Málþing um notendastýrða persónulega aðstoð

NPA miðstöðin vekur athygli á að þann 17. nóvember nk. verður haldið málþing um NPA á vegum Velferðarráðuneytisins, í samvinnu við Verkefnisstjórn um NPA, á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Aðgangur er öllum opinn og ókeypis, en skráning fer fram á vef ráðuneytisins, sjá hér. Dagskrá málþingsins má nálgast á vef Velferðarráðuneytisins, eða með því að smella hér.

Á málþinginu mun Verkefnisstjórn um NPA kynna tillögur sínar og hugmyndir varðandi fyrirkomulag NPA eftir lögfestingu þjónustunnar. Um er að ræða eitt stærsta hagsmunamál fatlaðs fólks til framtíðar og hvetur NPA miðstöðin því félagsmenn og aðra áhugasama til að fjölmenna á málþingið.

Fréttatilkynning á heimasíðu Velferðarráðuneytisins.

NPA borin saman við stofnanaþjónustu við fatlað fólk

NPA - notendastýrð persónuleg aðstoð

NPA eykur frelsi, losar fjötra og bætir borgaraleg réttindi fatlaðs fólks sem þarf aðstoð í daglegu lífi til að njóta réttinda, sinna skyldum, öðlast ábyrgð og lifa því sjálfstæða lífi sem það vill. Því lífi sem fólk almennt tekur sem sjálfsögðum hlut og allir Íslendingar eiga rétt á skv. Stjórnarskrá, landslögum og mannréttindasáttmálum. Hér verður eldra þjónustukerfi borið saman við NPA bæði hvað varðar skipulag þjónustunnar og kostnaðarþætti. Ekki er um tæmandi yfirlit að ræða, en leitast við að draga fram muninn á NPA og stofnanaþjónustunni.

NPA þjónusta, virkari velferð

NPA færir völd og ábyrgð til fatlaðs fólks frá stofnanaþjónustunni; valdefling. NPA styður við frelsi fólks með þörf fyrir aðstoð og eykur möguleika þess til sjálfstæðs heimilishalds, fjölskyldulífs, menntunar og atvinnu á við aðra. NPA styður við jafnrétti og jafnræði maka fatlaðra borgara.

NPA styður við réttindi barna

NPA þjónusta gerir fjölskyldum fatlaðra barna kleift að lifa sínu lífi eins og aðrar fjölskyldur með börn. Foreldrarnir geta ákveðið og stjórnað daglegu lífi sínu eins og aðrar fjölskyldur. Börnin fá fast, öruggt og viðeigandi aðstoðarfólk skv. eigin vali foreldra. NPA gerir barni með mikla þörf fyrir aðstoð í daglegu lífi mögulegt að búa heima hjá sér eins og sjálfsagt þykir um önnur börn. NPA styður einnig við réttindi barna sem eiga fatlaða foreldra og eru með NPA.

NPA styður við jafnrétti kvenna

74% fólks með NPA þjónustu í Noregi telur þjónustuna „afar mikilvæga“ varðandi það að vera ekki háður fjölskyldu sinni og vinum um aðstoð. Konur sérstaklega meta NPA sem „afar mikilvæga“ í enn stærra hlutfalli en karlar. (Noregur, NHF, Østlandsforskning: Selvstyrt og velstyrt? 2003).

NPA er ekki fyrst og fremst spurning um „hagkvæmni“, hvernig ódýrast er að halda fötluðu fólki á lífi líkt og á fyrri tíð hreppsómaga, átthagafjötra og vistabanda jaðarsettra hópa. Markmið með NPA er að fatlað fólk búi við sama búsetu-, atvinnu- og menntafrelsi og aðrir borgarar og frelsi til athafna og fjölskyldulífs á hverjum degi enda gilda landslög um þessa málaflokka og fleiri um alla borgara, en ekki bara ófatlaða borgara. Þetta virðist stundum gleymast.

NPA þjónusta og núverandi stofnanaþjónusta borin saman

Lesa meira...

Reykjavíkurborg skorar á Alþingi að lögfesta NPA

2016 10 04 15.02.12Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í dag einróma áylktunartillögu um að skora á Alþingi að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk. Í áskoruninni segir jafnframt að tryggja skuli sveitarfélögum nægjanlegt fjármagn til að stuðla að fullnægjandi þjónustu og setja leiðbeinandi reglur um þjónustuna með jafnræði að markmiði. Þá er skorað á Alþingi "að klára málið tafarlaust".

NPA miðstöðin fagnar ályktunartillögu borgarstjórnar Reykjavíkur og tekur undir hana. Mikilvægt er að stjórnvöld taki höndum saman og klári lögfestingu NPA fyrir áramót. Fyrir liggur fullmótuð tillaga frá verkefnisstjórn um NPA hjá Velferðarráðuneytinu, þar sem ríkið, sveitarfélög og hagsmunaðilar hafa komið saman að mótun verklags um framkvæmd og útfærslu á NPA, sem unnt væri að lögfesta á skömmum tíma væri tillagan lögð í þinglega meðferð. Mikil samstaða er um lögfestingu á NPA og hefur verkefnið reynst vel á innleiðingartímabilinu, sbr. niðurstöður skýrslu félagsvísinda- og hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um NPA. Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur enn fremur skapast frekari þrýstingur á íslensk stjórnvöld að ganga hratt í málið.

NPA miðstöðin skorar á fleiri sveitarfélög að leggja fram ályktun um lögfestingu á NPA. Þá hvetur miðstöðin til samstöðu milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustunnar til framtíðar og að fötluðu fólki, sem beðið hefur svo árum skiptir eftir því eiga kost á NPA, verði ekki gert að þola frekari tafir á lögfestingunni.

Fleiri greinar...