Samstarfsverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð
Samstarfsverkefnið um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) er ekki tilraunarverkefni. Það er samstarfsverkefni á milli ríkis, sveitafélaga og samtaka fatlaðs fólks um að þróa leiðir við að innleiða og taka upp NPA og lögfesta það sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk á Íslandi. Enda er NPA besta lausnin til að uppfylla einn mikilvægasta kafla í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks; kaflinn um sjálfstætt líf.
Í lögum um málefni fatlaðs fólks stendur eftirfarandi:
„Sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks skal komið á um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Markmið verkefnisins er að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Miða skal við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa."
„Enn fremur skal ráðherra eigi síðar en í árslok 2016 leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk"
Þess ber einnig að geta að í frumvarpi til þess að framlengja samstarfsverkefnið var það tillaga frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu að breyta seinni málsgreininni hér að ofan í eftirfarandi:
„Við endurskoðun á lögum þessum skal m.a. lagt til að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem þjónustuúrræði fyrir fatlað fólk."
Svar velferðarnefndar Alþingis við þessum breytingum var eftirfarandi:
„Nefndin telur æskilegt að framlengja samstarfsverkefnið til 2016. Aftur á móti telur nefndin ekki fram komin rök sem sýna að þörf sé á þeirri breytingu sem lögð er til í b-lið 4. gr. frumvarpsins, enda er þegar gert ráð fyrir lögfestingu persónulegrar notendastýrðrar aðstoðar sem eins meginforms þjónustu við fatlað fólk í 2. málsl. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðra. Nefndin leggur því til að sú breyting ein verði gerð á 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum að ártalinu 2014 verði skipt út fyrir 2016 í 1. og 2. málsl. málsgreinarinnar."
Nefndin hafnaði því tillögu ráðuneytisins til útþynningar á orðalagi laganna. Hefði þessi tillaga til lagabreytingar verið samþykkt óbreytt þá væri NPA ekki tryggð sem framtíðarfyrirkomulag og hugsanlega væri hægt að tala um tilraunarverkefni.
Í samskiptum mínum við opinbera aðila á ýmsum sviðum frá sveitafélögum til ríkis er mikið talað um „tilraunarverkefnið". Rætt er um verkefnið eins og þetta sé bara tilraun, ekkert víst að því verði haldið áfram og eins og að þetta sé ekki alvöru þjónustuform heldur bara til bráðabirgða, eitthvað sem þarf ekkert að framkvæma af alvöru. Félags- og húsnæðismálaráðherra gerist jafnvel svo frökk í ræðu sinni á alþingi um fjármálafrumvarpið fyrir 2016 að segja:
„Alþingi samþykkti á síðasta þingi lagabreytingu sem hvað á um að áfram yrði unnið að NPA sem tilraunaverkefni til ársloka 2016".
(sjá á sjöttu mínútu í eftirfarandi myndbandi )
Alþingi hefur hins vegar afgreitt lög um málið í tvígang og þá samþykkt með öllum greiddum atkvæðum það orðalag sem sést hér að ofan. Það er því vilji alþingis að NPA verði lögfest og að það verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk. Það er mér því óskiljanlegt afhverju verkefnið er ekki unnið með því sjónarmiði.
Ef fólk vill kalla þetta verkefni eitthvað annað en Alþingi gerir, þá væri mun nær að kalla þetta aðlögunarverkefni eða verkefni um innleiðingu NPA.
Rúnar Björn Herrera
Formaður NPA miðstöðvarinnar