Æskilegt er að byrja tímanlega að huga að skipulagi orlofs aðstoðarfólks, þ.e. hvenær aðstoðarfólk tekur sumarfrí. Röskun á aðstoð við verkstjórnendur í tengslum við sumarfrí aðstoðarfólks verður líklega minni, sé sumarfrí skipulagt tímanlega. Einnig er það líklegt til að koma sér vel fyrir aðstoðarfólk sem í sumum tilvikum þarf sjálft að skipuleggja sín sumarfrí með góðum fyrirvara,t.d. vegna sumarlokana í leik- og grunnskólum eða ferðalaga.
24 daga orlofsréttur
Aðstoðarfólk á rétt á að taka að minnsta kosti 24 daga orlof á orlofsárinu.
- Orlofstími aðstoðarfólks nær frá 2. maí til 30. september ár hvert.
- Aðstoðarfólk hefur rétt á að taka fjórar vikur samfelldar (20 af 24 dögum) í orlof á því tímabili.
- Aðstoðarfólk getur skipt upp orlofinu eða geymt á milli tímabila ef verkstjórnandi samþykkir það.
Orlofslaun eru greidd út um miðjan maí ár hvert og eru þau laun aðstoðarfólks á meðan á sumarleyfi stendur.
Góð samskipti mikilvæg
- Byrjaðu sem fyrst að ræða fyrirhugað sumarfrí við þitt aðstoðarfólk og heyra hverjar óskir þess eru.
- Mikilvægt er að upplýsa aðstoðarfólk strax um að mögulega geti þau ekki öll fengið sumarfrí á þeim tíma sem hentar þeim best, til dæmis ef mörg vilja fara í sumarfrí á sama tíma.
- Góð upplýsingagjöf er líkleg til að minnka óvissu og ef reynt er að taka tillit til óska aðstoðarfólks hjálpar það til við að skapa góðan anda.
Sumarfrístími aðstoðarfólks liggi fyrir í mars eða apríl
Þegar verkstjórnandi hefur heyrt óskir aðstoðarfólks um hvenær það vill taka sumarfrí, getur verið gott að setja þær niður á blað og athuga hvernig óskir aðstoðarfólks um sumarfrí koma út, með tilliti til þess hvort mörg vilja vera í sumarfríi á sama tíma.
- Verkstjórnanda ber að tilkynna aðstoðarfólki sínu um hvenær orlof skal hefjast, í síðasta lagi mánuði fyrir byrjun orlofs á hverjum tíma.
- Ágætt viðmið er að sumarfrístími aðstoðarfólks liggi fyrir í mars eða apríl,
Afleysingar og endurskipulagning
Í fjarveru aðstoðarfólks getur þú mögulega þurft að ráða tímabundið aðstoðarfólk í afleysingar, breyta starfshlutföllum eða endurskipuleggja þig, sé það hægt.
Athugið að félagsfólk miðstöðvarinnar hefur einnig aðgang að:
- Ítarefni um skipulag vakta yfir hátíðar
- Eyðublaði þar sem hægt er að skrá inn sumarfrí aðstoðarfólks
- Sérstökum ferðasamningum fyrir aðstoðarfólk áður en haldið er upp í ferðalög
- Sérstakri handbók fyrir verkstjórnendur
Myndlýsing:
Mynd 1: Á myndinni má sjá ýmsa hluti sem fólk tekur með sér í sumarfrí en þeir liggja á borði úr brúnum og hvítum við. Þarna má sjá hvítan og svartan strandhatt, rauðan krossfisk, bleik og hvít sólgleraugu, hvíta og ljósbrúna kuðunga og skeljar, gráan og svartan áttavita, blá og rauð vegabréf, hvítan iPhone síma, gráa og svarta myndavél, hvíta og ljósgræna flugvél og bláa strandskó.
Mynd 2: Á myndinni má sjá ýmsa hluti sem fólk tekur með sér í ferðalög á brúnu borði. Eins og bleikt handklæði, bláan og hvítan strandhatt með svörtum borða í miðjunni, gráa og svarta myndavél og litla kuðunga. Fyrir aftan sést blár spegilsléttur sjór og sól