Fulltrúar NPA miðstöðvarinnar, þau Erna Eiríksdóttir fræðslustýra og Hjörtur Örn Eysteinsson framkvæmdastjóri, heimsóttu Akureyri og nágrannasveitarfélög dagana 18.-21. nóvember síðastliðinn. Tilgangur ferðarinnar var að halda námskeið fyrir NPA verkstjórnendur og aðstoðarfólk norðan heiða og að heimsækja sveitarfélögin Akureyri, Dalvík og Þingeyjarsveit.
Almenn ánægja með skyndihjálparnámskeið
Mánudaginn 18. nóvember var haldið skyndihjálparnámskeið í samvinnu við Rauða krossinn. Námskeiðið tókst vel og ríkti almenn ánægja með það.
Hlutfall kynja með öðrum hætti en vanalega
19. nóvember var komið að því að halda námskeiðið „Hugmyndafræðin um sjálfstætt líf, hlutverk og ábyrgð“ og spunnust miklar umræður á námskeiðinu. Samsetning hópsins sem sótti námskeiðið var allt önnur en gengur og gerist á NPA námskeiðunum, þar sem hann samanstóð eingöngu af karlmönnum.
Báða námskeiðsdagana setti veðrið strik í reikninginn. Sum þeirra sem höfðu ætlað sér að mæta á námskeið voru veðurteppt og komust þar af leiðandi færri á námskeiðin en höfðu skráð sig í upphafi.
Ánægjuleg samtöl við fulltrúa sveitarfélaga
Miðvikudaginn 20. nóvember og fimmtudaginn 21. nóvember voru haldnir fundir með þremur sveitarfélögum á Norðurlandi. Á miðvikudeginum fóru Erna, Hjörtur og Breki Arnarsson, NPA ráðgjafi verkstjórnenda á Norðurlandi og Vestfjörðum í heimsókn til Dalvíkur. Á fimmtudeginum héldu þau fund með sviðsstjóra fjölskyldusviðs Þingeyjarsveitar og svo seinna sama dag með starfsfólki velferðarsviðs Akureyrarbæjar.
Samkvæmt Ernu og Hirti, hefðu þau getað setið mun lengur með fulltrúum allra sveitarfélagana til að ræða NPA og þróun NPA á Íslandi. Öll voru sammála um að það hafi veri gott að sjá andlitin á bak við tölvuskjáinn.
Á heildina litið voru þetta góðir dagar á Norðurlandi og frábært að hafa loksins haldið NPA námskeið norðan heiða.
Myndlýsing með mynd á forsíðu: Á myndinni má sjá hvítt hús og allt í kring eru há tré sem eru þakin snjó. Segja má að myndin sýni mikið vetrarríki.
Myndlýsing með mynd inn í frétt: Á myndinni má sjá hóp fólks sem er á skyndihjálparnámskeiði. Þrír menn eru á gólfinu og eru að æfa hjartahnoð. Þá er maður í hjólastól og tvær konur sem standa og fylgjast með en þær eru báðar ljóshærðar og heldur önnur þeirra á lítilli dúkku. Hún er í svörtum bol og svörtum buxum en hin konan er í hvítri peysu og svörtum buxum. Maðurinn í hjólastólnum er í grárri peysu, svörtum buxum og brúnum skóm.
Myndir: Erna Eiríksdóttir