Skip to Content

Sá listnámið sem pólitískan gjörning

17. mars 2025 by
Sá listnámið sem pólitískan gjörning
NPA miðstöðin svf, Andri Valgeirsson

Fyrr í þessum mánuði var leikverkið Taktu flugið, beibí! eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur frumsýnt en það byggir á reynslu hennar af því að greinast með vöðvasjúkdóm á unglingsaldri. Í kjölfar þess kom Kolbrún út úr skápnum sem fötluð valkyrja. Í viðtali við Ágústu Örnu ræðir Kolbrún Taktu flugið beibí!, námið á sviðslistabraut þar sem hún var fyrsti nemandinn sem notaði hjólastól og samstarfið við Þjóðleikhúsið í kjölfar málþings sem braut niður ósýnilega múra. Taktu flugið, beibí! verður til sýninga næstu tvær vikur eða til 3. október, í það minnsta.


Kolbrún Dögg er fædd árið 1972 og er uppalin í Hafnarfirði. Hún bjó fyrstu tvö árin í kjallara í Grænukinn og flutti svo í blokk í Breiðvanginum eða Broadway þar sem hún bjó til sextán ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan í Setbergið í Hafnarfirði sem einnig var kallað Hollywood.


„Þegar ég fór að heiman flutti ég fyrst í Sjálfsbjargarhúsið í eitt ár, leigði svo íbúð af Brynju hússjóði í Sóltúni í níu ár áður en ég flutti með manni mínum, Ragnari Gunnari Þórhallssyni og syni í eigin íbúð í Mosfellsbæ árið 2005.“


Hvernig var að alast upp í Hafnarfirði á þessum árum? Kolbrún segir að það hafi verið æðislegt ævintýri. „Að leika sér úti í hrauni sem var víða og í Hellisgerði þar sem mamma mín sá um blómasölu á sumrin og pabbi var garðyrkjustjóri.“



Eldamennskan ákveðin hvíld frá tölvuskjánum

Áhugamál Kolbrúnar eru margvísleg. Hún hefur áhuga á fólki og að skrifa og skapa. „Segja sögur, bæði persónulegar sannsögur sem og skáldsögur, til að skilja mig, annað fólk og umhverfið. Fjalla um angist og kvöl annarra og fegurðina í mannlegum samskiptum.“ Kolbrún segist ekki eiga nein sérstök áhugamál önnur en að fara í leikhús, lesa, hlusta á Rás 1 eða Samstöðina. „Annars finnst mér gaman að elda sem betur fer því maðurinn minn er ekki mikið fyrir það. Að elda finnst mér vera skapandi og ákveðin hvíld frá tölvuskjánum.“


Mikil áskorun að vera í stífu listnámi

Kolbrún hóf nám á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands árið 2018 og útskrifaðist með BA gráðu í sviðslistum sumarið 2021. „Ég ákvað að banka á dyr LHÍ, 2018, þar sem ég frétti af því að sviðslistadeildin var að flytja í aðgengilegt húsnæði. Á þeim tíma var ég svo sem ekkert á leið í listnám en sá þetta sem pólitískan gjörning. Ég komst í inntökupróf og var ein af tíu sem var valin það árið.“ Kolbrún segir að það hafi verið mikil áskorun að vera í fullu listnámi og fannst henni stundum eins og hún væri að drukkna á meðan hún var í náminu. „En ég náði að halda út og klára. Ég var fyrsti nemandinn í hjólastól til að stunda nám í sviðslistum á Íslandi. Þannig ef ég hefði hætt þá fannst mér ég vera að svíkja fatlað fólk. Það var góður skóli en mikil áskorun að vera í stífu listnámi allan daginn og gott betur.“


Þroskaþjálfafræði og fötlunarfræði nýtast við skriftir

Í júní lauk Kolbrún meistaragráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. „Ég bjóst ekki við að komast inn þar sem það er mjög vinsælt nám. Það var mjög skemmtilegt og náði ég að ljúka því á tveimur árum og útskrifaðist í júní síðastliðnum. Auk þess hef ég lokið BA í þroskaþjálfafræði og stundað nám í fötlunarfræði við Háskóla Íslands sem hefur nýst mér vel í skrifum og til að átta sig á hvað mótar og hvað viðheldur fötlun.“


Kom út úr skápnum sem fötluð valkyrja

Kolbrún sækir innblástur að verkinu Taktu flugið, beibí! í eigið líf. „Innblásturinn kemur frá minni reynslu af því að vera ófatlað barn og mæta ýmsum áskorunum og hindrunum við það að greinast með vöðvasjúkdóm á unglingsaldri og koma út úr skápnum sem fötluð valkyrja.“


Lærði að treysta ferlinu

Hvað leið langur tími frá því að hugmyndin að verkinu var fyrst sett niður á blað þar til handritið var tilbúið? Kolbrún segir að hún hafi skrifað upphaflega handritið að verkinu á þremur mánuðum. „Eftir að Þjóðleikhúsið keypti af mér verkið hef ég verið að vinna í handritinu ásamt Ilmi Stefánsdóttur leikstjóra í eitt ár áður en við hófum æfingar út á gólfi í vor. En ég vissi að verkið myndi einnig þróast og breytast á æfingatímabilinu. Ég lærði í námi mínu í Listaháskólanum að treysta ferlinu, vera opin og þora að stíga út í óvissuna.“


Handrit að leikriti unnið út frá lokaverkefni

Að sögn Kolbrúnar er verkið Taktu flugið, beibí! unnið út frá leikhandriti sem hún skrifaði upphaflega sem lokaverkefni á sviðslistabraut 2021 og hét þá „KÁM - Þeir síðustu verða fyrstir“. Verkið var leiklesið af Þuríði Blæ Jóhannesdóttur leikkonu, sem einnig fer með hlutverk í uppfærslunni nú. „Eftir útskrift sendi ég svo handritið til Þjóðleikhússins sem þá var að auglýsa eftir verkum eftir konum. Á þeim tímapunkti kom það ekki til greina en var tekið upp aftur eftir málþing sem haldið var í Þjóðleikhúsinu. Á málþinginu var verið að fjalla um birtingarmyndir fötlunar í sviðslistum. Ég var með innlegg og í pallborði ásamt fleirum. Eftir það féll einhver ósýnilegur múr.“


Hjólin fóru að snúast eftir málþing

Eftir málþingið um birtingarmyndir fötlunar í sviðslistum fóru hjólin að snúast. Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins, kom að máli við Kolbrúnu sem sagði Melkorku frá leikhandritinu sem hún hafði sent til leikhússins ári áður. Melkorka Tekla las handritið og vildi að aðrir innan leikhússins læsu það einnig yfir. Meðal þeirra sem lásu verkið yfir var Ilmur Stefánsdóttir sem átti sæti í leikritavalsnefnd. „Ilmur hreyfst af verkinu og vildi fá að setja það upp. Þjóðleikhússtjóri hafði samband og keypti af mér verkið, sem verk í vinnslu.“ Kolbrún segir að hún og Ilmur hafi verið í góðu samtali um þróun á verkinu áður en æfingar hófust á því í vor.


Ósýnilegur múr hafi fallið

Eru leikhúsin opnari fyrir samstarfi við fatlað fólk en þau voru fyrir nokkrum árum? „Mér líður eins og einhver ósýnilegur múr eða veggur hafi fallið á málþinginu í Þjóðleikhúsinu í október 2022. Ég vona svo innilega að leikhúsin taki stefnu um inngildingu í sviðslistum alvarlega, en verði ekki bara fögur orð á blaði. Að fatlað fólk geti menntað sig í sviðslistum og starfað í meginstraumsleikhúsinu á jafnréttisgrundvelli.


Ökukveðja sýnd á Skjaldborg

Að sögn Kolbrúnar er mikilvægt að fatlað fólk segi sínar sögur í gegnum ólík listform. Leikhúsið er einstakt listform þar sem mikil nánd er á milli leikara og áhorfenda sem getur verkað sterkt á fólk. „Kvikmyndaformið er líka spennandi eins og heimildamyndir. Ég gerði eina slíka þegar ég var á sviðshöfundabraut í mars apríl 2020 þar sem skólinn var lokaður í tvo mánuði vegna heimsfaraldursins. Myndin heitir „Ökukveðja“ og fjallar um reynslu mína af því að hætta að aka bíl og var sýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg það árið og í Bíó Paradís. Lokaverkefni mitt í ritlist var kvikmyndahandrit sem ég hafði ekki glímt við að skrifa áður. Að skrifa kvikmyndahandrit er öðruvísi form en leikritahandrit sem var lærdómsríkt ferli. Kvikmyndahandritið heitir Þvottahöllin og fjallar meðal annars um reynslu fatlaðs fólks af almennum vinnumarkaði.“


Í lokin forvitnast blaðakona um hvort Kolbrún sé með fleiri leikverk á prjónunum. „Nei, ekki eins og er. En ég hef verið að skrifa smásögur í sumar og langar að halda því áfram og gefa út,“ segir Kolbrún að lokum.


Myndlýsing með mynd inn í greininni: Kolbrún er með stutt dökkt hár, er í svörtum bol, svörtum buxum, er með appelsínugult sjal og er í hjólastól. Þá heldur Kolbrún á hvítu hefti sem er með svörtum gormum og á því stendur með svörtum stöfum „KÁM-þeir síðustu verða fyrstir.“


Myndlýsing með mynd á forsíðu: Á myndinni má sjá Kolbrúnu á sviðinu í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Kolbrún dökkhærð, í kjól úr glansandi efni, er með ljósan tjull kraga um hálsinn og er í hjólastól. Bakgrunnurinn er lýstur upp með daufri fjólublárri lýsingu.


Texti: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir


Myndir: Þjóðleikhúsið og mynd úr einkasafni Kolbrúnar Daggar.