Erindi sent til þjónustumiðstöðva og fulltrúa sveitarfélaga vegna NPA samninga

NPA miðstöðin sendi í dag neðangreint erindi til þjónustumiðstöðva og fulltrúa sveitarfélaga vegna NPA samninga:

Þann 21. desember sl. undirritaði félags- og jafnréttismálaráðherra nýja reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Í reglugerðinni er að finna ýmis ákvæði er varða framkvæmd NPA sem skortur hefur verið á fram til þessa, til dæmis varðandi umsýslu, ferli umsókna, fræðslu, fjárhagslega framkvæmd o.fl. Að gefnu tilefni vill NPA miðstöðin taka fram að reglugerðin er komin til framkvæmda og því ber sveitarfélögum að aðlaga NPA þjónustu sína til samræmis við ákvæði reglugerðarinnar nú þegar.

Í 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að launakostnaður í NPA skuli taka mið af kjörum aðstoðarfólks skv. gildandi kjarasamningum hverju sinni. Á því hefur verið verulegur skortur á innleiðingartímabili NPA að sveitarfélög miði greiðslur við ákvæði kjarasamninga og geri notendum kleift að greiða kjarasamningsbundin laun NPA aðstoðarfólks til samræmis við metna þjónustuþörf. Þá vekur NPA miðstöðin sérstaka athygli á ákvæði 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, en þar segir í 2. málsl. að framlag til NPA samninga skuli „greitt fyrirfram í upphafi hvers mánaðar“ en fram til þessa hafa mörg sveitarfélög greitt mun seinna í hverjum mánuði og jafnvel undir lok þess mánaðar sem greiðslan tekur til.

NPA miðstöðin vísar jafnframt til bráðabirgðaákvæðis reglugerðarinnar þar sem tekið er fram að sveitarfélög skuli, eigi síðar en mánuði frá gildistöku reglugerðarinnar, senda notendum og umsýsluaðilum tilkynningu um endurnýjun samninga vegna ársins 2019. Sé það mat samningsaðila að þjónustuþörf hafi ekki breyst frá síðustu samningsgerð skuli gerður nýr einstaklingssamningur um NPA óski notandi þess.

Nokkuð hefur borið á því að sveitarfélög beri fyrir sig skort á stöðluðum samningsformum eða eigin reglum til þess að geta afgreitt endurnýjun samninga vegna ársins 2019 eða nýjar umsóknir um NPA. NPA miðstöðin hafnar slíkum málflutningi. Skortur á eigin reglum eða stöðluðum samningsformum á ekki að koma í veg fyrir að sveitarfélög geti endurnýjað og gert nýja NPA samninga á grundvelli fyrirliggjandi eyðublaða og gagna auk þess sem skortur á eigin reglum eða stöðluðum samningsformum kemur ekki í veg fyrir að einstaklingur, sem á rétt á NPA skv. 11. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, fái ekki NPA.

NPA miðstöðin skorar því á sveitarfélög að grípa til eftirfarandi aðgerða nú þegar:
1. Endurnýja eldri samninga
2. Afgreiða nýjar og óafgreiddar umsóknir um NPA
3. Aðlaga greiðslur til NPA til samræmis við ákvæði kjarasamninga
4. Tryggja að greiðslur vegna NPA berist fyrirfram í upphafi hvers mánaðar.