Jákvæðar fréttir hafa undanfarið borist af góðum gangi í þróun bóluefna við COVID-19. Hafði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gert sér vonir um að hjarðónæmi yrði náð í lok mars 2021. Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í morgun kom hins vegar í ljós að seinkun verður á afhendingu skammta og að færri skammtar muni berast í fyrstu en upphaflega var gert ráð fyrir. Miðað við stöðuna núna er gert ráð fyrir að gott hjarðónæmi náist ekki á Íslandi fyrr en á seinni hluta næsta árs, 2021.

Fyrstu skammtar berast til landsins í kringum jólin

Samkvæmt samningi Íslands og Evrópusambandsins hefur Ísland tryggt sér kaup á bóluefni frá Pfizer fyrir um 85.000 einstaklinga. Vegna skorts á hráefni hjá framleiðanda þá seinkar framleiðslu bóluefnisins og stefnir í að Ísland fái færri skammta af bóluefni á næstu mánuðum en vonir stóðu til.

Í kringum jólin munu berast bóluefni fyrir um 5.000 einstaklinga. Þá verður byrjað á því að bólusetja framlínufólk í heilbrigðisstéttum, um 1.000 einstaklinga og jafnframt vistmenn á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum sem að telur um 3.-4.000 einstaklinga. Í janúar eða febrúar ætti síðan að berast bóluefni fyrir um 8.000 einstaklinga og þá yrði haldið áfram að bólusetja elstu aldurshópana.

Skammtar fyrir 30.000 einstaklinga verði komnir í lok mars

Uppfært 18. desember kl. 14:23: Miðað við orð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra virðist stefna í að bólusetningaráætlanir muni ganga mun betur en greina mátti af fréttum gærdagsins. Heilbrigðisráðherra segir að samkvæmt áætlunum sem nú liggi fyrir komi um þrjú til fjögur þúsund skammtar af bóluefni Pfizer til landsins í hverri viku frá því í lok desember og út mars. Þá verði komnir um 60 þúsund skammtar til landsins. Sóttvarnalæknir hafði verið mun svartsýnari á stöðu bóluefnis á upplýsingafundi almannavarna í gær en áður en dró þó nokkuð í land í tilkynningu síðdegis í dag. Samkvæmt Svandísi munu allar þjóðir Evrópu fá tíu þúsund skammta frá Pfizer strax fyrir eða um jólin. Síðan hefjist hlutfallsleg afhendingaráætlun fyrir öll ríki Evrópu. Samkvæmt henni fái Ísland milli þrjú til fjögur þúsund skammta á viku frá 27. desember og út mars. Þar sem hver einstaklingur þarf tvo skammta af efninu ættu birgðirnar í lok mars því að duga fyrir þrjátíu þúsund manns. Frétt Vísis má sjá hér.

Hjarðónæmi á Íslandi náist á seinni hluta 2021

Ennþá er óljóst hvenær afhending á öðrum bóluefnum hefst, þó líklega ekki fyrr en um mitt næsta ár 2021. Um mitt árið verður vonandi búið að bólusetja alla viðkvæmustu hópana en gott hjarðónæmi mun tæpast nást á Íslandi fyrr en einhverntímann á seinni hluta ársins 2021.

Ofangreint var meðal þess sem kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í morgun. Hér má sjá frétt Vísis um málið ásamt hlekk á erindi Þórólfs. Hérna má svo sjá upplýsingafundinn í heild sinni á Facebook.

Erindi um þróun, virkni og mögulegar aukaverkanir af bóluefninu

Vert er að mæla með áhugaverðu innleggi Ingileifar Jónsdóttur prófessors í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og deildarstjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hún fjallaði um þróun bóluefna við COVID-19 og virkni þeirra, vó kosti þeirra og galla og mögulegar aukaverkanir en hún telur að líkur á alvarlegum aukaverkunum vegna COVID-19 séu hverfandi litlar. Erindi hennar hefst ca. á 11:30 mínútu upplýsingafundarins.

Yfirlit yfir stöðu samninga um bóluefni vegna COVID-19

Íslensk stjórnvöld hafa, eins og fyrr segir, undirritað samning um skammta af af bóluefni Pfizer og BioNTech fyrir um 85.000 manns við lyfjafyrirtækið Pfizer en hráefnisskortur mun tefja afhendingu. Bóluefni Pfizer og BioNTech inniheldur skaðlausa kórónuveiru sem flytur erfðaefni veirunnar inn í líkamann til að vekja mótefnasvar. Bóluefni Astra Zeneca og Oxfordháskóla nýtir hluta af RNA erfðaefni veiru til að vekja mótefnasvar í líkamanum. Ofangreind bóluefni eru lengst á veg komin í þróunarferlinu af þeim bóluefnum sem eru í þróun. 

Hérna má sjá frétt RÚV um stöðu samninga um helstu bóluefnin vegna COVID-19. Af bóluefnunum sjö sem hérna er fjallað um, byggja þrjú á sama grunni og bóluefni Pfizer og BioNTech, tvö verka líkt og bóluefni Astra Zeneca og Oxfordháskóla og eitt er svokallað prótínbóluefni sem notar prótín af yfirborði veirunnar er notað til að vekja mótefnasvar.

----
Image by Frauke Riether from Pixabay