Erindi sent til þjónustumiðstöðva og fulltrúa sveitarfélaga vegna NPA samninga

NPA miðstöðin sendi í dag neðangreint erindi til þjónustumiðstöðva og fulltrúa sveitarfélaga vegna NPA samninga:

Þann 21. desember sl. undirritaði félags- og jafnréttismálaráðherra nýja reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Í reglugerðinni er að finna ýmis ákvæði er varða framkvæmd NPA sem skortur hefur verið á fram til þessa, til dæmis varðandi umsýslu, ferli umsókna, fræðslu, fjárhagslega framkvæmd o.fl. Að gefnu tilefni vill NPA miðstöðin taka fram að reglugerðin er komin til framkvæmda og því ber sveitarfélögum að aðlaga NPA þjónustu sína til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar nú þegar.

Í 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að launakostnaður í NPA skuli taka mið af kjörum aðstoðarfólks skv. gildandi kjarasamningum hverju sinni. Á því hefur verið verulegur skortur á innleiðingartímabili NPA að sveitarfélög miði greiðslur við ákvæði kjarasamninga og geri notendum kleift að greiða kjarasamningsbundin laun NPA aðstoðarfólks til samræmis við metna þjónustuþörf. Þá vekur NPA miðstöðin sérstaka athygli á ákvæði 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, en þar segir í 2. málsl. að framlag til NPA samninga skuli „greitt fyrirfram í upphafi hvers mánaðar“ en fram til þessa hafa mörg sveitarfélög greitt mun seinna í hverjum mánuði og jafnvel undir lok þess mánaðar sem greiðslan tekur til.

NPA miðstöðin vísar jafnframt til bráðabirgðaákvæðis reglugerðarinnar þar sem tekið er fram að sveitarfélög skuli, eigi síðar en mánuði frá gildistöku reglugerðarinnar, senda notendum og umsýsluaðilum tilkynningu um endurnýjun samninga vegna ársins 2019. Sé það mat samningsaðila að þjónustuþörf hafi ekki breyst frá síðustu samningsgerð skuli gerður nýr einstaklingssamningur um NPA óski notandi þess.

Nokkuð hefur borið á því að sveitarfélög beri fyrir sig skort á stöðluðum samningsformum eða eigin reglum til þess að geta afgreitt endurnýjun samninga vegna ársins 2019 eða nýjar umsóknir um NPA. NPA miðstöðin hafnar slíkum málflutningi. Skortur á eigin reglum eða stöðluðum samningsformum á ekki að koma í veg fyrir að sveitarfélög geti endurnýjað og gert nýja NPA samninga á grundvelli fyrirliggjandi eyðublaða og gagna auk þess sem skortur á eigin reglum eða stöðluðum samningsformum kemur ekki í veg fyrir að einstaklingur, sem á rétt á NPA skv. 11. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, fái ekki NPA.

NPA miðstöðin skorar því á sveitarfélög að grípa til eftirfarandi aðgerða nú þegar:
1. Endurnýja eldri samninga
2. Afgreiða nýjar og óafgreiddar umsóknir um NPA
3. Aðlaga greiðslur til NPA til samræmis við ákvæði kjarasamninga
4. Tryggja að greiðslur vegna NPA berist fyrirfram í upphafi hvers mánaðar.

Prenta | Netfang

Frá og með deginum í dag er réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar orðinn virkur.

Í dag, mánudaginn 1. október 2018, tóku gildi ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í lögunum er meðal annars kveðið á um rétt þeirra sem falla undir lögin til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Gildistöku laganna hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, enda hefur aðdragandi að lagasetningunni verið langur. Fjölmargir hafa beðið svo árum skiptir, ýmist án þjónustu eða í úreltu þjónustuformi sem einkennist af stofnanaumhverfi og félagslegri einangrun, eftir því að geta loksins hafið sjálfstætt líf á eigin forsendum.

Frá og með deginum í dag eiga allir þeir sem falla undir lögin rétt á NPA. Það þýðir ekki aðeins rétt til þess að leggja fram umsókn um NPA heldur felst meginregla laganna í því að sveitarfélagi ber skylda til að skipuleggja þá þjónustu sem umsækjandi á rétt á sem NPA óski hann eftir því. Þessi réttur er ekki takmarkaður af svigrúmi sveitarfélaga til fjölda samninga, fjármagni í málaflokknum eða hvernig samstarfi ríkis og sveitarfélaga er háttað um framkvæmdina á NPA. NPA er valkostur fyrir fatlað fólk en ekki fyrir sveitarfélög.

NPA miðstöðin hvetur alla áhugasama til þess að sækja um NPA. Sveitarfélögum ber skylda til þess að taka formlega afstöðu til umsókna um NPA og veita leiðbeiningar um hvernig umsækjendur bera sig að við umsóknina. Einnig eru í boði kæruleiðir hafni sveitarfélag að taka fyrir umsókn eða synji umsókn um þjónustu. Áhugasamir geta einnig leitað til NPA miðstöðvarinnar hafi þeir einhverjar spurningar.

Til hamingju öll með daginn!

Prenta | Netfang

NPA miðstöðin leitar að liðsauka

NPA miðstöðin óskar eftir að ráða í tvær stöður á skrifsofu miðstöðvarinnar í Hátúni 12. Annars vegar er um að ræða starf ráðgjafa og hins vegar starf bókara eða launafulltrúa.

Ráðgjafi mun hafa það hlutverk að veita væntanlegum og núverandi NPA notendum hjá NPA miðstöðinni ráðgjöf er varðar réttinn til NPA, umsóknarferlið, hugmyndafræðina um sjálfstætt líf, verkstjórnarhlutverkið og um framkvæmd NPA þjónustunnar. Ráðgjöfin nær einnig til aðstoðarfólks NPA notenda hjá miðstöðinni um málefni sem að því snýr. Um er að ræða fjölbreytt og krefjandi starf sem viðkomandi starfsmaður mun fá tækifæri til þess að taka þátt í að móta og þróa. Sjá nánar með því að smella hér.

Bókari eða launafulltrúi mun annast fjölbreytt verkefni er snúa að bókhaldi, reikningagerð, launagreiðslum, eftirfylgni með samningum NPA notenda, innheimtu krafna, bókunum, afstemmingum, gerð reikningsyfirlita o.fl. Sjá nánar með því að smella hér.

Umsóknarfrestur er til og með 1. október 2018 og skulu umsóknir sendar á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Allar nánari upplýsingar veitir Hjörtur Eysteinsson skrifstofustjóri í gegnum tölvupóstfangið This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Við viljum hvetja alla áhugasama til að sækja um störfin og sérstaklega fatlað fólk. Horft verður sérstaklega til þeirra og annarra sem hafa persónulega reynslu af NPA.

 

Prenta | Netfang

Fleiri greinar...