef upp koma smit.
SP: Ef aðstoðarfólk lendir í sóttkví vegna þess að ég lendi í einangrun, má það samt vinna áfram fyrir mig með þar til gerðum hlífðarbúnaði, þ.e. ef það er ekki sjálft veikt?
SV: Já, en aðstoðarfólk verður að samþykkja það. Aðstoðarfólk verður að sækja um svokallaða vinnusóttkví.
SP: Er hægt að nota eitthvað af búnaðinum oftar en einu sinni, og ef svo, hvernig er hann þrifinn á milli?
SV: Ekki er mælt með því að nota búnaðinn oftar en einu sinni, en ef þú ætlar að nota hann oftar en einu sinni þá þarf að þrífa hann með sótthreinsiefnum og viðra hann úti. Gott að nefna í því samhengi að það er mikilvægt að lofta vel út. Hafa glugga opna í 15 mínútur tvisvar á dag, sérstaklega ef það eru komin upp veikindi.
SP: Ber ekki atvinnuveitanda að greiða allan hlífðarbúnað? Þ.e. mismunandi hvort umönnunaraðili (aðstoðarfólk) er með samning hjá NPA miðstöðinni, sveitarfélögum eða verktaki. Þ.e. notandi á ekki alltaf að útvega aðstoðarfólki hlífðarbúnað.
SV: Umsýsluaðilar bera formlega ábyrgð vinnuveitenda á aðstoðarfólki og ber þeim einnig að sjá til þess að aðstoðarfólk og eftir atvikum notendur hafi aðgang að nauðsynlegum hlífðarbúnaði. Í NPA eru notendur þó verkstjórnendur og ábyrgðin á aðbúnaði og öryggi aðstoðarfólks hvílir fyrst og fremst á notendunum sjálfum. Í þessu sambandi er bent á að NPA notendur fá sérstakt framlag frá sveitarfélögum fyrir starfsmannakostnaði sem nemur 5% af samningsupphæð hvers samnings. Notendur eiga að nýta það framlag til þess að standa straum af kostnaði sem hlýst af vegna starfa NPA aðstoðarfólks, þar á meðal öryggis- og hlífðarbúnaði.
SP: Hvað heitir þetta sótthreinsunarefni sem á að vera á öllum heimilum?
SV: Það eru til mörg hreinsiefni til að sótthreinsa yfirborðsfleti á heimilum. Til dæmis er hægt að kaupa sérstakan sótthreinsi úða frá aðilum sem selja rekstrarvörur. Einnig er hægt að búa til sinn eigin sótthreinsi úða með því að blanda klóri eða Virkon saman við vatn í hlutföllunum 1 á móti 10. Á heimasíðu Landlæknis eru glærur sem sýna sóttvarnir og þrif sem vert er að skoða.
SP: Hvernig er best að verja sig gegn veirunni þegar maður fer í sturtu? Ég get ekki notað grímur á meðan ég fer í sturtu. Er það rétt hjá lækni að það séu hverfandi líkur á smiti á meðan maður fer í sturtu?
SV: Ef aðstoðarmanneskjan er með grímu þá ætti þetta að sleppa og hverfandi líkur á að smit berist á milli í sturtu við þessar aðstæður.
SP: Hvers vegna eru ekki útvegaðir hanskar og grímur í forvarnarskyni heldur einungis ef grunur er um smit? Það er ekki gott að vera í margmenni og þrengslum og vera í stórum rafknúnum hjólastól og þurfa að útvega sér sjálfur þessar forvarnarvörur.
SV: Allir ættu að geta nálgast forvarnarvörur, þ.e. hanska og grímur. Þær eru seldar víða og auðvelt að nálgast þær. NPA notendur geta nýtt 5% starfsmannakostnaðinn til þess að kaupa þennan búnað. Hægt að er að kaupa þennan búnað á netinu og fengið heimsent. Einnig er minnt á að NPA miðstöðin getur útvegað félagsfólki sínu búnað sé þess óskað.
SP: Hvers vegna eru ekki einfaldari leiðbeiningar um notkun á hlífðarbúnaðinum, bara leiðbeiningar sem eru ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki?
SV: Sömu reglur og viðmið gilda um notkun á hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðra og mikilvægt að búnaðurinn sé notaður rétt. Annars þjónar hann ekki tilgangi sínum. Það er annað myndband inni á Youtube frá Landsspítalanum sem gæti verið skýrara, en hvatt er til þess að NPA notendur og aðstoðarfólk skoði vandlega öll myndbönd og kynningarefni um notkun á hlífðarbúnaði áður en hafist er handa við að nota hann.
VIÐBÓT FRÁ NPA MIÐSTÖÐINNI:
Ýmis myndbönd um sóttvarnir, hlífðarbúnað og fleira.
SP: Ætti ég að bæta við Viruxal nef og munnúða sem skyldu auka forvörn fyrir mig og aðstoðarfólkið mitt? Hvernig ber að nota það og er það öruggt að skylda notkun lyfsins?
SV: Sóttvarnarlæknir mælir ekki með þessum búnaði.
SP: Hvers vegna er fólki ekki leyft að fara í sýnatöku hjá heilsugæslu nema það sýni ákveðin einkenni? Ég vil ekki fara til Íslenskrar erfðagreiningar af persónulegum ástæðum.
SV: Sýnatakan fer fram með ákveðnum hætti til þess að tryggja sóttvarnir. Mikilvægt er að sýnatakan sé í slíku umhverfi að aðrir sem eru að sækja heilbrigðisþjónustu sé ekki útsett fyrir smiti frá einstaklinkum sem eru að koma í sýnatöku. Þess vegna eru sér staðir fyrir sýnatökur. Inni á vef Landlæknis má nálgast upplýsingar um hvar er hægt að fara í sýnatöku. Staðan er þannig í dag að flestir ættu að komast í sýnatöku ef þeir vilja, með því að fara inn á Heilsuvera.is. Hins vegar er alltaf líklegast að árangur náist af sýnatökunni ef einkenni veirunnar eru til staðar.
SP: Í mínum verklagsreglum er m.a. skýrt að það megi ekki aðstoða mig nema aðstoðarmanneskja sé með einnota hanska og grímu. Á aðstoðarmanneskja að þvo hendur, spritta og skipta um grímu í hvert skipti þegar kallað er á aðstoð, sem er oft? Aðstoðin er ekki afmörkuð verkefni. Þetta finnst mér óljóst hversu oft þarf að skipta t.d. um grímur og hanska.
SP: Það er ekki hægt að virða tveggja metra reglu þar sem ég er með þjónustuþörf allan sólarhringinn. Mig vantar betri upplýsingar, til dæmis hvenær og hversu oft þarf að spritta, þvo sér um hendur og skipta um hanska?
SV: Þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra regluna mælist sóttvarnarlæknir til þess að notendur og aðstoðarfólk notist við andlitsmaska. Góð regla er að skipta um andlitsmaska og hanska á fjögurra tíma fresti hið minnsta og þvo hendur og spitta þess í milli.
SP: Er óhætt að neyta fersks grænmetis á COVID tímum? Hver er smithættan? Ég hef einungis borðað heitar máltíðir og alveg sleppt fersku grænmeti síðan faraldurinn hófst.
SV: Matvælastofnun hefur fengið þessa fyrirspurn og svarað henni. Þar segir að veiran berist ekki með matvælum svo það ætti að vera óhætt að mæla með neyslu fersks grænmetis og ávaxta.
SP: Það hefur reynst erfiðara að koma upplýsingum til enskumælandi aðstoðarmanna. Þau skilja oft ekki íslensku og það hefur aflað sér upplýsingar á netinu á sínu móðurmáli og ég hef tekið eftir að það er ekki endilega í samræmi við þær upplýsingar sem ég fæ hér á landi.
SV: Bestu upplýsingarnar er alltaf að finna á Covid.is, en þá síðu er hægt að skoða á átta mismunandi tungumálum. Leiðbeiningarnar frá Almannavörnum og Sóttvarnarlækni fyrir NPA notendur eru aðgengilegar bæði á ensku og íslensku.
SPURNINGAR FRÁ AÐSTOÐARFÓLKI:
SP: Hvað gerist ef verkstjórnandi minn smitast af veirunni eða er settur í sóttkví?
SP: Ber mér skylda til að mæta til vinnu, hvort sem verkstjórnandi er í sóttkví eða einangrun?
SV: Þetta er samtalið sem þarf að eiga sér stað. Það er ekkert sem segir að þú eigir ekki að mæta til vinnu. Aðstoðarfólk getur sagt að því líði illa með að mæta í vinnu en þetta er það sem starfsfólk í þessum störfum þarf að takast á við. Ef þú kannt að nota hlífðarbúnaðinn og notar hann rétt þá ertu varin/ gagnvart veirunni og átt að geta sinn starfi þínu.
SP: Hver er réttur minn gagnvart vinnuveitanda ef hann sýkist en ég bý t.d. með fólki sem er í áhættuhóp, eða ég er sjálf/ur í áhættuhóp?
SV: Sumir vinnustaðir reyna að finna önnur verkefni fyrir starfsfólk í þessari stöðu, en það er ekki endilega svo auðvelt fyrir NPA notendur. Almennt þá skuldbindur þú þig til þess að vera í þeirri vinnu sem þú ert ráðin til að sinna. Ef þú hins vegar treystir þér ekki til ákveðinna verkefna eða að vinna við ákveðnar aðstæður, þá verður þú að eiga samtalið við þinn vinnuveitanda. Þú getur ákveðið að mæta ekki til vinnu, en þá áttu ekki rétt á launum.
Þú getur einnig leitað til þíns heimilislæknis og athugað hvort þú getir fengið útgefið læknisvottorð vegna fjarvista úr vinnu. Þannig getur þú mögulega nýtt þér þinn veikindarétt við þessar aðstæður.
SP: Hvernig tryggi ég eigið öryggi á vakt ef verkstjórnandi minn er í sóttkví/einangrun?
SV: Með því að nota hlífðarbúnaðinn rétt og huga vel að persónulegu hreinlæti, þ.e. þvo hendur og spritta.
SP: Á ég að nota hlífðarbúnað þegar verkstjórnandi minn er í úrvinnslusóttkví, s.s. ekki orðinn veikur og ekki búinn að fá staðfestingu á því að um smit sé að ræða?
SV: Já það er æskilegast.
SP: Hver eru réttindi mín sem starfsmanns ef ég þarf að fara í áskipaða sóttkví, á ég rétt á launum?
SV: Þá er hægt að sækja um greiðslur inni á Mínum síðum hjá Vinnumálastofnun. Þú átt því rétt á því að verkstjórnandi þinn skipuleggi á þig vaktir eins og venjulega þegar þú ert í sóttkví, en þú þarft svo að sækja greiðslur vegna þessara vakta til Vinnumálastofnunar. Mjög góðar og skýrar leiðbeiningar er um þetta inni á vef stofnunarinnar.
SP: Hver eru réttindi mín sem starfsmanns ef ég fer í sjálfskipaða sóttkví, á ég rétt á launum?
SV: Nei þá áttu ekki rétt á launum.
SP: Ef ég smitast, á ég veikindarétt allan tímann? En ef starfsaldur minn er stuttur og ég á ekki uppsafnaða veikindadaga?
SV: Þetta fer eftir kjarasamningi hverju sinni. Almennt þá getur þú klárað þinn veikindarétt á meðan þú ert í einangrun vegna Covid19 smits. Ef þú klárar veikindaréttinn þinn gætir þú átt rétt á sjúkradagpeningum frá þínu stéttarfélagi.
SP: Á ég rétt á launum ef barnið mitt er sett í áskipaða sóttkví og ég þarf að fara með því í sóttkví?
SV: Já þá áttu rétt á greiðslum í sóttkví frá Vinnumálastofnun.
SP: Núna eru þær leiðbeiningar gefnar út að ef einstaklingur smitast þá skuli halda sér frá fólki í áhættuhóp í 2 vikur eftir að eingangrun lýkur. Eru þessar 2 vikur þá borgaðar af vinnumálastofnun?
SP: Ég smitaðist af covid, síðan veiktust fleiri fjölskyldumeðlimir á sama heimili í kjölfarið. Ég er ekki lengur veikur, en sóttvarnarteymið ráðleggur mér að vera ekki í samneyti við fólk í áhættuhópum næstu tvær vikur. Ég á að vera á vakt þennan tíma (margar vaktir) og get ekki verið tekjulaus, hvað á ég að gera?
SV: Viðmiðið er að þú þarft að vera einkennalaus í viku og svo viku eftir það mátt þú snúa aftur til starfa. Eðli málsins samkvæmt má fólk í einangrun ekki deila rými eða búsetu með einstaklingum sem eru ekki smitaðir. Þú átt veikindarétt allan þennan tíma, en ef þú tæmir veikindaréttinn gætir þú átt rétt á sjúkradagpeningum frá þínu stéttarfélagi.
Við þessar aðstæður gæti þó verið eðlilegast að reyna að semja um það við þinn verkstjórnanda að færa vaktir til þannig að þú getir sinnt þeim og fáir örugglega greitt.
SP: Getur NPA miðstöðin aðstoðað aðstoðarmenn við að sækja um greiðslu vegna fyrirskipaðrar sóttkvíar frá Vinnumálastofnun?
SV: Já, ráðgjafar NPA miðstöðvarinnar geta verið aðstoðarfólki innan handar við sækja um greiðslur vegna sóttkvíar til Vinnumálastofnunar.
QUESTIONS IN ENGLISH:
Q: If the user I work for gets infected with Covid, do I have to wear some protective outfits when he or she comes out of quarantine?
A: You need to wear protective gear if the person is in quarantine. You don‘t however need to wear protective gear when the person has finished quarantine. You do need to always take care of personal hygine and wash your hands.
Q: Do I have rights to salaries if I have to go into quarantine?
A: Yes, you have the right to be paid for the shifts you should have worked if you were not in quarantine. Your work leader should put you on regular shifts and make sure you get the full shift program. You can then apply for payments for those shifts from Vinnumálastofnun, My pages.
Q: Are instructions available in relation to Vinnumálastofnun if the NPA user I work for gets infected with Covid?
A: All information is available in English on Vinnumálastofnun‘s webpage and multiple other languages. You have need for assistance or specific questions, you can call NPA miðstöðin for information.
ADDITIONAL LINKS FROM NPA MIÐSTÖÐIN:
Here one can find information from the Directorate of Labour (Vinnumálastofnun) regarding COVID-19.
From the Directorate of Health:
Here is the brochure: Guidance for disabled people with NPA, other user agreements and their assistants – COVID-19 preventive measures.
Here is the brochure: Illness caused by the novel coronavirus (COVID-19).
Unnt er að beina frekari fyrirspurnum inni á vef Landlæknis, www.landlaeknir.is og á Covid.is.
ImagebyTumisufromPixabay