Notendastýrð persónulega aðstoð (NPA) er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Fatlað fólk stýrir því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvað aðstoð er veitt við, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Markmið NPA er að við sem fatlað fólk getum lifað lífi okkar og haft sömu möguleika og ófatlað fólk. Einnig að við höfum hámarks stjórn á því að móta okkar eiginn lífsstíl.

NPA samningur

Fatlað fólk semur við sitt sveitafélag um að sjá um og skipuleggja sína eigin aðstoð. Einstaklingurinn og sveitarfélagið gera þá svokallaðann NPA samning sín á milli.

Við gerð NPA samninga þarf einstaklingurinn að meta sínar þarfir og væntingar, enda er sjálfsmat mikilvægt atriði í hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Síðan koma sveitarfélagið og einstaklingurinn sér saman um þjónustuþörf einstaklingsins, þar sem sjálfsmatið er lagt til grundvallar. Út frá því er svo áætlað mánaðarlegt fjárframlag sveitarfélagsins til einstaklingsins svo að hann geti séð um og skipulagt þjónustuna sjálfur eftir sínum þörfum og hentisemi.

Fjármagnið sem einstaklingurinn fær skiptist í þrjá hluta:

  • 85% laun og launatengd gjöld til aðstoðarfólks.
  • 10% umsýslukostnaður sem fer til umsýsluaðila.
  • 5% vegna útlagðs kostnaðar við aðstoðarfólk.

NPA verkstjórn

Þegar þú ert kominn með NPA ert þú í hlutverki verkstjórnanda aðstoðarfólks þíns, færð völd og ábyrgð. ­Einnig hefur þú val um að sjá alfarið um umsýsluna ­sjálfur eða leita til umsýsluaðila eins og NPA miðstöðvarinnar.

Ætlir þú að taka að þér umsýsluna sjálfur þá fylgja því mörg verkefni og mikil ábyrgð, enda gerist þú vinnuveitandi aðstoðarfólks þíns. Þú þarft að kynna þér ítarlega lög og reglur um vinnuvernd, skattamál, tryggingamál, kjaramál og annað sem vinnuveitandi þarf að vera með á hreinu.

Hver?

Verkstjórnandahlutverkinu fylgir að þú velur þér aðstoðarfólk sem hentar lífstíl og kröfum þínum með því að útbúa auglýsingu og taka viðtöl við umsækjendur. Aðstoðarfólk vinnur svo samkvæmt starfslýsingu og/eða leiðbeiningum sem þú semur sjálfur.

Hvað?

Þú ákveður hvaða verk eru unnin, við hvað aðstoðin er veitt, við hvaða athafnir.

Hvar?

Þú ákveður hvar aðstoðin er veitt, heima eða á ferð og flugi í samfélaginu og hefur þannig búsetu-, ferða- og athafnafrelsi.

Hvenær?

Þú færð frelsi til þess að ráða hvenær aðstoðin er veitt og stýrir því hvenær þú ferð á fætur, að versla, í bað, elda mat, í vinnu eða skóla, stunda áhugamál o.s.frv.

Hvernig?

Þú skipuleggur aðstoðina eftir þínum lífsstíl með því að skipuleggja vinnufyrirkomulag og vaktaplan ásamt því að stýra því hvernig hlutirnir eru framkvæmdir.

Ragnar Gunnar

Ég hef verið hreyfihamlaður frá unglingsaldri og þarfir mínar fyrir aðstoð hafa aukist með aldrinum. NPA hefur endurnýjað skilning minn á hugtökunum frelsi, vald og ábyrgð í mínu eigin daglega lífi. Að hafa NPA hefur styrkt mig, stöðu mína og hlutverk í fjölskyldunni og samfélaginu svo um munar. Löngunin og getan til að vera virkur þátttakandi í amstri daglegs lífs hefur vaxið. Að þurfa aðstoð er ekki lengur hefting heldur frelsi. Ég væri ekki ennþá í því starfi sem ég hef stundað í áratugi ef ég hefði ekki NPA í dag.
Ragnar Gunnar