„Mikið ertu nú dugleg!“
Þetta er setning sem undirrituð fær að heyra nánast á hverjum degi. Og það hljómar ekki illa, eflaust vildu margir fá að heyra hrós og hvatningu upp á hvern dag, en spurningin er bara, hef ég unnið fyrir öllu þessu hrósi og hvers vegna skyldi fólk vera svona áfjáð í að hrósa mér?
Áður en lengra er haldið er kannski rétt að taka fram að höfundur er kona, komin vel yfir fertugt, og því mætti ætla að hrós fyrir ýmis hversdagsleg verk ætti ekki lengur við þegar þeim aldri er náð.
En svo virðist sem sumt fólk álíti að til dæmis sú einfalda athöfn að hella vatni úr könnu í glas eða smyrja brauðsneið án sjónar sé hreinasta afrek.
Skýringin er sennilega sú að fólk getur ekki ímyndað sér hvernig er að framkvæma þessa einföldu hluti án þess að sjá hvað verið er að gera. Það lokar augunum og fullvissar sig um að það gæti aldrei nokkurn tímann gert þetta án þess að sjá til þess.
Það gleymist hins vegar alveg að margra ára og jafnvel áratuga þjálfun og reynsla skilar sér í færni og getu.
Undirrituð hefur upplifað margt skondið og skemmtilegt, furðulegustu spurningar og tilsvör fólks sem álítur að það að sjá ekkert hljóti að vera hinn mesti harmleikur og hljóti að krefjast mikillar forsjár, aðstoðar og verndar.
Það verður þó að viðurkennast að stundum vekja þessi tilsvör og spurningar ekki kátínu og gleði á meðan þarf að kljást við þær, en oft má sjá skondnu hliðarnar á málunum þegar frá líður.
„Hver vökvar öll þessi blóm og hugsar um þau?“
Já, fyrir nokkrum árum uppgötvaði ég heilun og styrkingarmátt stofublómanna og til þess að njóta þess í botn hef ég safnað að mér og ræktað einhver ósköp af blómum sem fylla alla stofuglugga heimilisins. Hingað koma allmargir og það er býsna algengt að fólk velti því upphátt fyrir sér hver vökvi allar þessar plöntur og hugsi um þær. Í hugum sumra er óhugsandi að sjálfur eigandinn standi í því. Svörin eru oftast á þá leið að ég sé tilneydd, hafi engin efni á útlærðum garðyrkjumanni til verksins.
Í flestum tilfellum áttar fólk sig á háðinu og broddinum í slíku svari og spyr ekki frekar. En það er ekki sannfært, svo mikið er víst.
Ég ferðast talsvert með leigubílum eins og gefur að skilja þegar ökuréttindum er ekki til að dreifa.
Samskipti við leigubílstjóra geta, og hafa verið, alveg óborganleg.
Þegar ég eitt sinn, í roki og rigningu, tók leigubíl að heiman úr Stigahlíðinni í Hamrahlíð 17 spurði bílstjórinn:
„Fáiði sæmilegt að borða þarna í Hamrahlíðinni?“
Merkileg spurning þegar holdafarið er tekið með í reikninginn og auðvitað hélt blessaður maðurinn að fólk sem ekkert sér þyrfti að treysta á að fólk með sjón gæfi því að borða.
Fyrir nokkrum mánuðum tók ég leigubíl í Garðabæinn og samskiptin voru eitthvað á þessa leið:
„Góða kvöldið, ég er á leið í Mosprýði 2 í Garðabæ.“
„Mosprýði? Ég hef aldrei heyrt þá götu nefnda í Garðabæ.“
„Ja nei, kannski ekki, en....“
„Nei, hún er örugglega ekki til, ertu viss um að þetta sé rétt nafn?“
„Já, gatan heitir Mosprýði.“
„Nei, það getur ekki verið, ertu viss um að þú vitir hvert þú ert að fara?“
„Ha?“
(nei líklega verður maður hálf bilaður af því að sjá ekkert)
„Getum við ekki hringt í einhvern og spurt?“
„Ha, spurja einhvern hvert ég er að fara?“
„Já.“
„Jú, hringdu endilega sjálfur og fáðu upplýsingar um hvar Mosprýði er og hvernig þú kemst þangað. Ég hringi hvorki eitt né annað, það er þitt að finna út úr þessu.“
„Jahá, ég get svosem gert það, en ég held að þú verðir samt að fá betri upplýsingar.“
Og annar snillingur sagði fyrir nokkrum árum:
„Passaðu þig þegar þú ferð út úr bílnum, það eru tré og tröppur og svo eru nokkur börn þarna að leika sér...“
Tré, tröppur og börn!
Ekki vissi ég að börn væru orðin varasöm og maður þyrfti að gæta sín á þeim. Það væri kannski ráð að fara að íhuga lausagöngu þeirra?
Samskipti manns, jafnvel við bestu vinkonur, geta líka átt sér dásamlegar hliðar:
„Æi, ég fór í Debenhams í morgun, bara steingleymdi að þú vildir koma með mér, en ég skal senda Sigga með þér.“
Jújú, endilega, það er örugglega fátt skemmtilegra en að fara með eiginmönnum vinkvenna sinna til að skoða brjóstahaldara og önnur undirföt.
Eftirfarandi spurning er líka afar umhugsunarverð:
„Hvernig í andskotanum fer svona blind manneskja að því að reykja?“
Góð spurning. Það gengi eflaust betur ef ég væri aðeins minna blind eða eitthvað öðruvísi. Ég hafði heldur aldrei hugleitt að til slíkra athafna notuðu menn augun (Smok gets in your eyes).
„Ég meina, hvernig ferðu að því að kveikja í sígarettunni án þess að hreinlega kveikja í húsinu?“
Já, það er sennilega mun meiri möguleiki á að ég kveiki í heilu húsi en einni lítilli sígarettu.
Samskipti við afgreiðslufólk í búðum geta líka alveg sett mann út af laginu:
„Ég er nú í vafa um hvort ég á að selja þér þetta verkfæri (rafmagnsknúinn áleggshnífur), ætlarðu ekki örugglega að gefa hann?“
„Nei, ég hafði nú hugsað mér að sneiða niður skinkuna fyrir partíið á laugardaginn.“
„Guð minn almáttugur! Þú ætlar þó ekki að gera það sjálf!?“
„Jújú, en ég skal lofa þér því, í vitna viðurvist, að ég skal ekki senda reikninginn frá slysó á verslunina og ég fer ekki í skaðabótamál þó nokkrir fingur tapist.“
Fólki finnst þetta ekkert fyndið!
Það er líka býsna algengt að spurningum sé beint til þeirra sem með mér eru í stað þess að spyrja mig sjálfa.
Dæmi um slíkt eru:
„Vill hún poka?“
Eða:
„Er hún ekki örugglega öryrki? Það er nebblega afsláttur ef svo er.“
Og svarið er ævinlega:
„Nei, ég er sko ekki öryrki, hef aldrei verið og verð aldrei!“
Svona svör slá afgreiðslufólk alveg út af laginu enda nokkuð algengt að fólk “vilji“ vera öryrkjar þó ekki væri nema fyrir afslætti hér og þar.
Og í jólainnkaupunum fyrir síðustu jól:
„Já, hér eru þá jólakúlurnar og það þarf að binda þennan borða í þær. Þú færð svo einhvern til að hjálpa þér við það, er það ekki? Er ekki einhver sem getur hjálpað þér?“
Svo horfði afgreiðslukonan á leigubílstjórann sem stóð álengdar og beið:
„Þú hjálpar henni nú, er það ekki?“
„Nei, gaman að sjá þig, mikið ertu fín í dag, hver puntaði þig?“
Ó, ef ég hefði nú efni á herbergisþernu og þjóni, þá væri lífið litríkara.
Og meira af útlitinu:
„Ég skil ekkert í því af hverju fólk, sem hvort sem er sér ekkert, er að spá í sólgleraugu, til hvers?“
Já, hvers vegna skyldi fólk sem ekkert sér vera að spá í útlitið þegar það hvort sem er sér ekki sjálft sig í speglinum?
Fyrir nokkrum árum starfaði höfundur sem kennsluráðgjafi fyrir blinda og sjónskerta nemendur og þurfti að ferðast á milli skóla og hitta börnin reglulega. Í einni slíkri heimsókn bað undirrituð leigubílstjóra að aðstoða sig við að finna stigann í byggingunni því kennsla átti að fara fram á þriðju hæð.
Þegar upp í miðjan stiga kom heyrðist kona kalla stundarhátt og beindi orðum sínum til bílstjórans:
„Heyrðu þú þarna! Settu hana í lyftuna maður! Af hverju ertu að láta hana ganga þessa stiga?“
Svari bílstjórans mun ég aldrei gleyma svo flott sem það var:
„Já, heyrðu ertu til í að aðstoða mig við að koma henni inn í lyftuna. Hún er með einhvern mótþróa hérna og vill endilega ganga stigann.“
Að síðustu var það svo starfsmaður, sem starfað hafði í húsi Blindrafélagsins í áratugi (fagmaður vel að merkja) sem varpaði fram eftirfarandi spurningu á fundi:
„Hvers vegna í ósköpunum er ekki fyrir löngu búið að merkja Hamrahlíð 17 og nærliggjandi götur rækilega þannig að ökumenn átti sig á því að á vegi þeirra getur orðið mjög sjónskert fólk eða jafnvel alveg sjónlaust?“
Jú, eins gott að ökumenn og fullsjáandi vegfarendur viti af þessu þannig að þeir geti varað sig á þessum skrímslum!