Fréttir

Fátt um svör frá sveitarfélögunum – munu sveitarfélög bregðast skyldum sínum?

Rúnar í viðtali í fréttum Stöðvar 2 fyrir utan NPA miðstöðina

Þann 21 júní síðastliðinn sendi NPA miðstöðin frá sér erindi til allra þeirra sveitarfélaga sem að miðstöðin er í samstarfi við ásamt því að birta það opinberlega. Í því erindi var þess krafist að framlög til NPA samninga yrðu hækkuð eða endurreiknuð í til samræmis við ákvæði kjarasamninga aðstoðarfólks, en nýverið var gengið frá hækkunum á kjarasamningum NPA aðstoðarfólks í takt við hækkun á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt lögum og reglugerðum sem gilda um NPA, ber sveitarfélögum skylda til þess að uppfæra NPA samninga í takt við gildandi kjarasamninga.

Því miður hefur lítið borið á svörum frá sveitarfélögum, enn sem komið er. Við bindum þó vonir við að öll sveitarfélög gangi frá þessum hækkunum án frekari tafa, annars má búast við því að notendur þurfi að leita réttar síns.

Allar frekari tafir á leiðréttingum NPA samninga setja notendur NPA í mjög erfiða stöðu. Þessi óvissa veldur andlegri streitu ásamt því að það getur beinlínis verið hættulegt að fólk sem þarf mikla aðstoð við allar athafnir daglegs lífs verði að vera án aðstoðar þar sem það hefur ekki fjármagn til að greiða aðstoðarfólki sínu kjarasamningsbundin laun.

 

Rúnar Björn Herrera Þorkelsson
Formaður NPA miðstöðvarinnar

Lesa >>


Nýjar launatöflur fyrir NPA aðstoðarfólk taka gildi

Samkomulag hefur náðst milli NPA miðstöðvarinnar og Eflingar/SGS um nýjar launatöflur fyrir NPA aðstoðarfólk sem kveða á um sömu hækkanir og gilda á almennum vinnumarkaði. Frekari vinna við útfærslu annarra þátta í sérkjarasamningnum bíður til haustins, en um þá þætti er enn farið skv. eldri sérkjarasamningi.

NPA miðstöðin sendi nú í morgun bréf til sveitarfélaga þar sem þeim er tilkynnt um hækkunina ásamt kröfu um að framlög til NPA samninga verði hækkuð til samræmis við nýjar launatöflur aðstoðarfólks, afturvirkt frá 1. apríl sl. Með bréfinu fylgdi afrit af samningi NPA miðstöðvarinnar og Eflingar ásamt útreikningi miðstöðvarinnar á nýjum jafnaðartaxta sem byggir á uppfærðum launatöflum ásamt forsendum.

Samkvæmt útreikningum NPA miðstöðvarinnar þurfa sveitarfélög að reikna út þrjá taxta, ef styðjast á við jafnaðartaxta á annað borð, þ.e. taxta fyrir sólarhringssamninga hjá notandum sem geta nýtt sér hvíldarvaktir, taxta fyrir sólarhringssamninga hjá notandum sem ekki geta nýtt hvíldarvaktir (vakandi næturvaktir) og svo taxta fyrir samninga sem ekki kveða á næturvinnu. Niðurstöður NPA miðstöðvarinnar eru eftirfarandi:

Fyrir sólarhringssamning hjá notanda sem ekki getur nýtt sér hvíldarvaktir þarf jafnaðartaxti að nema 4.913,04 kr. á klukkustund og heildar samningsfjárhæð á mánuði að nema 3.592.251 kr. (grænn taxti).

Fyrir sólarhringssamnig hjá notanda sem getur nýtt sér hvíldarvaktir þarf jafnaðartaxti að nema 4.476,54 kr. á klukkustund og heildar samningsfjárhæð á mánuði að nema 3.267.877 kr. (gulur taxti).

Jafnaðartaxti samninga sem eru án næturvakta (16 klst. á sólarhring) þarf að nema 4.733,62 kr. á klukkustund (blár taxti).

Útreikningar og forsendur koma fram í skjali NPA miðstöðvarinnar.

NPA miðstöðin bindur vonir við að sveitarfélög afgreiði þessa hækkun hratt og örugglega svo NPA notendur geti greitt aðstoðarfólki sínu kjarasamningsbundin laun.

 

Skjöl með útreikningum og fleiru:

2019.06.14_-_Viðbót_við_kjarasamning_NPA_miðstöðvarinnar_við_Eflingu-SGS_-_nýjar_launatöflur_fyrir_2019.pdf

2019.06.21_-_Bréf_til_sveitarfélaga_vegna_uppfærðra_kjarasamninga.pdf

NPA_jafnaðartaxti_-_Útreikningur_og_forsendur_2019.pdf

Lesa >>


Þroskaþjálfi óskast til starfa

NPA miðstöðin óskar eftir að ráða þroskaþjálfa eða starfsmann með sambærilega menntun í starf sérhæfðs ráðgjafa.

Viðkomandi mun fá tækifæri til þess að taka þátt í að þróa starfið sitt og ásamt því að taka þátt í uppbyggingu á starfsemi og þjónustu NPA miðstöðvarinnar. Markmið starfsins er að skapa umgjörð um framkvæmd NPA, einkum þá þætti er snúa að notendum sem þurfa aðstoð við verkstjórn í NPA. Um er að ræða spennandi, fjölbreytt og lærdómsríkt starf í lifandi starfsumhverfi sem enn er í þróun.

Um getur verið að ræða 50% til 100% starfshlutfall. Unnið er á hefðbundnum skrifstofutíma en vinnutími getur verið sveigjanlegur. Sérstaklega verður horft til umsækjenda sem hafa persónulega reynslu af NPA eða sambærilegu og við tökum fagnandi á móti umsóknum frá fötluðu fólki.

Helstu verkefni:

Ráðgjöf, samskipti og aðstoð við félagsmenn, aðstoðarfólk og aðra um þætti er snúa að framkvæmd NPA og hugmyndafræðina um sjálfstætt líf.

Að taka þátt í almennum störfum og verkefnum á vegum NPA miðstöðvarinnar.

Að veita faglega forystu í starfi.

Að leiðbeina, styðja og hvetja félagsmenn til þátttöku.

Að efla sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt félagsmanna.

Hæfniskröfur:

Þroskaþjálfamenntun og starfsleyfi sem þroskaþjálfi eða önnur sambærileg menntun og reynsla.

Framhaldsnám í fötlunarfræðum er kostur.

Reynsla af skipulagi faglegs starfs á sviði þroskaþjálfunar.

Þjónustulund og jákvætt viðmót.

Færni og lipurð í mannlegum samskiptum.

Sjálfstæði, ábyrgð í starfi og framtakssemi.

Geta til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Almenn og góð tölvukunnátta.

Hreint sakavottorð.

NPA miðstöðin er vaxandi samvinnufélag í eigu fatlaðs fólks og er rekin án ágóðasjónarmiða. Miðstöðin hefur það hlutverk að hafa umsýslu með samningum félagsmanna sinna um notendastýrða persónulega aðstoð (umsýsluaðili). Enn fremur er miðstöðin vinnuveitandi aðstoðarfólks félagsmanna. NPA miðstöðin vinnur samkvæmt hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og tekur virkan þátt í stefnumótun og innleiðingu þeirrar hugmyndafræði.

Umsókn, ásamt ferilskrá, sendist á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Umsóknarfrestur er til og með 13. maí 2019, viðkomandi getur hafið störf eftir samkomulagi. Nánari upplýsingar veitir Hjörtur Eysteinsson, framkvæmdastjóri, í síma 567 8270 eða í gegnum This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 

Lesa >>


Kröfubréf NPA miðstöðvarinnar til sveitarfélaga

NPA miðstöðin sendi nú fyrir skemmstu bréf til félagsmálastjóra hjá flestum sveitarfélögum landsins þar sem þess er krafist að sveitarfélög tileinki sér og aðlagi framkvæmd sína á NPA að ákvæðum laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og ákvæðum reglugerðar nr. 1250/2018 um notendastýrða persónulega aðstoð. Með bréfinu fylgdi minnisblað NPA miðstöðvarinnar um útreikning NPA jafnaðarstundar út frá kjarasamningi NPA aðstoðarfólks.

Bréfið er einnig birt opinberlega og aðgengilegt hér.

Minnisblaðið má nálgast með því að smella hér.

Hér fyrir neðan má sjá kröfuliði NPA miðstöðvarinnar eins og þeir birtast í bréfinu.

 

Kröfuliður: Tilvísun:
Framlög til launakostnaðar í NPA verði reiknaður út frá þeim kjarasamningi sem NPA aðstoðarfólk þiggur laun, sbr. minnisblað NPA miðstöðvarinnar. Framlög til sólarhringssamninga með hvíldarvöktum verði að lágmarki að vera 4.151,63 kr. en að lágmarki 4.559,32 kr. á þeim samningum þar sem þörf er á vakandi næturvöktum. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018.
9. gr., d-liður 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 16. gr. reglugerðar nr. 1250/2018. 
Framlög til NPA samninga verði greidd fyrirfram í upphafi hvers mánaðar. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.
Metið verði vinnuframlag aðstoðarverkstjórnanda í öllum þeim samningum, sem við eiga. Vinnustundafjöldi aðstoðarverkstjórnenda bætist við samkomulag um vinnustundir. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 38/2018 og 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.
Sveitarfélög leggi 1% ofan á hvern NPA samning sem leggst inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna langtímaveikinda. Sveitarfélög myndi sér verklag um hvernig farið skuli með önnur skammtímaveikindi. 20. gr. reglugerðar nr. 1250/2018 og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði.

Sveitarfélög bæti við viðbótarframlagi við NPA samninga vegna skyldunámskeiða aðstoðarfólks og aðstoðarverkstjórnenda.

2. mgr. 19. gr. reglugerðar nr. 1250/2018.

 

Lesa >>


NPA miðstöðin rekur á eftir sveitarfélögum að fara eftir reglugerð um NPA

 

Frá upphafi innleiðingar notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) hafa framlög sveitarfélaga til NPA samninga grundvallast á svonefndum jafnaðartaxta, sem hefur átt að endurspegla heildarkostnað við hverja klukkustund að meðaltali fyrir þjónustu samkvæmt NPA samningnum. Til að byrja með gaf verkefnisstjórn um NPA út þennan jafnaðartaxta, en undir lok árs 2015 tilkynnti verkefnisstjórnin að hún myndi hætta að gefa taxtann út og beindi þeim fyrirmælum til sveitarfélaga að miða greiðslur við ákvæði kjarasamninga.

Síðan verkefnisstjórnin hætti að gefa jafnaðartaxtann út hafa sveitarfélög reiknað út sína eigin taxta. Þróunin hefur svo orðið sú að um mitt síðasta ár var ekkert sveitarfélag á landinu, sem NPA miðstöðin hefur verið í samstarfi við, að notast við sama taxtann og í mörgum tilfellum hefur verið umtalsverður munur. Jafnaðartaxtar sveitarfélaga áttu það þó allir sameiginlegt að standa ekki undir kjarasamningsbundnum greiðslum til NPA aðstoðarfólks í blandaðri vaktavinnu.

NPA miðstöðin hefur lagt umtalsverða vinnu í að reikna út réttan jafnaðartaxta NPA samninga út frá kjarasamningi NPA aðstoðarfólks, þ.e. kjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu/SGS. Síðastliðið sumar og haust kynnti miðstöðin niðurstöður sínar fyrir sveitarfélögum með minnisblaði um útreikninga sína. Jafnframt skoraði miðstöðin á sveitarfélög að leggja fram eigin útreikninga og rökstuðning fyrir sínum jafnaðartöxtum, ellegar aðlaga sína taxta að útreikningum NPA miðstöðvarinnar. Nokkur sveitarfélög hafa í kjölfarið brugðist við minnisblaðinu og uppfært sína taxta til samræmis við útreikninga NPA miðstöðvarinnar.

Með lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir var lögfestur réttur fatlaðs fólks til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA), sbr. 11. gr. laganna. Samhliða gildistöku laganna birti Velferðarráðuneytið, nú Félagsmálaráðuneytið, reglugerð nr. 1250/2018 um NPA. Í lögunum og reglugerðinni er skýrt kveðið á um skyldu sveitarfélaga og notenda að virða kjarasamninga og að greiðslur til NPA skuli taka mið af kjarasamningum NPA aðstoðarfólks. Í því sambandi er einkum bent á 16. gr. reglugerðarinnar. Þrátt fyrir það hafa mörg sveitarfélög ekki enn brugðist við og uppfært sínar greiðslur.

Á næstu dögum mun NPA miðstöðin senda uppfært minnisblað til sveitarfélaga ásamt kröfubréfi um að þau aðlagi greiðslur sínar til samræmis við gildandi lög og reglugerð um NPA. Brýnt er að sveitarfélög bregðist strax við, enda eru greiðslur í dag í mörgum tilfellum ófullnægjandi og setja marga NPA notendur í erfiða stöðu. Samkvæmt minnisblaði NPA miðstöðvarinnar verður jafnaðartaxti sveitarfélaga að vera að lágmarki 4.151,63 kr. á sólarhringssamningum sem geta nýtt sér undanþáguákvæði í sérkjarasamningi NPA miðstöðvarinnar við Eflingu/SGS um hvíldarvaktir, en 4.559,32 kr. á samningum sem ekki geta nýtt sér hvíldarvaktafyrirkomulagið. Þá er einnig brýnt að sveitarfélög taki upp það verklag sem kveðið  er á um reglugerðinni, til dæmis að framlög séu greidd fyrirfram í upphafi hvers mánaðar og að tekið verði tillit til viðbótarálags vegna aðstoðarverkstjórnar svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að nálgast minnisblað NPA miðstöðvarinnar hér.

Lesa >>Fréttasafn