Sigurður Egill Ólafsson er NPA aðstoðarmaður og trúnaðarmaður NPA starfsfólks hjá stéttarfélaginu Eflingu. Frá árinu 2013 hefur Sigurður starfað sem NPA aðstoðarmaður. Sigurður Egill var upphaflega að leita sér að hlutastarfi en eftir að hafa fengið góða tilfinningu í starfsviðtali, sló hann til og var ráðinn í fullt starf.
Sigurður Egill Ólafsson er borinn og barnfæddur Reykjavíkingur, fæddur árið 1980. Sigurður á tvíburabróður en þeir bræður eru eineggja. Hann segir að það hafi verið skemmtilegt að eiga tvíburabróður, þeir hafi verið góðir vinir sem hafi átt margt sameiginlegt. „En á yngri árum var það ekki alltaf kostur og hefði verið betra að fá að vera meiri einstaklingur en ekki bara vera einn af tvíburunum.“ Auk þess á Sigurður einn yngri bróður.
Áhugamál Sigurðar eru meðal annars líkamsrækt, snjóbretti, göngur, hjólareiðar og að semja raftónlist. Þá býr Sigurður Egill í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni og tveimur dætrum.
Góð tilfinning í starfsviðtali
Árið
2013 var að Sigurður að vinna við frumkvöðlastarfsemi ásamt hópi fólks
og snérist það um að rannsaka heilsu og langlífi. „Það gaf ekki mikið af
sér og þar með fór ég að leita að einhverju samhliða.“ Sigurður sá
auglýsingu þar sem verið var að leita eftir NPA aðstoðarmanni og var
boðaður í starfsviðtal. „Ég var frekar með hlutastarf í huga áður en ég
mætti í starfsviðtalið. En eftir að hafa fengið góða tilfinningu í
starfsviðtalinu byrjaði ég strax í fullri vinnu,“ segir Sigurður sem
vann áfram að frumkvöðlaverkefninu samhliða aðstoðarmannsstarfinu en
hætti í því á endanum og hefur starfað sem NPA aðstoðarmaður síðan.
Það sem einum finnst kostur, finnst öðrum vera ókostur
Sigurður
þekkti ekkert til NPA áður en hann sá starfsauglýsinguna og hóf að lesa
sér til um NPA og hugmyndafræðina um sjálfstætt líf. Aðspurður um
helstu kosti starfsins segir Sigurður að það sem sumum finnist vera
kostur geti öðrum fundist vera ókostur. „En fyrir mig getur óhefðbundinn
vinnutími, með löngum vöktum og löngu fríi á móti verið kostur.“
Margt má betur fara í aðgengismálum
Hvað
er það sem Sigurður hefur helst lært í starfi sínu sem aðstoðarmaður?
„Ég hef lært hvað það standa margar hindranir í samfélaginu fyrir fólki
sem er með fatlanir, til dæmis hvað það er margt sem má betur fara í
aðgengismálum, sem er eitthvað sem forrréttindapési eins og ég hafði
lítið velt fyrir mér né upplifað áður.“
Ýmsar áskoranir fylgja starfi aðstoðarfólks
Sigurður
segir að ýmsar áskoranir fylgi starfinu, eins og að lesa úr aðstæðum
hvenær er gott að vera til staðar og hvenær er gott að halda sig til
hlés. „Svo má ekki gleyma sinu hlutverki í vinnunni og þá sérstaklega ef
vinátta myndast, að passa að halda trúnaði um vinnu sína,“ segir
Sigurður. En hvað þarf góður aðstoðarmaður að hafa til brunns að bera?
„Þolinmæði, hlusta vel og fara eftir leiðbeiningum, jákvætt viðhorf,
stundvísi, geta lesið úr aðstæðum, fara varlega ef vinátta myndast og
skilja sitt hlutverk í vinnunni.
Í starfi trúnaðarmanns NPA aðstoðarfólks
Í
september 2021 tók Sigurður Egill að sér starf trúnaðarmanns NPA
aðstoðarfólks hjá stéttarfélaginu Eflingu. Sigurður segir að
aðstoðarfólk geti leitað til hans með spurningar um kjaramál, launaseðla
og réttindi sín eða ef það hefur einhverjar spurningar um
starfsaðstæður eða atvik við störf. „Til dæmis ef eitthvað óþægilegt eða
erfitt kemur upp á sem það vill fá ráðleggingar eða aðstoð við,“ segir
Sigurður og heldur áfram. „En það þarf ekki einu sinni að vera eitthvað
ákveðið atvik eða vandamál, því það má alveg vera smá þörf fyrir að ræða
aðeins um vinnuna sína. Aðstoðarfólk hefur skrifað undir
trúnaðarsamning gagnvart sínum verkstjórnanda, en það nær ekki yfir
samskipti við trúnaðarmann þannig það má alltaf ræða við mig og ég tek
öllum vel.“
Mikilvægt að finna tilgang í starfi
Er starfið gefandi?
Sigurður segir að starfið hafi veitt honum innsýn inn í daglegt líf
fatlaðs fólks og þær hindranir sem það mætir í samfélaginu. Fyrir utan
þá innsýn, sem allir hafa gott af að öðlast, þá sé rosalega gefandi að
starfa sem NPA aðstoðarmaður. „Mér finnst mikilvægt að finna tilgang í
starfi og starfa við eitthvað sem gerir samfélagið betra og það er góð
tilfinning að eiga þátt í því að sjá hvernig fatlaður einstaklingur
getur blómstrað í sínu lífi og samfélaginu með NPA,“ segir Sigurður
Egill.
Starfið hentar sumum, öðrum ekki
Við
erum öll mismunandi og ekkert eitt hentar öllum. Aðspurður segir
Sigurður að starf NPA aðstoðarmanns henti sumum, öðrum ekki. „Sumum
finnst þetta skemmtilegt, finnst vinnutíminn góður, eiga ekki erfitt með
að tileinka sér hugmyndafræðina og standa sig vel í sínu starfi. Á
meðan öðrum getur þótt þetta krefjandi og eiga erfitt með að setja sig í
spor verkstjórnanda.“ Sigurður hvetur þau sem eru að íhuga að sækja um
starf NPA aðstoðarfólks að láta vaða. „Ekki hika! Kannski finnið þið
ykkur í svona starfi,“ segir Sigurður Egill að lokum.
Myndlýsing á mynd inn í fréttinni: Á myndinni má sjá mann standa við afturendann á dökkbláum bíl og er að setja upp lyftu fyrir hjólastóla. Maðurinn er dökkhærður og er klæddur í svarta úlpu, dökkbláa peysu og í svartar buxur. Fyrir aftan manninn má sjá svartan bíl í fjarska sem hefur verið lagt á stóru bílaplani.
Myndir: Ernir Eyjólfsson
Texti: Ágústa Arna