Árið 2015

Hjörtur Örn EysteinssonÓhætt er að segja að árið 2015 hafi verið viðburðaríkt fyrir NPA miðstöðina. Á árinu sem leið varð miðstöðin fimm ára og flutti starfsemi sína í nýja skrifstofu í Hátúni 12 í Reykjavík. Á seinni hluta ársins var svo ráðinn nýr skrifstofustjóri til að sinna rekstri miðstöðvarinnar og halda utan um þjónustuhlutverk hennar. Í árslok voru félagsmenn miðstöðvarinnar 13 talsins og um 60 aðstoðarmenn á launaskrá.

Árið 2015 einkenndist að miklu leyti af kjaradeilum í íslensku atvinnulífi og NPA miðstöðin hefur ekki farið varhluta af því. Þessar kjaradeilur og launahækkanir í framhaldi af þeim hafa mótað mjög starfsumhverfi NPA miðstöðvarinnar og haft mikil áhrif á notendur NPA þjónustunnar.

Frá upphafi NPA verkefnisins hefur verkefnisstjórn um NPA gefið út svonefndan jafnaðartaxta, sem hefur átt að endurspegla heildarkostnað við hverja klukkustund að meðaltali fyrir þjónustu samkvæmt umræddum NPA samningum. Greiðslur á grundvelli ákveðins tímafjölda í NPA samningum hafa grundvallast á þessum jafnaðartaxta. Margsinnis hefur hins vegar verið á það bent af hálfu NPA miðstöðvarinnar að umræddur jafnaðartaxti endurspegli ekki raunverulegan kostnað fyrir þjónustuna, einkum vegna þess að notendur NPA eru bundnir af ákvæðum kjarasamninga um að greiða starfsfólki sínu kjarasamningsbundin laun og aðrar greiðslur, rétt eins og aðrir launagreiðendur.

Lengi vel var ekki brugðist við ákalli NPA miðstöðvarinnar um að hækka þyrfti NPA samninga til samræmis við launaþróun. Í lok október á síðasta ári stóðu NPA miðstöðin, Þroskahjálp og Styrktarfélagið Ás sameiginlega að kynningarfundi um stöðu og fjármál NPA þjónustunnar. Á fundinn mættu fulltrúar sveitarfélaga, Alþingis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, ráðuneyta og verkefnisstjórnar um NPA ásamt NPA notendum og aðstandendum. NPA miðstöðin kynnti á fundinum reiknilíkan fyrir raunverulegan jafnaðartaxta um kostnað við hverja NPA vinnustund. Niðurstaðan var sú að jafnaðartaxtar verkefnisstjórnar um NPA gengju ekki upp þar sem samningar NPA notenda hefðu ekki tekið sömu hækkunum og launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Fyrir NPA notendur þýddi það hækkandi launakostnað hjá aðstoðarfólki á meðan fjárframlagið frá sveitarfélögum stæði í stað. Staðan væri alvarleg þar sem margir notendur væru komnir í skuld við sína umsýsluaðila og stæðu frammi fyrir því að þurfa skera niður í þjónustu við sig. Því væri nauðsynlegt að hækka jafnaðartaxta til að endurspegla kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og leiðrétta samninga afturvirkt með tilliti til launahækkana frá 1. maí 2015.

Í framhaldi af fundinum gaf verkefnisstjórn um NPA út tilkynningu um að ekki yrði lengur gefinn út jafnaðartaxti fyrir NPA og sveitarfélögum bent á að fara eftir ákvæðum kjarasamninga við veitingu þjónustunnar. NPA miðstöðin hefur fylgt fundinum eftir með frekari kynningu á reiknilíkani sínu um jafnaðartaxta fyrir NPA og gefa viðbrögð sveitarfélaganna við þeim tilefni til bjartsýni um að fjárhæð samninganna fari loksins að endurspegla raunverulegan kostnað við þjónustuna og kjarasamningsbundnar hækkanir.

Árið 2015 einkenndist einnig af ágreiningi milli ríkis og sveitarfélaganna varðandi fjármögnun á þjónustu við fatlaða, og átti það einnig við um NPA verkefnið. Þessi ágreiningur hefur sett NPA notendur í erfiða stöðu, en á síðustu vikum ársins náðist samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um framlengingu á NPA verkefninu og fjármögnun þess. Þannig hækkar hlutdeild ríkisins vegna NPA samninga úr 20% í 25% á árinu 2016. Þrátt fyrir að það skuli út af fyrir sig vera jákvætt eru þó ákveðin vonbrigði að NPA skuli ekki hafa verið hluti af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um framtíðarfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk sem undirritað var þann 11. desember sl.

Framundan á árinu 2016 eru fjölbreyttar áskoranir og ærin verkefni hjá NPA miðstöðinni. Nú í janúar er mikilvægt fyrir félagsmenn okkar að ganga frá endurnýjun á samningum sínum og að við endurnýjun þeirra sé tekið mið af kjarasamningum aðstoðarmanna og leiðréttingu afturvirkt frá 1. maí 2015 vegna kjarasamningsbundinna hækkana. NPA miðstöðin er að sjálfsögðu reiðubúin að aðstoða félagsmenn við endurnýjunina. Jafnframt mun vinna NPA miðstöðvarinnar við að endurnýja og samræma samstarfssamninga sína við sveitarfélögin halda áfram í upphafi nýs árs. Við munum einnig  á nýju ári bæta mjög í þjónustu NPA miðstöðvarinnar við félagsmenn okkar, bæði með aukinni fræðslustarfsemi, ráðgjöf og kynningarverkefnum sem og aðstoð við sjálfa framkvæmdina á NPA.

Markmið okkar fyrir árið 2016 er að auka þjónustuna við félagsmenn með markvissum hætti. Þá viljum við um leið stuðla að því að slétta úr misfellum sem fram hafa komið í framkvæmdinni á NPA og leiðrétta ósamræmi í túlkun og framkvæmd samninga. Samræming samstarfssamninga við sveitarfélög er mikilvægur áfangi í átt að því markmiði. Við munum jafnframt vera áfram öflugur málssvari fyrir NPA notendur í umræðu um málefni fatlaðs fólks og leggja okkar af mörkum til að sjá til þess að félagsmenn njóti fullnægjandi þjónustu frá sínum sveitarfélögum, í samræmi við aðstæður hvers og eins.

Á nýju ári munum við einnig horfa inn á við. Við viljum efla og bæta okkar innra starf, setja okkur skilmála um félagsaðild, halda félagsmönnum okkar enn betur upplýstum um starf NPA miðstöðvarinnar, stöðu NPA samninga hjá viðkomandi notanda og byggja upp samskipta og tengslanet sem virkjar félagsmenn til þátttöku í félaginu og auðveldar þeim að halda utan um og annast framkvæmdina á NPA samningum sínum.

Með von um gæfu og gleði á nýju ári.

Fh. NPA miðstöðvarinnar
Hjörtur Örn Eysteinsson
Skrifstofustjóri

NPA miðstöðin