Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks loks fullgiltur af hálfu Íslands!

sitelogoÍ gær, þriðjudaginn 20. september 2016, samþykkti Alþingi þingsályktun um að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn þann 30. mars 2007 en fram til þessa hefur Ísland verið í fámennum hópi þjóða sem ekki hefur fullgilt samninginn. Jafnframt ályktaði þingið að valkvæður viðauki við samninginn skyldi einnig fullgiltur fyrir árslok 2017.

NPA miðstöðin vill nýta tækifærið og óska landsmönnum öllum til hamingju þennan áfanga! Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Fullgilding samningsins mun koma til með að fela í sér umtalsverðar áherslubreytingar í þjónustu og aðgengismálum fyrir fatlað fólk hér á landi, viðurkenningu á grundvallar mannréttindum og frelsi allra einstaklinga auk þess að hafa jákvæð áhrif á stefnumótun í þessum málaflokki til frambúðar.

Þrátt fyrir að Alþingi hafi fullgilt samninginn er mikil vinna fyrir höndum. Samningurinn öðlast ekki lagagildi að íslenskum rétti fyrr en efni samningsins hefur verið innleiddur í íslensk lög sérstaklega. Helgast það af svokallaðri tvíeðliskenningu sem Ísland byggir á er varðar samband landsréttar og þjóðarréttar. Næstu skref verða því að sjá til þess að fullnægjandi þýðing á texta samningsins sé lögfest, en núverandi þýðing sáttmálans hefur verið nokkuð gagnrýnd. Þá tekur við innleiðingarferli sem miðar að því að innleiða ákvæði sáttmálans og aðlaga íslensk lög að honum. Sú vinna stendur nú þegar yfir, m.a. með innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem hefur t.a.m. mikla þýðingu fyrir 19. gr. samningsins.

NPA miðstöðin hvetur þingheim og stjórnvöld til að hraða áframhaldandi vinnu við innleiðingu samningsins eins og mögulegt er og gefa jafnframt fötluðu fólki og félagasamtökum fatlaðs fólks kost á því að taka virkan þátt í innleiðingarferlinu og hafa áhrif á það.

Þingsályktun Alþingis frá 20. september 2016
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á íslensku

Umsögn NPA miðstöðvarinnar um frumvarpsdrög til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk

VEL skjarMeð fréttatilkynningu á vef Velferðarráðuneytins þann 1. júlí sl. var óskað eftir umsögnum um frumvörp starfshóps um endurskoðun á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. NPA miðstöðin taldi ástæðu til að senda inn umsögn um frumvarp starshópsins til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar stuðningsþarfir, en í 21. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Það er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni að til standi að fullgilda notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt af meginformum í þjónustu við fatlað fólk. Hins vegar telur NPA miðstöðin að frumvarpið gangi ekki nægjanlega langt og að ákvæðið sé ekki nógu skýrt. Miðstöðin telur mikilvægt að útfærslan á NPA og afmörkun á réttindum til NPA þurfi að koma betur fram. Er í því sambandi vísað til tillögu verkefnisstjórnar um NPA sem hefur skilað af sér tillögu um það hvernig útfæra megi NPA og hver framtíðarsýnin í þjónustu við fatlað fólk eigi að vera í þeim efnum. Að mati NPA miðstöðvarinnar ætti starfshópurinn að taka inn tillögu verkefnisstjórnarinnar um NPA í frumvarpið í stað þeirrar sem fyrir er.

Þá telur NPA miðstöðin rétt að gera athugasemd við 6. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um notendasamninga. Að mati miðstöðvarinnar er óljóst hver tilgangurinn er með slíkum notendasamningum og hver munurinn sé á þeim og NPA samningum. Að mati NPA miðstöðvarinnar ætti að fella ákvæðið út úr frumvarpinu enda er NPA ætlað að leysa af hólmi eldri gerðir samninga líkt og ákvæðið lýsir. Þá má útfæra NPA á ýmsa vegu til að mæta ólíkum þjónustuþörfum fatlaðra einstaklinga, líkt og tillaga verkefnisstjórnar um NPA gerir ráð fyrir.

Að síðustu gerir NPA miðstöðin miklar athugasemdir við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins sem fela í sér framlengingu á innleiðingarferli NPA. Að mati miðstöðvarinnar verður að tryggja jafnræði aðila þegar kemur að því að velja þjónustuform og útfærslu á NPA. Einnig eru ýmis vandamál samfara því að láta kostnaðarútreikninga sveitarfélaga liggja til grundvallar því hvort umsækjandi um NPA fái samning eða ekki.

Umsögn NPA miðstöðvarinnar er meðfylgjandi þar sem fram koma ítarlegri röksemdir fyrir ofangreindum athugasemdum.

Umsögn NPA miðstöðvarinnar um frumvarp til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar stuðningsþarfir

Opnunartími NPA miðstöðvarinnar í sumar

Opnunartími NPA miðstöðvarinnar í sumar verður mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl. 10:00 til 15:00. Vegna námskeiða starfsfólks verður skrifstofa NPA miðstöðvarinnar lokuð frá 17. júní til 24. júní nk. Jafnframt verður skrifstofan lokuð frá 18. júlí til 29. júlí nk. vegna sumarleyfa.

Ef erindið er brýnt utan opnunartíma má senda tölvupóst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.eða á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Fleiri greinar...