Skip to Content

NPA miðstöðin opnar útibú á Akureyri

10. apríl 2025 by
NPA miðstöðin opnar útibú á Akureyri
NPA miðstöðin svf, Andri Valgeirsson

NPA miðstöðin tilkynnir með mikilli ánægju opnun útibús miðstöðvarinnar á Akureyri. Aðsetur NPA miðstöðvarinnar verður á 6. hæð í Hafnarstræti 97, á sama stað og Grófin geðrækt. Á hæðinni er NPA miðstöðin með aðstöðu til þess að taka á móti fólki, halda fundi og sinna fræðslu. Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar getur einnig nýtt aðstöðu NPA miðstöðvarinnar á Akureyri til þess að taka atvinnuviðtöl, halda starfsmannafundi, skipuleggja fræðsluerindi o.fl.

Einn ráðgjafi hjá NPA miðstöðinni, Breki Arnarsson, verður með fasta viðveru á skrifstofunni á Akureyri. Breki er menntaður vinnusálfræðingur og hefur starfað sem NPA ráðgjafi hjá miðstöðinni frá janúar 2023. Hans helsta hlutverk verður að veita félagsfólki NPA miðstöðvarinnar á Norðurlandi og Vestfjörðum ráðgjöf og aðstoðarfólki þess, auk þess að byggja upp starfsemi miðstöðvarinnar á Norðurlandi.

Með opnun skrifstofunnar á Akureyri gefst NPA miðstöðinni nú enn betra tækifæri til þess að veita öfluga nærþjónustu við félagsfólk sitt á Norðurlandi en áður. Fulltrúar NPA miðstöðvarinnar hlakka mikið til að styrkja enn frekar sambandið við félagsfólk miðstöðvarinnar á landsbyggðinni og að geta einnig verið til staðar fyrir fatlað fólk sem hefur áhuga á að fræðast meira um NPA og fá ráðgjöf um allt sem því við kemur.

Félagsfólk NPA miðstöðvarinnar er hvatt til þess að nýta sér aðstöðuna og sömuleiðis eru öll áhugasöm hvött til að hafa samband við NPA miðstöðina og panta tíma hjá Breka í ráðgjöf!

Myndlýsing: 
Mynd 1:
Breki stendur við glugga og fyrir utan má sjá svalahandrið, þök og hvíta jörð. Breki er brosandi með dökkbrúnt hár, gleraugu og skegg og í hvítri skyrtu. 
Mynd 2:
Breki situr við tölvu og horfir á tölvuskjá. Í forgrunni má sjá tvo svarta tölvuskjái og fartölvu. Í bakgrunni er glugginn og sést út á svalir og þaðan í nágrannabyggð og Eyjafjörðinn. Það er snjór úti. 

Myndir: Shean.