Bente

Bente Skansgard, stofnandi samvinnufélagsins ULOBA í Noregi um notendastýrða persónulega aðstoð og fyrrum formaður Evrópusamtaka um sjálfstætt líf (ENIL), lést fimmtudaginn 14. nóvember síðast liðinn.

Bente var talin móðir Uloba og notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í Noregi enda góður og aðdáanverður leiðtogi. Hún var vel metin fyrir húmor sinn, þolinmæði, varfærni en um leið festu í baráttu sinni. Hún hefur barist fyrir bættum aðstæðum fatlaðs fólks síðan hún var ung og árangur hennar birtist einna skýrast í notendastýrðri persónulegri aðstoð í Noregi. Hún barðist þó á víðari grundvelli, bæði á öðrum Norðurlöndum, í Evrópu og víðar. Bente átti meðal annarra frumkvæðið að stofnun Evrópusamtakana um sjálfstætt líf.

NPA miðstöðin hefur notið ráðgjafar frá Bente frá upphafi og hefur hún af metnaði og alúð hvatt okkur áfram í þróun og uppbyggingu samvinnufélags okkar og baráttunni fyrir NPA með því að svara ótal fyrirspurnum, senda okkur nýjustu gögn og bjóða framkvæmdastýru að dvelja á heimili sínu í viku á meðan hún kynntist ULOBA í Drammen, Noregi árið 2010.

Stjórn og framkvæmdastýra NPA miðstöðvarinnar minnast Bente með miklum söknuði en umfram allt af djúpri virðingu og þakklæti fyrir allt það sem hún hefur lagt að mörkum til mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Við vitum að án hennar framlags, og annarra erlendra frumkvöðla, værum við mögulega ekki á þeim stað sem við erum nú, búin að stofna miðstöð og stuðla með einum og öðrum hætti að því að fimmtíu íslenskir borgarar með skerðingu eru komnir með NPA samning og enn fleiri með beingreiðslusamning. Við vitum líka að nú er það á ábyrgð okkar allra, sem eftir sitjum, að halda baráttunni áfram og þeim árangri lifandi sem Bente Skansgard náði.

NPA miðstöðin sendir fjölskyldu Bente, samstarfsfólki hennar í ULOBA og fötluðu fólki sem hefur barist fyrir sjálfstæðu lífi um allan heim henni við hlið okkar innilegustu samúðarkveðjur.

ENIL minnist þessarar merkilegu mannréttindabaráttukonu hér: http://www.enil.eu/news/in-remembrance-bente-skansgard/

NPA miðstöðin