Hér er að finna samþykktir NPA miðstöðvarinnar, samvinnufélags um rekstur miðstöðvar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Nýjasta útgáfa samþykktanna var samþykkt á aðalfundi þann 16. júní 2020.

SAMÞYKKTIR

Félag um rekstur miðstöðvar um notendastýrða persónulega aðstoð

1. gr.

Heiti félagsins, heimili og varnarþing

Félagið heitir NPA miðstöðin svf. Heimili og varnarþing félagsins er í Kópavogi.

2. gr.

Tilgangur og markmið

Tilgangur félagsins er að styðja fatlað fólk við að útvega og skipuleggja persónulega aðstoð. Starfsemin skal byggja á hugmyndafræði um Sjálfstætt líf (Independent Living) og uppfylla skilyrði til aðildar að Evrópusamtökum um sjálfstætt líf (ENIL, European Network on Independent Living).

Notendastýrð persónuleg aðstoð er þjónusta sem skipulögð er af notandanum og miðar að því að hann eigi kost á að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á:

a)   að fatlað fólk hafi fulla stjórn á allri aðstoð sem það telur sig þurfa, m.a. með því að ákveða hver, hvar, hvernig, hvenær og hvaða aðstoð er veitt.

b)   að fatlað fólk njóti jafnréttis og taki þátt í samfélaginu.

3. gr.

Starfsemi

Starfssvæði félagsins er Ísland.

Starfsemin felst í:

a)   að aðstoða félagsmenn við starfsmannamál, svo sem ráðningar, launa- og skipulagsmál, skv. reglum sem settar skulu af NPA miðstöðinni svf., m.a. um réttindi og skyldur félagsmanna annars vegar og NPA miðstöðvarinnar hins vegar.

b)   jafningjafræðslu og ráðgjöf.

c)   fræðslu og ráðgjöf til félagsmanna og aðstoðarfólks.

d)   kynningu og fræðslu til almennings og stjórnvalda.

e)   þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á sviði hugmyndafræðinnar um Sjálfstætt líf.

NPA miðstöðin þjónar sem samtök atvinnurekenda á sviði notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Miðstöðin tekur að sér að annast samskipti við stéttarfélög og gera kjarasamninga aðstoðarfólksins fyrir hönd félagsmanna sem falið hafa miðstöðinni umboð til þess.

4. gr.

Félagsaðild

Félagsmenn geta orðið þeir sem hafa fengið samþykktan NPA samning eða notendasamning og nýta sér félagið sem umsýsluaðila með sínum samningi. Með NPA samningi eða notendasamningi er átt við að notandinn fær fjármagn greitt beint til sín og getur sjálfur ráðstafað fénu til að kaupa þá þjónustu sem hann þarf.

Félagsaðild er opin þeim sem hafa fengið samþykktan NPA samning eða notendasamning frá sínu sveitarfélagi og vilja nýta sér NPA miðstöðina sem umsýsluaðila. Um leið og notandi gerist félagsmaður í miðstöðinni gerist viðkomandi einnig einn af eigendum miðstöðvarinnar.

Félagsaðild fellur brott þegar félagsmaður fullnægir ekki lengur ákvæðum samþykkta þessara um félagsaðild eða segir sig úr félaginu.

5. gr.

Aðstoðarverkstjórnandi félagsmanns

Þeir félagsmenn sem ekki geta farið með sín mál án aðstoðar geta haft aðstoðarverkstjórnanda. Aðstoðarverkstjórnendur aðstoða þá félagsmenn í samskiptum og við ákvarðanatöku innan NPA miðstöðvarinnar og við kosningar innan hennar.

Félags- eða aðalfundur setur nánari reglur um aðstoðarverkstjórnendur samkvæmt þessari grein.

6. gr.

Aðildargjald

Aðildargjald er 5.000 kr. og skal renna í stofnsjóð. Gjaldinu má breyta til samræmis við almennar verðlagsbreytingar, gjalddaga þess og greiðsluform.

7. gr.

Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi og skal hún endurspegla fjölbreytileika félagsmanna, m.a. á þann hátt að meirihluta stjórnar, þ.m.t. formaður, skal skipa fatlað fólk.

Stjórnina skipa formaður og fjórir stjórnarmenn, kosnir til eins árs. Að auki skulu kosnir þrír varamenn í stjórn til eins árs. Kjósa skal formann sérstaklega.

Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn er eftir aðalfund félagins.

Kjörgengir til stjórnar eru félagsmenn. Framboðum til stjórnar skal skilað skriflega til stjórnar félagsins a.m.k. 10 dögum fyrir aðalfund.

Tilkynna skal framboð til formanns sérstaklega.

8. gr.

Aðalfundur

Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar bréflega með minnst mánaðar fyrirvara. Aðalfundir skulu haldnir árlega að vori.

Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundarins og tillögur um breytingar á samþykktum félagsins ef einhverjar eru. Óski félagsmenn eftir að teknar verði til afgreiðslu breytingar á samþykktum félagsins skulu slíkar tillögur hafa borist skriflega til stjórnar fyrir 1. apríl ár hvert.

Rétt til fundarsetu hafa félagsmenn. Allir félagsmenn hafa kosningarétt. Einfaldur meirihluti félagsmanna við atkvæðagreiðslur ræður úrslitum mála nema við breytingar á samþykktum þessum, en þá gildir aukinn meirihluti samkvæmt ákvæðum laga um samvinnufélög. Allir félagsmenn hafa jafnan atkvæðisrétt. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirtalin mál í þessari röð:

1.   Skýrsla stjórnar og umræður um hana.

2.   Framlagning ársreiknings til umræðu og samþykktar.

3.   Ákvörðun um aðildargjald.

4.   Hvernig skuli fara með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu.

5.   Tillögur að breytingum á samþykktum félagsins.

6.   Kosning formanns til eins árs.

7.   Kosning fjögurra stjórnarmanna til eins árs.

8.   Kosning þriggja varamanna til eins árs.

9.   Kosning endurskoðanda eða endurskoðendafélags reikninga.

10. Þóknun stjórnar fyrir liðið ár.

11. Mál sem tiltekin eru í fundarboði.

12. Önnur mál.

9. gr.

Almennir félagsfundir

Til almennra félagsfunda skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Félagsfundi skal halda ef stjórn félagsins telur ástæðu til. Einnig geta félagsmenn óskað eftir slíkum fundi og skulu þær óskir sendar skriflega til stjórnar félagins.

Óski 10% félagsmanna eftir félagsfundi er stjórn félagsins skylt að verða við slíkri ósk. Skal stjórn senda út fundarboð með dagskrá fundarins innan 14 daga frá því að ósk um fund barst stjórninni.

Um rétt til fundarsetu, kosningarétt og atkvæðagreiðslur á félagsfundi gilda ákvæði 3. mgr. 8. gr. samþykkta þessara. Að auki getur stjórn félagsins ákveðið að heimila öðrum setu á félagsfundi af málefnalegum ástæðum.

10. gr.

Hlutverk stjórnar

Hlutverk stjórnar félagsins er að móta faglegt starf sem byggir á hugmyndafræðinni um Sjálfstætt líf. Einnig að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnin tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og málefni milli aðalfunda.

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra, sem hefur yfirumsjón með rekstri og fjármálum félagsins. Stjórnin gerir ráðningarsamning við framkvæmdastjóra og ákveður starfssvið hans að öðru leyti. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk félagsins og annast daglegan rekstur þess í samráði við stjórnina og í umboði hennar.

Stjórnin ásamt framkvæmdastjóra mótar að öðru leyti stefnu félagsins og gætir hagsmuna félagsmanna í hvívetna.

11. gr.

Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal að jafnaði halda mánaðarlega. Formaður skal boða til stjórnarfunda, en stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Til stjórnarfunda skal boða með a.m.k. viku fyrirvara.

Ákvarðanir stjórnarfundar eru því aðeins lögmætar að 3 fulltrúar samtals úr stjórn og varastjórn að lágmarki séu á fundi.

Á stjórnarfundum er málum ráðið til lykta með einföldum meirihluta atkvæða. Falli atkvæði jafnt telst tillaga felld. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi haft tök á því að fjalla um hana.

Stjórnin skal halda fundargerðarbók um meginatriði þess sem gert er og ákveðið er á fundum.

12. gr.

Eignarhald og ágóði

Félagið er í eigu félagsmanna og skal starfrækt án fjárhagslegs ágóðasjónarmiðs og skal félagsmönnum ekki greiddur út arður af starfseminni.

13. gr.

Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

14. gr.

Rekstrarform félagsins

Félagið skal starfa eftir lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög.

15. gr.

Slit félagsins

Hægt er að slíta félaginu hafi það verið samþykkt á tveimur félagsfundum sem haldnir eru með minnst eins mánaðar millibili og með tveimur þriðju hluta atkvæða. Við slit félagsins skulu eigur þess renna til félags sem styðst við hugmyndafræði hreyfingar fatlaðs fólks um Sjálfstætt líf (Independent Living). Ákvörðun þar að lútandi skal samþykkt samhliða slitum á félaginu.

Hér má nálgast samþykktir NPA miðstöðvarinnar (.pdf)