Hlutverk NPA miðstöðvarinnar
NPA miðstöðin er samvinnufélag í eigu fatlaðs fólks sem styður einstaklinga við að lifa sjálfstæðu lífi með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA). Miðstöðin starfar samkvæmt hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf, þar sem fatlað fólk stjórnar sinni eigin aðstoð á eigin forsendum.
Umsýsla og aðstoð við NPA samninga
NPA miðstöðin aðstoðar félagsfólk sitt með alla þætti sem snúa að framkvæmd NPA samninga. Þetta felur í sér bókhaldsþjónustu, launagreiðslur til aðstoðarfólks og önnur launatengd mál. Við leggjum einnig áherslu á faglegt utanumhald og aðstoð við verkstjórn, sem gerir notendum kleift að stjórna sínum eigin samningum.
Þjónusta við félagsfólk
Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar fá fjölbreytta og sérhæfða þjónustu sem snýr að öllum þáttum NPA samninga. Þessi þjónusta inniheldur meðal annars:
- Aðstoð við samskipti við sveitarfélög, svo sem við mat á þjónustuþörf og umsóknir um NPA.
- Ráðgjöf í skipulagningu vakta og vinnustunda, þar með talið hvernig best er að nýta vinnustundir til að mæta þörfum verkstjórnenda.
- Ráðgjöf við ráðningarferli, svo sem við að auglýsa eftir aðstoðarfólki, velja hæfasta starfsfólk og gera ráðningarsamninga.
- Aðstoð við að leysa úr ágreiningsmálum sem kunna að koma upp í samskiptum verkstjórnenda við aðstoðarfólk eða sveitarfélög.
- Fræðslu og þjálfun til að styrkja félagsfólk í verkstjórn og til að auðvelda þeim að sinna hlutverki sínu sem verkstjórnendur.
Jafningjaráðgjöf og fræðsla
Jafningjaráðgjöf er eitt af kjarnahlutverkum NPA miðstöðvarinnar. Hugmyndin á bak við jafningjaráðgjöf er að fatlað fólk sem nýtir sér NPA getur miðlað af reynslu sinni til annarra verkstjórnenda eða þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í átt að sjálfstæðu lífi. Þessi reynslumiðlun getur verið ómetanleg þar sem hún byggir á persónulegum tengslum og sameiginlegri reynslu af því að lifa með fötlun. Með jafningjaráðgjöf er hægt að:
- Styðja fólk í að taka ákvarðanir um hvernig það vill skipuleggja sína persónulegu aðstoð og hvernig það vill haga daglegu lífi.
- Miðla hagnýtum ráðleggingum um verkstjórnarhlutverkið, allt frá því hvernig á að ráða aðstoðarfólk til þess hvernig á að byggja upp samstarf við það.
Fræðsla er einnig mikilvægur hluti af starfsemi NPA miðstöðvarinnar. Hún snýr bæði að notendum NPA og aðstoðarfólki þeirra. Miðstöðin skipuleggur reglulega námskeið og fræðslu þar sem farið er yfir:
- Grunnatriði um verkstjórn og hvernig notendur geta stýrt sinni aðstoð á sem bestan hátt sem verkstjórnendur.
- Starfsaðferðir og réttindi aðstoðarfólks til að tryggja fagleg vinnubrögð og góð samskipti á milli aðstoðarfólks og verkstjórnenda.
- Endurmenntun og framhaldsnámskeið til að styrkja bæði verksjtórnendur og aðstoðarfólk, með það að markmiði að bæta þjónustuna og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks.
Fræðslan hjálpar bæði verkstjórnendum og aðstoðarfólki að takast á við þær áskoranir sem fylgja því að veita og nýta NPA þjónustu, og gerir notendum kleift að vera betur upplýstir og virkir verkstjórnendur í eigin lífi.
Hagsmunagæsla og pólitísk barátta
NPA miðstöðin sinnir hagsmunagæslu fyrir félagsfólk sitt og aðra NPA notendur almennt, ásamt því að berjast fyrir bættum réttindum fatlaðs fólks á Íslandi. Miðstöðin vinnur að því að tryggja að NPA sé aðgengilegt fyrir öll sem þess þurfa og að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SSRFF). Við leggjum áherslu á eftirfarandi atriði:
- Að NPA sé tryggt sem lögbundinn réttur fyrir öll sem þurfa á aðstoð að halda, óháð búsetu.
- Að tryggja að fjármagnið fylgi einstaklingnum ef flytja skal á milli sveitarfélaga, svo að fatlað fólk geti flutt og breytt búsetu án þess að það komi niður á lífsgæðum þeirra.
- Að gæta hagsmuna NPA notenda í samskiptum við sveitarfélög og stjórnvöld, og stuðla að því að réttindi fatlaðs fólks séu virt á öllum sviðum samfélagsins.
NPA miðstöðin tekur virkan þátt í opinberri umræðu og berst fyrir því að fatlað fólk njóti jafns réttar og ófatlaðir einstaklingar, bæði þegar kemur að sjálfstæðu lífi, réttindum til að velja sína þjónustu og fullri samfélagsþátttöku. Miðstöðin vinnur einnig að því að auka þekkingu og skilning á NPA og hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf, bæði innan stjórnsýslunnar og hjá almenningi.